151. löggjafarþing — 89. fundur,  4. maí 2021.

málefni innflytjenda.

452. mál
[22:16]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M):

Virðulegur forseti. Mig langar aðeins að blanda mér í þessa umræðu. Ég hef náð að fylgjast nokkuð með henni í dag og auðvitað einnig þegar málið hefur komið hingað inn á fyrri stigum. Auk þess að hafa í öðrum störfum sem stjórnmálamaður kynnst flóttamannavíddinni nokkuð þá fannst mér tilhlýðilegt að koma hér upp og ræða þetta mál. Eins og ég skil það er í rauninni um að ræða stærra mál en fyrirsögnin og textinn gefur til kynna.

Herra forseti. Ég vil byrja á því að taka fram að mér líst ekkert illa á að skýra hlutverk Fjölmenningarseturs. Ég held að það sé alltaf gott að skýra hlutverk þeirra stofnana sem ríkið eða sveitarfélög eða aðrir eru með á sínum snærum eða styðja við eða fela eitthvert stjórnvald. Það er nauðsynlegt að skýra það, ég hef því í sjálfu sér ekkert á móti því að það sé skýrt. Ég hef heldur ekkert á móti því að kveðið sé upp úr með hvernig Fjölmenningarsetur fari með persónuupplýsingar, hvernig það geti nálgast slíkar upplýsingar o.s.frv. Ég held að það sé líka til bóta. Ég held að það sé vont ef þessi mikilvæga starfsemi býr við óöryggi eða óvissu í þeim efnum.

Það sem ég get hins vegar ekki fallist á er, ég ætla bara að nefna dæmi og tölur frá síðasta ári, að þeir rúmlega 630 einstaklingar sem fengu dvalarleyfi á Íslandi, komu sem hælisleitendur, eigi að fá sömu þjónustu og kvótaflóttamenn. Í mínum huga eru þetta tveir ólíkir hópar. Ég ætla ekki að alhæfa vegna þess að auðvitað er inn á milli í hælisleitendahópnum fólk sem svo sannarlega þarf á hæli að halda en ég held það séu ekkert allir þannig. Ég held að við eigum að einbeita okkur að kvótaflóttamönnunum eins og mér sýnist Norðurlöndin mörg hver gera, í það minnsta gefa Danir tóninn með það og mögulega fylgja fleiri í kjölfarið. Mér finnst svolítið sérstakt að setja fram þingmál þar sem alveg er ljóst að þó svo að kostnaðurinn sem hlytist af því að veita Fjölmenningarsetri betra umhverfi sé sagður einhverjar 24 milljónir þá er hann miklu hærri. Ef 716 einstaklingar, í staðinn fyrir 85, kosta um 6 milljónir á mann, ef þetta eru allt einstaklingar, kostar sá liður vel á fimmta milljarð króna í stað þess að hann kostaði einhverjar 500 milljónir ef það væru bara kvótaflóttamennirnir. Mér finnst það skipta máli. Mér finnst líka skipta máli að um leið og við erum búin að veita þessu ágæta fólki aukin réttindi spyrst það að sjálfsögðu út. Það er ekki að ástæðulausu að Norðmenn fóru á sínum tíma þá leið að auglýsa: Ekki koma til Noregs. Eða hvernig var auglýsingin sem þeir birtu? Það eru menn, fólk, samtök sem gera út á að koma fólki, sem sumt er vissulega í neyð en aðrir í leit að einhverju allt öðru, til annarra landa og græða á því pening.

Í ræðum í dag var minnst á átak eða rassíur sem eiga sér stað, m.a. á Spáni og í fleiri löndum, þar sem reynt er að ná tökum á þessum glæpahópum. Þá eigum við ekki að fara þá leið að segja: Verið velkomin sem flest, hér er auðvelt að fá dvalarleyfi og menn fá þá toppþjónustu. Það er að mínu viti það sem er að gerast hér. Ég hef ekki heyrt neinn mótmæla því að það sé rétt, þ.e. að þeir einstaklingar sem fengið hafa skertari þjónustu en kvótaflóttamenn flytjist nú upp um flokk, ef ég má orða það þannig en það er kannski ljótt að segja það, flytjist upp í þann þjónustupakka sem kvótaflóttamennirnir fá. Ég upplifði, og ég verð að nota orðið upplifun, herra forseti, því að það var upplifun þótt hún hafi ekki endilega verið ánægjuleg, alls ekki, að heimsækja sem ráðherra tvennar flóttamannabúðir, bæði í Palestínu og í Jórdaníu. Það verður að segjast eins og er að það var alveg til fyrirmyndar hvernig sérstaklega Jórdanir bjuggu að því fólki sem þar var, fólki frá Sýrlandi að mestu leyti. Það voru mest konur og börn, því miður. Ég segi því miður því að þær vissu ekki hvar synirnir eða eiginmennirnir voru, væntanlega í stríði eða látnir í stríðinu. En ég man ekki eftir að hafa talað við einn einasta einstakling í þessum flóttamannabúðum sem ekki vildi fara aftur til Sýrlands, sem ekki vildi vera heima hjá sér. Þess vegna eigum við að búa okkur undir það að ef við tökum við fólki sem sannarlega þarf á því að halda búum við þannig að því, líkt og Danir hugsa, sýnist mér, að við auðveldum þessu ágæta fólki að komast til síns heima aftur.

Hins vegar held ég að óhætt sé að viðurkenna að tugþúsundir eða fleiri, hundruð þúsundir ungra karlmanna sem sóst hafa eftir hæli í Evrópu frá hinum ýmsu löndum, séu ekkert endilega að leita sér að stað til að búa á til framtíðar. Ég ætla ekki að fullyrða en við sjáum að ýmis vandamál fylgja. Ég ætla ekki að fullyrða það beint en ég held að ég hafi lesið einhvers staðar að þýskur stjórnmálamaður hafi sagt að hin svokallaða fjölmenningarstefna hafi ekki gengið upp. Við sjáum það líka á þeim vandamálum sem stjórnvöld í Svíþjóð og Danmörku hafa horfst í augu við. Það er alveg sama hvernig okkur líður í hjartanu, við þurfum ekki annað en að fylgjast með fréttum eða lesa bloggsíður.

Ég vil bæta því við, herra forseti, að við þekkjum að sjálfsögðu líka fólk sem býr í þessum löndum. Við höfum jafnvel fjölskyldutengsl við einstaklinga sem búa í löndum þar sem orðið er til einhvers konar ríki í ríkinu, þar sem hælisleitendur og aðrir hafa komið sér þannig fyrir í þúsundatali að það er einhvers konar ríki í ríkinu. Það eru aðstæður sem mér sýnist þessi ríki vera að reyna að komast út úr. Þá erum við á Íslandi hins vegar, einhverjum áratugum á eftir að opna á þann möguleika að slíkt verði til á Íslandi. Þetta er einn liður í því. Að mínu viti þarf að skoða heildarsamhengið, heildarlöggjöfina um öll þessi mál og búa til skynsamlega stefnu sem við getum reynt að ná saman um. Í mínum huga eigum við að reyna að hjálpa þeim sem virkilega þurfa á hjálp að halda. Hjálpum þeim og setjum fjármuni í að hjálpa þeim líka sem næst heimilum sínum því að það er það sem þetta ágæta fólk vill.

Ég heimsótti eitt sinn Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna og þá voru fylgdarlaus börn mikið í umræðunni. Fram kom á fundi með yfirmanni þeirrar ágætu stofnunar að það væri ekkert mjög sniðugt að taka á móti fylgdarlausum börnum. Það hvetti til þess að þau væru send af stað út í heiminn þar sem þau yrðu fyrir alls konar ofbeldi, misnotkun og öðru slíku í formi mansals hjá ræningjum og svikurum og glæpamönnum. Við eigum að sjálfsögðu að einbeita okkur að því að reyna að koma í veg fyrir að fólk leggi á flótta en það er vitanlega stærri umræða og meiri en við förum í hér.

Ég vil líka segja það, herra forseti, að við verðum sem Íslendingar að horfast í augu við að við erum oft og tíðum gestir í öðrum löndum, við búum þar til lengri eða skemmri tíma og hljótum að aðlaga okkur að því umhverfi sem við erum í. Ekkert er að því að ætlast til að þeir sem hingað koma aðlagi sig að umhverfi okkar um leið og við fögnum því að sjálfsögðu að hingað komi einstaklingar og bæti við okkar menningu, bæti við okkar efnahag, haldi efnahag okkar mögulega uppi í sumum atvinnugreinum. Við hljótum að sjálfsögðu að fagna því en við hljótum samt að vilja hafa stjórn á því hverjir koma hingað, til hvers og á hvaða forsendum. Að senda þau skilaboð að hingað sé mjög gott að koma sem hælisleitandi og fá hér dvalarleyfi er ekki rétt að mínu viti.

Við eigum líka að þora að ræða þessa hluti. Það fer svolítið í taugarnar á mér að stundum er eins og ekki megi ræða eða spyrja um þessa hluti því að þá séu einhverjir fordómar dregnir fram. Ég held að með því að spyrja og kanna og rannsaka lærum við af því sem við höfum áður gert. Mér leikur t.d. forvitni á að vita: Er óeðlilega stór hluti hælisleitenda sem komist hefur í kast við lögin? Má spyrja að því, herra forseti? Má t.d. velta því fyrir sér hvort einhver félagsleg vandamál séu algengari meðal þess ágæta fólks sem hingað hefur leitað hælis? Upplifa einhverjar stofnanir eða stéttir hótanir sem þær hafa ekki búið við áður? Mér finnst bara allt í lagi að spyrja að því, í því felast engir fordómar eða fyrir fram gefin sjónarmið. Í því felst bara að við þurfum að sjá hvað við erum með í höndunum og hvað við getum lært af því. Vel getur verið að hafi slík vandamál komið upp þurfum við bara að breyta því hvernig við vinnum en mér finnst að við eigum að fá allt svona upp á yfirborðið. Því er ekkert að leyna að margir Íslendingar hafa áhyggjur af því að þarna séu vandamál sem ekki er tekið á eða fjallað um. Ég ímynda mér að það sé ekki rétt að ekki sé tekið á vandamálum sem koma upp en ég held að það sé um að gera og sjálfsagt að fjallað sé um þau.

Mig langar líka að segja, því að það hefur aðeins brunnið á mér, að mér finnst mjög óeðlilegt, og í rauninni ætti kannski að taka harðar á því, þegar mál einstaklinga eru til meðferðar hjá þar til gerðum yfirvöldum, og jafnvel þó að vísa eigi þeim einstaklingum úr landi, sé það látið ganga eða bara viðurkennt að hægt sé að taka þá einstaklinga eða fjölskyldur og fela í kjallaranum hjá sér. Það finnst mér ekki í lagi. Á slíku ætti að taka að mínu viti. Auðvitað held ég að þetta fólk vilji vel en að mínu viti er þetta samt ekki eðlilegt.

Mig langar líka að segja að Íslendingar hafa verið duglegir að ferðast og setjast að í öðrum löndum. Tugþúsundir Íslendinga eru búsettir um allan heim. Vonandi leggja þeir sitt af mörkum þar. Þá er hér stór hópur fólks hvaðanæva úr heiminum sem hefur aðlagast ágætlega landi okkar, þjóð okkar. Það hefur lagt ýmislegt til málanna, kennt okkur ýmislegt nýtt, komið með margt skemmtilegt inn í okkar land. Þar nægir að nefna ferðaþjónustuna, m.a. alls konar fyrirtæki og hugmyndir í veitingum og hinu og þessu, eitthvað sem við viljum ekki fara til baka með eða missa af. Þetta er harðduglegt fólk sem vill setjast hér að og greiða sína skatta og skyldur og vera hluti af íslensku samfélagi. Við eigum að taka vel á móti slíkum einstaklingum. Ég hef áhyggjur af því að á meðan aðrar þjóðir hverfa frá þeirri stefnu sem Ísland virðist vera að styrkja séum við að fara þessa leið. Ég hef áhyggjur af því.

Hér hefur aðeins verið komið inn á trú og menningu og slíkt. Ég ætla svo sem ekki að hætta mér út í djúpa trúarbragðaumræðu enda er mér alveg nákvæmlega sama á hvað menn trúa, alveg eins og mér er alveg nákvæmlega sama hvernig fólk upplifir sig, hvers kyns fólk er og slíkt. Fyrir mér er það bara ekkert vandamál, allir eru jafnir, en við hljótum að þurfa að virða hvert annað. Þegar við flytjum á nýjan stað finnst mér alla vega óeðlilegt ef einhver vill þröngva sinni menningu upp á alla þá sem fyrir eru. Það er allt í lagi að deila menningunni, gefa af henni og kynna hana, það er alveg sjálfsagt. En ég held að við eigum að gera þá kröfu að aðlögun gangi vel fyrir sig. Þá vil ég taka það fram að menn eiga að sjálfsögðu ekki að kasta sinni trú eða sinni menningu eða hefðum og slíku. Menn geta haft það fyrir sig og sína fjölskyldu og sitt nærsamfélag en menn verða að aðlagast, það er engin spurning.

Ég ætla samt að leyfa mér að segja eitt, herra forseti: Vissulega eru dæmi um það og við höfum séð það nýverið í Frakklandi að menn óttast öfgar í trú. Um leið og þetta er örugglega svolítið viðkvæmt umræðufangsefni án þess að það líti út eins og einhvers konar trúarhatur eða slíkt held ég að mikilvægt sé að þora að ræða það. Það er alveg sama hvers konar trú maður aðhyllist, öfgar og ofbeldi er eitthvað sem ekki á að líðast. Auðvitað er sagan lituð blóði í mörgum trúarbrögðum og ekki síst kristinni trú, en það er líka hjá öðrum. Það mikla ofbeldi í anda trúar sem við höfum séð undanfarin ár eða áratugi kemur að sjálfsögðu óorði á þá trú. Þar eru ofstækismenn á ferðinni og draga gjarnan upp mynd af öllum hinum sem er svo ósönn. Það hefur leitt til þess að t.d. Frakkar hafa stigið ákveðin skref í að taka á, ef ég skil það rétt, og banna ákveðna hluti sem hvetja til ofstækis. Vonandi munum við ekki þurfa að grípa til slíkra aðgerða. Ég hef svo sem ekki áhyggjur af því hér á landi en við vitum aldrei, herra forseti. Ég vil geta lifað í landi þar sem hægt er að gera grín að hvaða spámanni sem er, hvaða trú sem er, hvaða forseta sem er, þannig samfélag viljum við hafa, án þess að eiga á hættu eitthvað misjafnt. Að sjálfsögðu er eðlilegt að virða reglur og gæta að siðferði og öðru slíku, en við hljótum að vilja lifa í samfélagi þar sem slíkt er leyfilegt.

Svo ég víki aftur að málinu sjálfu og segi skilið við þessar pælingar, þessa útúrdúra sem í raun koma málinu ekkert við, held ég að mjög mikilvægt sé að við nálgumst einhvers konar heildarmynd og reynum að ná samkomulagi um einhverja framtíðarsýn ef mögulegt er. Ef ekki þá er það eitthvað sem við verðum að horfast í augu við. Hins vegar er nauðsynlegt fyrir okkur, eins og við gerum í svo mörgu öðru, að horfa í kringum okkur, læra af því hvað aðrir eru að glíma við og hvernig aðrir eru að bregðast við. Á sama tíma og við viljum takmarka möguleika eða alla vega stýra því betur hverjir koma hingað til lands, horfum þá til þess hvernig við getum aukið stuðning okkar á svæðum eða við stofnanir sem miða að því að gera fólki kleift að búa sem næst heimahögum sínum því að þangað vilja langflestir fara á ný. Auðvitað eru til dæmi um annað en ég hef miklar áhyggjur af því að þegar ljóst er að allir þeir sem hér fá dvalarleyfi fái sömu góðu þjónustu, fyrirmyndarþjónustu vil ég meina, og kvótaflóttamenn munum við ekki ráða við ástandið. Ég hef líka áhyggjur af því að þá fari í gang einhvers konar ruglingur með það hvaða hópar eru kvótaflóttamenn, hvaða hópar eru hælisleitendur o.s.frv. Er greinarmunur þar á? Mér finnst eðlilegt að því sé haldið til haga að það er fólk sem þarf á hjálp að halda og flestir vilja fá hana sem næst heimahögum sínum. (Forseti hringir.) Þannig eigum við að vinna.