151. löggjafarþing — 90. fundur,  5. maí 2021.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

768. mál
[14:22]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Það er alltaf freistandi að fjalla um húsnæðiskerfið þegar kemur að lífeyrissjóðamálum því að það er í raun og veru hinn helmingur lífeyriskerfisins á Íslandi. Það að eiga skuldlaust þak yfir höfuðið þegar starfsævinni lýkur er í rauninni lykillinn að því að geta lifað af lífeyri. Ef borga þarf af skuldum af húsnæði á meðan fólk er á lífeyri almennt séð þá dugar hann einfaldlega ekki. Þetta fer hönd í hönd, annars vegar að strita út ævina til að eignast skuldlaust þak yfir höfuðið og hins vegar að greiða í lífeyrissjóð til að vera með vasapening þegar starfsævinni lýkur. Þannig er lífeyrissjóðakerfið okkar sett upp í dag. Það vantar yfirleitt umfjöllunina um þennan seinni part, þ.e. skipulag húsnæðismála og, eins og var fjallað um í andsvörum áðan, hvernig framboð og eftirspurn skilar sér í raun og veru til allra sem keppast við að koma sér upp skuldlausu húsnæði fyrir starfslok. Það hunsar í rauninni algerlega þann hóp fólks sem kýs að klára ekki séreignarhluta lífeyrissjóðakerfisins og er í leigu. Það er mjög erfitt verkefni að glíma við af því að það er ekki einu sinni tekið tillit til þess í lífeyrissjóðakerfinu. Umfang lífeyrismála á Íslandi er ekki fullskipulagt. Við glímum enn þá við nokkrar glufur í því sem varða einmitt leigumál, framboð og eftirspurn, sérstaklega hvað varðar félagslegt húsnæði, og það er gríðarlega mikill munur á því milli sveitarfélaga hvernig því er sinnt.

Þessi viðbót er vissulega ágæt út af fyrir sig og skilar sér einmitt til þeirra sem geta safnað séreignarsparnaði og er einn hluti af púslinu. Þetta er vissulega bara það sem fólk á og er hluti af lífeyriskerfinu, annaðhvort útleyst í vasapening í rauninni, það sem fólk hefur í lífeyri eftir starfsævi, eða í skuldlausu þaki yfir höfuðið. Fólk ræður því hvort séreignarsparnaðurinn fer aukalega í vasapening eða aukalega og fyrr í að greiða niður skuldir af íbúðarhúsnæði. Það sem stendur eftir eru þessar glufur hjá fólki sem er fast í leigukerfinu, fast í þeim aðstæðum að það kemst ekki einu sinni í félagslegt húsnæði og í kjölfarið á því hvernig það klárar í raun sína ævi utan þessa klassíska kerfis um að eignast skuldlaust húsnæði og að lifa af lífeyri það sem eftir er ævinnar. Þeir sem eru utan þess lenda í vandræðum aftur og aftur. Það hefur aldrei verið klárað að svara því hvernig á að mæta því fólki á skipulagðan hátt. Gripið er til alls konar plástra hér og þar og þegar þeir koma saman með skerðingum hér og þar verður einfaldlega til of stór fátæktargildra til að við höfum getað glímt við hana á nokkurn hátt. Kerfið er orðið það flókið að það eru gríðarlega fáir sem skilja, þegar verið er að fikta í einum hluta kerfisins, hvaða áhrif það hefur á heildina. Það er ekki hægt að komast að niðurstöðu í því með mjög auðveldu móti á neinn hátt.

Þetta mál fjallar um nýtingu séreignarsparnaðar, sem er einn hluti af púslinu, einungis einn, sem gagnast helst þeim sem geta nýtt sér séreignarsparnað. Þetta er ágætisúrræði sem slíkt en það hunsar algerlega heildarmyndina sem þarf virkilega að fara að huga að ef lífeyrismálin eiga ekki að verða vandamál fyrir okkur til framtíðar.