151. löggjafarþing — 90. fundur,  5. maí 2021.

fjárstuðningur til minni rekstraraðila vegna heimsfaraldurs kórónuveiru o.fl.

769. mál
[15:16]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Herra forseti. Það er auðvitað jákvætt að aðgerðir sem eiga að koma til móts við þetta óvenjulega efnahagsástand séu lagfærðar, uppfærðar til samræmis við þróunina. Menn geta svo velt fyrir sér að hversu miklu leyti var fyrirsjáanlegt að hlutirnir hefðu þurft að vera öðruvísi. Það voru auðvitað álitamál eins og sú mikla krafa sem var uppi um gríðarlegt tekjufall til að menn ættu rétt á styrk og auðvitað spurningar um hvaða hvata slíkt felur í sér. Raunar er áhugavert að velta fyrir sér ýmsum þeim hvötum sem orðið hafa til í tengslum við aðgerðir stjórnvalda. Engu að síður höfum við stutt allar þessar aðgerðir, eins og við sögðumst gera frá upphafi, þó að ríkisstjórnin hafi ekki viljað fara okkar leið. Reyndar ætla ég að nota tækifærið og gera athugasemd við það að hún hafi fellt allar tillögur stjórnarandstöðuflokkanna um hvað mætti gera til að bregðast við þessu ástandi. Í ljósi alls tals um samstarfsvilja við erfiðar aðstæður þótti mér svolítið skrýtið að stjórnin færi þá leið að fella allt sem frá stjórnarandstöðu kæmi. En látum það þó liggja á milli hluta.

Þessar aðgerðir, sem margar hverjar hafa auðvitað skipt miklu máli, eiga það þó flestar sameiginlegt að snúast um að fleyta mönnum áfram í gegnum erfitt ástand. Þetta eru skammtímaaðgerðir og í mörgum tilvikum jafnvel nokkurs konar deyfilyf sem tekur fyrirtækin að einhverju leyti úr sambandi við efnahagsþrengingarnar. Auk þess skapast sú hætta að fyrirtækin detti úr sambandi við eðlilega hagþróun þegar hún kemst aftur af stað. Ég velti fyrir mér hvort ekki hefði mátt gera meira af því að huga að framtíðaráhrifum aðgerðanna.

Það sem mér finnst þó vera miklu stærri spurningar er hvers vegna ekki er hugað í meira mæli að því ástandi sem fyrirtækin bjuggu jafnvel við áður en þessi faraldur hófst og efnahagsþrengingarnar sem honum hafa fylgt. Hvers vegna er ekki litið meira til framtíðar í aðgerðum stjórnvalda? Er ástæðan sú að í rauninni hefur allt verið á pásu, það hefur verið hlé á meðan á faraldrinum hefur staðið og þar af leiðandi ekki komið fram neinar umbætur sem, að mínu mati a.m.k., voru orðnar mjög aðkallandi áður en faraldurinn hófst? Eða er ástæðan sú að aldrei stóð til að ráðast í slíkar umbætur? Það finnst mér vera áhyggjuefni því að eins og ég nefndi höfðu íslensk fyrirtæki, ekki hvað síst litlu og meðalstóru fyrirtækin, mjög mörg lent í talsverðum erfiðleikum fyrir upphaf faraldursins. Nú þegar honum er svo að segja að ljúka hér á Íslandi hljótum við líka að vilja líta til framtíðar. Stjórnvöld hljóta að vilja gefa til kynna með lagasetningu hvers sé að vænta í rekstrarumhverfi þessara fyrirtækja þegar þau fara í það að vinna sig upp aftur. Þegar þau fara út úr þessu hléi, daglegt líf tekur við aftur og þau þurfa að fara að vinna sig upp þarf auðvitað að vera hægt að gera einhverjar áætlanir eins og kostur er.

Margar ástæður voru fyrir því að fyrirtækin voru lent í talsverðum þrengingum. Útgjöld þeirra höfðu aukist mjög verulega og mjög hratt. Auðvitað er hluti af því launakostnaður vegna mikilla launahækkana. En þá þarf að hafa í huga að þegar lítið fyrirtæki þarf að borga 2.000 kr. til að koma þúsundkalli í launaumslagið hjá launþeganum hefur kerfið annars vegar búið til mjög neikvæðan hvata en einnig lagt mjög miklar álögur á fyrirtækin sem skilar sér ekki nema að takmörkuðu leyti til launþegans. Maður hefði viljað sjá núna, eftir þennan faraldur þegar við hljótum að fara að líta til framtíðar, sýn stjórnvalda á hvernig þetta eigi að þróast því að það getur í rauninni ekki þróast áfram með þeim hætti sem það hafði gert.

Annað sem veldur mörgum fyrirtækjum mjög verulegum erfiðleikum, og hefur gert frá því löngu áður en faraldurinn hófst, er viðureignin við kerfið, íþyngjandi regluverk og allar þær flækjur sem jafnt og þétt er verið að leiða í lög. Í rauninni er staðan orðin sú að varla er hægt að reka lítið fyrirtæki á Íslandi án þess að ráða sérfræðing eða sérfræðinga bara í að fást við kerfið. Hvort sem það er starfsmaður eða aðkeypt þjónusta þá hafa mjög fáir þá þekkingu eða þann tíma sem þarf til að uppfylla allar þær kröfur sem kerfið gerir til lítilla atvinnurekenda. Í rauninni er verið að hanna kerfi, byggja upp og þróa kerfi, sem sniðið er að stórfyrirtækjum, en litlu fyrirtækin þurfa engu að síður að uppfylla sömu kröfur. Þetta á ekki hvað síst við um Evrópureglugerðirnar sem streyma til okkar á færibandi. Þær miða að alþjóðlegum stórfyrirtækjum og eru oft og tíðum óhemjuflóknar. Ég treysti mér til að fullyrða, herra forseti, að sumar þeirra eru þess eðlis að enginn þingmaður skilur þær. Við þurfum að reiða okkur á sérfræðinga eða kerfið til að segja okkur hvað snýr upp og niður í sumum þessara Evrópureglugerða. Stundum koma heilu bækurnar til okkar með milligöngu fjármálaráðuneytisins sem stundum gerir sínar sérstöku breytingar og oft, eins og menn hafa nefnt í gegnum tíðina, virðast menn þá vilja verða kaþólskari en páfinn í reglusetningunni. Þetta er það flókið að erfitt er fyrir þingmenn að skilja reglurnar og hvað þá fyrir þá sem þurfa svo að starfa eftir þeim.

Eitt sinn var talið mikið grundvallaratriði í lagasetningu að lög væru skiljanleg svoleiðis að allur almenningur gæti haft skilning á því til hvers væri ætlast, hvað væri leyfilegt og hvað ekki. Það er því miður liðin tíð. Nú eru lög orðin það flókin, og verða sífellt flóknari, að stundum þarf hreinlega aðstoð sérfræðinga til að lifa daglegu lífi, ég tala nú ekki um að stofna eða reka lítil fyrirtæki. Vegna þess að Evrópusambandið sníður sínar reglur — og eins og menn þekkja hefur það alveg einstakan áhuga á að flækja hlutina og búa til ný boð og bönn og gera mönnum erfitt fyrir á mörgum sviðum — að alþjóðlegum stórfyrirtækjum er eitt látið yfir alla ganga. Það skekkir mjög verulega samkeppnisstöðu minni fyrirtækjanna. Stórfyrirtækin hafa auðvitað möguleika á að takast miklu betur á við ástandið en litlu fyrirtækin, eru jafnvel með heilar deildir til að fást við regluverkið og kerfið á meðan litlu fyrirtækin eru annaðhvort rekin af einum aðila, einyrkja eða eiganda með dálítinn hóp með sér, sem getur átt í mesta basli með að fást við þetta og þarf að eyða í viðureignina við kerfið miklum tíma sem betur færi í rekstur fyrirtækisins eða fjármagni sem nýttist betur í fyrirtækinu til að ráða fólk og búa til verðmæti. Það býr til mjög skakka samkeppnisstöðu, enda virðist þróunin vera sú að þeir stóru eru alltaf að stækka á meðan minni fyrirtækjunum er í rauninni haldið í vörn.

Þetta er alveg sérstakt áhyggjuefni núna, herra forseti. Þess vegna sakna ég þess að ekki skuli vera nein áhersla á þessa hluti í tengslum við þennan faraldur því að faraldurinn hefur enn ýtt undir þessa þróun. Bara til að nefna sem dæmi eru allar litlu búðirnar sem hafa þurft að loka á meðan á þessu hefur staðið á meðan risarnir, erlend stórfyrirtæki, hafa í mörgum tilvikum dafnað. Búið var að veita þeim verulegt forskot. Eiga þau að hafa það forskot áfram? Það sama má segja um fjármálafyrirtæki. Það verður orðið mjög erfitt að reka sparisjóð á Íslandi eftir ekki svo langan tíma með sama áframhaldi. Á meðan stóru bankarnir ráða við að fylla út öll eyðublöðin og vera með fólk í vinnu við að fást við kerfið hafa litlu fyrirtækin einfaldlega ekki burði til þess. Verið er að skekkja samkeppnisstöðu lítilla fyrirtækja á ótal sviðum með íþyngjandi regluverki.

Þessi EES-samningur er auðvitað kominn úr böndunum. Við sjáum það í efnahags- og viðskiptanefnd að þar streymir inn nýtt íþyngjandi regluverk, iðulega sniðið að stórfyrirtækjum, sem bitnar á þeim litlu sem fá ekki nægt svigrúm til að takast á við kerfið. Þannig lenda fyrirtæki í því, og ég hef heyrt af því margar sögur, að allt í einu er komið nýtt regluverk sem mönnum er ætlað að uppfylla en erfitt er að fá upplýsingar um nákvæmlega hvernig eigi að uppfylla regluverkið, hvernig eigi að fylla út eyðublöðin. Menn reyna sitt besta og svo segir tölvan bara nei og sekt, oft himinhárri, er skellt á fyrirtækið, litla fyrirtækið sem var að reyna sitt besta á meðan stóra fyrirtækið, keppinauturinn, siglir bara í gegnum þetta. Nú þegar við erum að losna úr faraldursástandinu hefði maður viljað sjá hvert skuli stefnt með þetta. Eiga litlu og meðalstóru fyrirtækin áfram að fást við þann faraldur sem kerfis- og regluvæðingin er eða stendur til að veita þeim einhverja aðstoð í þeim efnum?

Af því að tíminn er að renna frá mér verð ég að láta nægja að nefna í lokin að hugmyndaauðgi stjórnvalda við að finna upp ný gjöld er auðvitað enn eitt vandamálið sem leggst á fyrirtæki landsins. Í anda nútíma- eða nýaldarstjórnmálanna er þessum gjöldum gjarnan gefið eitthvert jákvætt nafn, eru t.d. kölluð græn gjöld en þau eru gjöld engu að síður. Svo eru þau hækkuð og hækkuð aftur. Það sama má auðvitað segja um gömlu gjaldskrána sem er við hver áramót uppfærð af Alþingi til að leggja línurnar um verðbólguþróun ársins. Alþingi ríður á vaðið með verðhækkunum ár eftir ár, jafnvel í því ástandi sem við höfum verið. Ég vildi nota þetta tækifæri til að minna á og kannski spyrja hvort þetta faraldursár hafi verið alveg glataður tími, menn hafi ekkert unnið í því sem þurfti að laga fyrir eða hvort það hafi einfaldlega ekki verið vilji til að laga þessa hluti.