151. löggjafarþing — 89. fundur,  4. maí 2021.

málefni innflytjenda.

452. mál
[23:26]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M):

Herra forseti. Það málefni sem við höfum verið að ræða hér í dag og í kvöld er afar stórt og víðfeðmt og er á dagskrá um alla Evrópu og skiptir miklu máli í evrópskum stjórnmálum. Til að mynda eru landamæramál ein skýring, meðal annarra, á útgöngu Breta úr Evrópusambandinu. Við getum verið fullviss um að þessi mál muni vega mjög þungt í komandi forsetakosningum í Frakklandi á næsta ári. Haft er eftir dönskum stjórnmálarýnanda að enda þótt útlendingamál, ef við köllum þau því nafni, séu á yfirborðinu eitt mesta deiluefni í dönskum stjórnmálum þá sé miklu meiri samstaða á milli danskra stjórnmálaflokka en sjáist við fyrstu sýn.

Síðustu þingkosningar í Danmörku snerust að mjög miklu leyti um þetta mál og danskir jafnaðarmenn, sem stundum eru kallaðir sósíaldemókratar, unnu mjög góðan sigur í þeim kosningum. Þeir sitja nú einir í ríkisstjórn en með stuðningi tveggja flokka, minnihlutastjórn undir forystu frú Mette Frederiksen. Það er mjög fróðlegt að fylgjast með dönskum stjórnmálum. Það er auðvitað áhugavert fyrir okkur Íslendinga að fylgjast með þeirri góðu þjóð sem byggir Danmörku sem við eigum frændskap og mikla, langa og djúpa vináttu við.

En í þessum efnum hefur verið skammt á milli stórra atburða. Aðalkosningamál danskra jafnaðarmanna var að koma á laggirnar móttökustöð fyrir hælisleitendur í landi utan Evrópu. Þeir hafa fylgt eftir þessu aðalkosningaloforði sínu með frumvarpi sem liggur fyrir danska þinginu. Ég les það í dönskum fjölmiðlum að stuðningur við málið sé mjög mikill meðal dönsku þjóðarinnar, það njóti kannski 50% stuðnings, sem er auðvitað mjög mikið. Ýmsir flokkar styðja þetta mál en það vilja kannski ekki allir endilega sjá það verða að veruleika undir stjórn jafnaðarmanna. Það kann að skýra að hluta af hverju málið siglir ekki seglum þöndum í gegnum danska þingið.

En fyrst við erum að tala um dönsk þingmál þá er annað mál sem flaug þar í gegn fyrir skemmstu. Hinn 15. mars tóku gildi lög í Danmörku um varnir gegn erlendum öfgaöflum sem Danir telja grafa undan dönsku samfélagi. Það kom í hlut jafnaðarmannastjórnarinnar að leggja fram það frumvarp, en danskir þingmenn úr flestum stjórnmálaflokkum greiddu því atkvæði sitt. Það fjallar um það að lagt er bann við því að taka við fjárframlögum frá aðilum sem taldir eru vafasamir og taldir vilja grafa undan dönsku lýðræði og mannréttindum. Og auðvitað átta allir sig á því um hvað verið er að ræða, þetta er bann við því að taka við fé til trúarlegra málefna.