151. löggjafarþing — 90. fundur,  5. maí 2021.

atvinnuleysistryggingar og greiðslur til íþróttafélaga vegna launakostnaðar og verktakagreiðslna á tímum kórónuveirufaraldurs.

775. mál
[15:35]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Því ber að fagna að hér er hæstv. félags- og barnamálaráðherra að mæla fyrir 100.000 kr. styrk fyrir þá sem eru á atvinnuleysisbótum. Það er hið besta mál. En kaldhæðnin í þessu öllu saman er að nú í dag, 5. maí, eru 60 ár síðan Öryrkjabandalag Íslands var stofnað með sex aðildarfélögum. Í dag eru aðildarfélögin 41. Ég ætla að nota tækifærið og óska þeim innilega til hamingju með daginn. En það er kaldhæðnislegt og blaut tuska framan í andlitið á þessum aðildarfélögum og Öryrkjabandalaginu að það er ekki verið að láta alla fá þennan 100.000 kr. styrk. Þó að atvinnulausir séu í mjög slæmri aðstöðu þá eru þeir samt með mun betri rétt heldur en öryrkjar og þurfa ekki nema tvo mánuði til að ná þessum 100.000 kr. styrk, miðað við þær tekjur sem öryrkjar hafa mánaðarlega. Þar af leiðandi vil ég spyrja hæstv. félags- og barnamálaráðherra: Hvers vegna í ósköpunum er alltaf verið að gera svona hluti, mismuna hópum? Er tilgangurinn að etja þessum hópum saman eða skapa öfund? Hvers vegna í ósköpunum eruð þið ekki með heildarpakka fyrir þá verst settu og sýnið í verki að þið séuð ekki að mismuna, þið séuð með réttlæti, það sé réttlæti í þessum málum og fólk fái það sama, ekki alltaf eins og það sé verið að etja þessum hópum saman?