151. löggjafarþing — 89. fundur,  4. maí 2021.

málefni innflytjenda.

452. mál
[22:58]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður sagði í dag að við værum öll haldin fordómum. Ég þakka honum fyrir að opinbera sína fordóma hér í kvöld (HHG: Hvaða fordóma?) vegna þess að kaþólska kirkjan, án þess að ég sé sérfræðingur í henni, er ekki reist á kvenfyrirlitningu eða andstöðu við samkynhneigða, þ.e. grundvöllur hennar í dag snýst ekki um það. Það hefur komið fram, síðast mjög nýlega í ávarpi páfa.

En burt séð frá því þá er það sem ég var að reyna að koma frá mér og hv. þingmaður skildi ekki — ég get alveg tekið undir það að ég er ekki alltaf skýr þegar ég reyni að útskýra hluti — að trúarbrögð eru snar þáttur í lífi margra sem hingað rata, hvaða trúarbrögð sem er. Ég held að við eigum að fara mjög varlega í að hengja saman þá einstaklinga sem hingað rata og það hvaða trú þeir aðhyllast. (HHG: Nákvæmlega punkturinn minn.) Við eigum að láta það í friði. Þess vegna þykir mér það leitt að þegar trúarbrögð, t.d. þessa fólks, eru ekki virt á þann hátt sem ég var að tala um.

Hvað varðar það sem hv. þingmaður sagði um að ég væri ekki samkvæmur sjálfum mér í því að vilja ekki opinbera allt, af því að ég var á móti því að banna guðlast, (Forseti hringir.) þá er það kannski af því að mér eru sumir hlutir heilagir, en ég get ekki ætlast til þess að allir aðrir eigi eitthvað sem heilagt er.