151. löggjafarþing — 89. fundur,  4. maí 2021.

málefni innflytjenda.

452. mál
[23:37]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M):

Herra forseti. Við ræðum enn þetta mál sem er vitanlega stórpólitískt mál í grunninn þegar verið er að gera slíkar breytingar á málefnum innflytjenda, móttöku flóttafólks. En um leið erum við með mál sem segir kannski ekki alla söguna því að hér er ekki að finna upplýsingar um raunverulegan kostnað sem af því hlýst heldur eingöngu þann kostnað sem leggst aukalega á Fjölmenningarsetur. Ég efast ekki um að það sé nærri lagi að aukin starfsemi þar kalli á þær örfáu milljónir sem þarna er vitnað í. Ég held hins vegar samt sem áður, herra forseti, að mál þetta mætti e.t.v. klára ef tekinn væri út úr því kaflinn sem veitir hælisleitendum eða þeim sem hafa fengið dvalarleyfi hér sama rétt og kvótaflóttamönnum. Eftir stæði kannski ekki það sem vakir fyrir ráðherra með málinu nema mögulega að skýra hlutverk Fjölmenningarseturs enn betur og að sjálfsögðu það sem varðar upplýsingaöflunina, þ.e. persónuupplýsingarnar, sem ég held að sé í sjálfu sér ágætismál að lagfæra.

Áhersla ráðherrans á þetta mál er svolítið sérstök, verð ég að segja, herra forseti, og óskandi að hann væri hér við umræðuna til að geta talað við okkur því að einhvern veginn finnst manni eins og málið sé svolítið úr karakter og mögulega liður í nýrri ímynd ráðherrans sem teiknuð er upp af almannatenglum hans. Því getur enginn svarað nema hann að sjálfsögðu og væri gott að hann væri hér til að svara slíkum vangaveltum.

Málið sem slíkt hefur fengið ágætisumfjöllun hér. En eftir standa spurningar sem er ekki svarað, t.d. hvort það sé réttur skilningur að allir þeir sem fengu dvalarleyfi hér á síðasta ári, 631 talsins, fái sömu stöðu og kvótaflóttamenn og sömu þjónustu. Þá er spurning hvort það sé virkilega það sem þingmenn Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna vilja gera. Er það það sem vakir fyrir þeim, að senda þau skilaboð að hingað séu allir velkomnir, það sé tiltölulega einfalt að komast hingað og mjög opið að fá hér dvalarleyfi og um leið þá góðu þjónustu sem verið er að veita? Í sjálfu sér finnst mér ekki skipta nokkru einasta máli hvaðan fólk kemur heldur tilgangurinn með komunni. Ef við skoðum upprunaland þeirra aðila sem hafa komið undanfarin ár þá er það nokkuð misjafnt. Það vekur athygli að á tímabili voru margir sem sóttu um leyfi frá nokkrum Austur-Evrópuríkjum. Um tíma var líka töluverður fjöldi sem kom frá Afríku, Sómalíu, frá nokkrum stöðum í Írak, jafnvel eftir að stríðinu lauk. Þá veltir maður fyrir sér hvert erindi þessa ágæta fólks er hingað í raun og veru.

Mig langar líka, herra forseti, að velta upp hér, líkt og ég gerði í fyrstu ræðu minni, mikilvægi þess að við hræðumst ekki að spyrja spurninga og afla upplýsinga um hvernig hefur gengið með þá einstaklinga sem fá leyfi til að dvelja hér. Við áttum okkur á því að þeir sem hingað koma, og vilja fá hér hæli eða leyfi til að vera, eru gestir í okkar landi, í það minnsta til að byrja með. Við hljótum því að velta því upp hvernig þeim gengur að aðlagast því sem hér er í boði.

Það er einnig áhugavert, herra forseti, að velta því fyrir sér hversu margir setjast hér að, hversu margir njóta gestrisni okkar hér og hverfa svo á braut, fara eitthvert annað, til annarra landa, og hvert þeir fara þá ef upplýsingar liggja fyrir um það. Það sem maður hefur kannski mestar áhyggjur af, herra forseti, er það að á sama tíma og nágrannalönd okkar eru að bregðast við miklum vandamálum heima fyrir, miklum vandamálum sem hafa orðið til í samfélögum þeirra, með tilkomu stórra hópa af hælisleitendum, virðumst við ætla að fara öfuga leið. Ég velti því fyrir mér hvers vegna það er gert og átta mig reyndar ekki alveg á því að það skuli gerast þegar vandamálin blasa við hjá öðrum, vandamál sem við eigum að læra af en ekki endilega að apa eftir og búa til.

Það væri nær að geyma þetta frumvarp í heild eða þá taka út meginefni þess og bæta upplýsingaöflun Fjölmenningarseturs, láta það duga núna, og setjast yfir það hvernig við getum samræmt og horft til nágranna okkar, lært af þeim, mótað lög okkar og reglur um viðbrögð og stefnu í ljósi þeirrar reynslu. Það er alveg sama hvað þeir fáu þingmenn sem hlynntir eru þessu máli og hafa tekið til máls segja, það blasir við öllum sem vilja skoða málið að málefni hælisleitenda og flóttamanna hafa verið í algjöru öngstræti á Norðurlöndunum og annars staðar í Evrópu undanfarin ár. Þar er að sjálfsögðu ekki neinu um að kenna nema þeirri stefnu sem viðhöfð hefur verið. Til að hafa allt á hreinu, herra forseti, snýst þessi ræða mín ekki um það að vera á móti útlendingum eða eitthvað slíkt, þvert á móti. Það er gríðarlega gaman að sjá hve mörgum útlendingum, fólki af erlendu bergi brotnu, hefur vegnað vel hér og það hefur litað okkar íslenska samfélag fögrum litum. En við eigum að sjálfsögðu að þora að horfa á þá einstaklinga eins og aðra með opnum huga og opnum augum og velta fyrir okkur hvað sé best fyrir okkur til lengri tíma og til framtíðar.

Það er alveg ljóst í mínum huga, herra forseti, að ef við höldum áfram á sömu braut verða til sömu vandamál hér og hafa verið annars staðar á Norðurlöndunum. Hvers vegna ættu þau ekki að koma upp hér? Í dag er ljóst og liggur fyrir að við tökum hlutfallslega á móti fleiri hælisleitendum og flóttamönnum en önnur Norðurlönd. Ég hugsa að það sé nánast sama hvar við færum í Evrópu, þar er umræða, þar er stefnumótun í gangi um það hvernig vinda eigi ofan af þeim ákvörðunum sem voru teknar á sínum tíma, misjafnlega djúpum eða afdrifaríkum, vinda ofan af ákvörðunum um að opna þessi lönd upp á gátt. Það er líka umhugsunarefni, sem kom fram í ræðu í dag, að ef það er þannig að flestir þessara flóttamanna hafi komið frá Norður-Afríku eða arabalöndunum, hve þau lönd hafa mörg hver staðið sig illa í því að taka við þessum nágrönnum sínum, þess vegna hafa þeir streymt til Evrópu. Auðvitað eru undantekningar á því eins og ég minntist á í fyrstu ræðu minni.

Ég held að það sé mjög hollt að ræða þetta og væri æskilegt ef fleiri tækju til máls þannig að pólitísk umræða yrði um málið. Það virðist vera þannig að margir flokkar, margir þingmenn, hafi ákveðið að fylgja umræðunni í stað þess að horfa á málið út frá rökum og reynslu annarra og út frá raunheimum og út frá því sem raunverulega er að gerast. En ég ítreka enn og aftur að við eigum að standa okkur vel þegar kemur að samstarfi við Sameinuðu þjóðirnar og stofnanir sem vinna að því að bæta hag þessa fólks og við eigum að gera það sem næst heimilum þessara einstaklinga, það er það sem þau vilja.