Bráðabirgðaútgáfa.

151. löggjafarþing — 90. fundur,  5. maí 2021.

störf þingsins.

[13:07]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M):

Hæstv. forseti. Í fréttum síðustu daga hefur áfram verið fjallað um leghálsskimun kvenna og sífellt koma nýjar upplýsingar upp á yfirborðið. Í morgun komu sérfræðingar á því sviði fyrir velferðarnefnd og óhætt að segja að margt hafi komið fram sem gefur tilefni til þess að fara fram á það með fullum þunga og öllum tiltækum ráðum að fá sýnin heim. Líf og heilsa kvenna er í húfi.

Í fréttum í fyrradag var sagt frá því að samskipti hafi verið milli Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og Landspítala síðastliðinn vetur. Óskað var eftir svörum um getu spítalans til að greina sýni og svör bárust sama dag frá spítalanum um að hann gæti tekið við HPV-rannsóknum strax um áramótin og frumurannsóknum með fyrirvörum. Þau samskipti áttu sér stað áður en viðræður hófust við rannsóknastofuna í Danmörku. Samkvæmt Ríkiskaupum eru rannsóknir sýna útboðsskyldar. Fjármálaráðuneytið hefur bent á það og samkvæmt síðustu fréttum af málinu virðist engin vinna við útboðsgerð vera í gangi. Það verður að snúa af þeirri leið sem nú er farin og virkar augljóslega ekki. Það er algerlega óboðlegt að ætla konum að bíða í fullkominni óvissu. Líf og heilsa kvenna er meira virði en svo að ekki sé hægt að skipta um skoðun. Ég bið hæstv. heilbrigðisráðherra að gera það, að skipta um skoðun og fá sýnin heim.