151. löggjafarþing — 89. fundur,  4. maí 2021.

málefni innflytjenda.

452. mál
[22:10]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Nú veit ég ekki hvort hv. þingmaður missti af inngangsorðum mínum en ég var hér að lesa upp úr stefnu danskra jafnaðarmanna. Ekki veit ég hvort hv. þingmaður ætlast til þess að ég skilgreini nákvæmlega hvað danskir jafnaðarmenn eiga við með menningarhópum en ég ímynda mér, ef ég á að gera tilraun til, að það snúist um að þeir ætlist til þess að þeir sem vilja flytja til Danmerkur og gerast þátttakendur í dönsku samfélagi lagi sig að danskri menningarhefð varðandi hluti á borð við lýðræðislegt frjálslyndi og þau gildi sem einkenna Danmörku. Þau gildi, að eigin mati, herra forseti, sem einkenna Danmörku eiga margt sameiginlegt og kannski flest með þeim sem einkenna Ísland, en ekki að öllu leyti. En danskir jafnaðarmenn ætlast til þess að þeir sem flytja til landsins aðlagi sig að þeirra menningu og gildum. Ég hef búið í Danmörku, herra forseti, og þrátt fyrir að sýna á tímum ákveðna tilburði til sjálfstæðis og minna á sjálfstæðisbaráttu Íslendinga og vera kannski aðeins öðruvísi leitaðist ég þó við að sýna danskri menningu og þeirra siðum virðingu. En fyrst hv. þingmaður hefur sett mig í það hlutverk að geta mér til um hvernig danskir sósíaldemókratar skilgreina sína menningu þá geri ég ráð fyrir að það sé átt við að þeir sem vilja flytjast til landsins og gerast þátttakendur í samfélaginu sýni móttökusamfélaginu tilhlýðilega virðingu.