151. löggjafarþing — 89. fundur,  4. maí 2021.

málefni innflytjenda.

452. mál
[22:54]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Í andsvari hv. þingmanns örlar enn á ný á óþoli hans gagnvart skoðunum annarra og því að virða ekki það sem fólk aðhyllist, það sem gerir t.d. þjóð að þjóð þess vegna, gagnrýna íslam, gagnrýna kaþólsku kirkjuna. Ég hef hins vegar þá trú að ég vil virða skoðanir fólks, trúarbrögð þess eða trúleysi. Ég hef ekki hrokkið upp af stampinum þó að hv. þingmaður standi hér í vantrúboði. Ég hef ekkert á móti því, ekki nokkurn skapaðan hlut og virði það að sjálfsögðu. Ég veit t.d. að kaþólsk trú skiptir pólska þjóðarbrotið sem hér býr miklu máli, alveg eins og ég þykist vita að þeir sem rata hingað og aðhyllast íslam taka nærri sér ef trú þeirra er gagnrýnd. Þess vegna hef ég þá trú, herra forseti, að við eigum að virða þessar skoðanir alveg sama hvað okkur sjálfum finnst um þær, því að hingað ratar t.d. fólk sem er strangkaþólskt eða aðhyllist íslamstrú. Og hvað kemur það okkur við? Af hverju þurfum við að vanvirða það með einhverjum hætti eða misvirða? Af hverju tökum við ekki tillit til þess að þetta fólk er þarna og, ég held að hv. þingmaður hafi sagt það sjálfur í dag, er ekki eins og við? Eigum við ekki bara að virða það?