151. löggjafarþing — 90. fundur,  5. maí 2021.

fjárstuðningur til minni rekstraraðila vegna heimsfaraldurs kórónuveiru o.fl.

769. mál
[15:11]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra kærlega fyrir þetta svar. Í þessu svari sínu lýsti hann ágætlega hvernig skortur ríkisstjórnarinnar á langtímasýn hefur speglast í þeim aðgerðum sem farið hefur verið í vegna þess að það er í sífellu verið að framlengja, breyta, búa til nýja þröskulda. Í staðinn fyrir að tekið hafi verið rösklega á strax, eins og bent var á á sínum tíma, m.a. af þingfólki Miðflokksins, og farið í dugandi langtímaaðgerðir var einmitt farið í það sem hæstv. ráðherra var að lýsa núna, það var farið í bútasaum. Víst hefur sumt gagnast fólki og fyrirtækjum vel. En ég hlýt að spyrja hvort ekki hefði verið nær að hlusta á þær raddir sem sögðu strax í upphafi að taka þyrfti virkilega vel á og til langs tíma og þetta væri fyrirsjáanlegt o.s.frv. Ég hlýt líka að spyrja eftir mjög góðri yfirlýsingu, sem féll akkúrat þegar þessi vegferð hófst, þar sem þess var getið að æskilegra væri og líklegra til árangurs og vænlegra að gera meira en minna. Þess vegna hlýt ég að spyrja hæstv. ráðherra hvort hann telji að ríkisstjórnin hafi uppfyllt það sem hann lagði sjálfur til í upphafi þessarar vegferðar, að ríkisstjórnin myndi gera meira en minna.