151. löggjafarþing — 89. fundur,  4. maí 2021.

málefni innflytjenda.

452. mál
[23:16]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Virðulegur forseti. Ég hnýti aðeins við það sem hv. þm. Sigurður Páll Jónsson kom inn á í lok ræðu sinnar varðandi þátttöku í þessari umræðu. Ég hef haft miklar áhyggjur af þessu kostnaðarmati frumvarpsins sem mér þykir hvorki fugl né fiskur. Hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson hefur komið í pontu og lýst þeirri skoðun sinni að afleiddur kostnaður af samþykkt þessa frumvarps sé hverfandi ef nokkur. Mér þykir það sú afstaða undarleg. En mér þætti strax til mikilla bóta og áhugavert ef nokkur kostur er, af því að nú veit ég að það eru þingmenn sennilega allra flokka í húsi, þótt ekki væri nema að einn þeirra væri sendur hér fyrir hvern og einn flokk og lýsti því yfir að mat viðkomandi þingflokks væri að enginn afleiddur kostnaður hlytist af samþykkt þessa frumvarps.

Hv. þm. Brynjar Níelsson kom hér í ræðu fyrr í kvöld, prýðisgóða ræðu. Fyrir þá sem hlustuðu á hana þarf enginn að velkjast í vafa um að mat þess góða þingmanns er á svipuðu róli og mat okkar Miðflokksmanna, að auðvitað gerast þessir hlutir allir í samhengi. Það er ekki þannig að frumvarp eins og þetta sé afgreitt og klárað og það hafi engin afleidd áhrif þó að hlutirnir standi ekki akkúrat með beinum hætti í frumvarpinu. Þetta er einhvern veginn orðin mantra, leið sumra út úr rökræðu, að segja: Þetta mál fjallar ekkert um þetta, það fjallar um eitthvað allt annað. Og hver eru áhrifin af því að menn fresti því að rökræða hluti með þessum rökum? Afleiðingin er sú að mál verða orðin miklu verri, snúnari og illviðráðanlegri. Og þá er ég ekki bara að tala um það mál sem hér er undir. Þetta á við um allt sviðið, ef svo má segja. Ef við frestum því að taka djúpa umræðu um flókna og erfiða hluti þá verður hún án nokkurs vafa erfiðari þegar loksins kemur að því að hún verður ekki umflúin.

Í því samhengi finnst mér að við verðum að velta því aðeins fyrir okkur hvað orsakar það að skandinavísku þjóðirnar eru núna, að mér sýnist, allar sem ein, að hverfa af þeirri braut sem mörkuð hefur verið í þessum efnum árum og áratugum saman yfir í það, og þá vil ég sérstaklega vísa í það sem danskir jafnaðarmenn leiða núna, að horfa til þess að aðstoða fólk nær sínum heimasvæðum. Að þeir sem komi inn í danskt samfélag komi inn í gegnum þessa formlegu farvegi, sem við hér heima getum helst horft til í því kvótaflóttamannakerfi sem við erum aðilar að. Við vitum hversu erfitt það getur verið að fara í gegnum óvinsæla umræðu, umræðu sem nýtur lítillar samúðar á samfélagsmiðlum og þar fram eftir götunum, og við vitum líka alveg að norrænir jafnaðarmenn í Danmörku, annarra flokka fulltrúar annars staðar, eru ekki að gera þetta bara af því að þeir höfðu ekkert betra að gera þann daginn. Þetta er vegna þróunarinnar sem átt hefur sér stað á þeirra heimasvæði. Þetta er vegna þróunarinnar sem átt hefur sér stað í hælisleitendamálum. Það er vegna þess sem þessar þjóðir eru að skipta um kúrs.

Þess vegna finnst mér algerlega óforsvaranlegt að hér virðast þingmenn flestra flokka hafa sáralítinn áhuga á að taka þátt í umræðunni. Það þarf ekki annað en að rifja upp fordæmalausa ræðu framsögumanns meiri hluta nefndarálits í þessu máli sem flaggaði hér öllum þeim stimplum sem hún náði taki á í sinni fyrstu ræðu þegar enginn, ekki nokkur þingmaður, hafði tekið til máls í 2. umr. Þá var farið að flagga stimplum um rasisma og öðrum sambærilegum. Það er auðvitað engin efnisleg umræða. Og af því að nú stendur hv. þingmaður Framsóknarflokksins hér í gættinni þá skora ég á hv. þingmann að koma og taka þátt í umræðunni ef hann er inni sem varaþingmaður.