atvinnuleysistryggingar og greiðslur til íþróttafélaga vegna launakostnaðar og verktakagreiðslna á tímum kórónuveirufaraldurs.
Virðulegur forseti. Við ræðum hér frumvarp félags- og barnamálaráðherra. Það sem sló mig mest í því frumvarpi og er gott — ég skal vera fyrstur manna til að viðurkenna að þessi 100.000 kr. styrkur er frábær, en því miður ekki nóg. Við áttum okkur á því að þarna eru einstaklingar inni sem eru að fá 100.000 kr. styrk sem þurfa að lifa á rúmum 300.000 kr. á mánuði. Það segir sig sjálft að fólk lifir ekki á því, fólk tórir á þeim fjármunum ef það er yfir höfuð hægt. Það sem er kannski sorglegast við þetta er að þeir sem fá ekki þennan styrk eru þeir sem hafa dottið út af atvinnuleysisbótum, þeir sem eru komnir á félagsbætur, fólk sem er komið á þann stað að hver einasta króna er skert og ef það á maka þá er komin framfærsluskylda á makann; kerfi sem er ótrúlega ósanngjarnt og eiginlega ömurlegt til þess að vita að við skulum yfir höfuð vera með þannig kerfi.
Eins og ráðherra hefur bent á hefur ýmislegt verið gert, smotterí má segja, fyrir ákveðna hópa. En þessar 100.000 kr. og aðrir styrkir sem hafa verið veittir af ríkisstjórninni hafa ekki á neinn hátt skilað sér til þeirra eldri borgara sem verst hafa það, þeirra eldri borgara sem eru á einhvern undarlegan hátt að reyna að lifa af á búsetuskerðingunum þar sem verið er að bjóða þeim upp á lægsta mögulega ellilífeyri, mínus 10%. Til að koma þessum mínus 10% á hjá viðkomandi bjuggu þeir til kerfi sem kostaði meira í milljónum talið en að borga þeim bara þessar lágmarksellilífeyrisbætur sem eru smánarlega lágar. Nei, það þurfti að taka 10% af og borga bara 90% til þeirra sem verst hafa það í íslensku þjóðfélagi. Þessi hópur fær ekki 100.000 kr. Þessi hópur hefur ekki fengið neitt. Og það á líka við um þá eldri borgara sem eru á strípuðum ellilífeyri og fá ekkert úr lífeyrissjóðum. Þar er stærsti hlutinn konur sem hafa ekki haft nein lífeyrisréttindi vegna þess að þær hafa „bara verið heimavinnandi“, eins og það er kallað, að hugsa um börn og annað. Þeirra vinna er einskis metin og ríkisstjórnin telur ekki þörf á því að hjálpa þeim á einn eða neinn hátt í Covid-faraldrinum. Við verðum líka að átta okkur á því að þetta var hópurinn sem var einangraður heima vegna faraldursins, fékk ekki heimsóknir, gat ekki einu sinni farið út í búð, þurfti jafnvel að fá sendar vörur heim ef fólk hafði yfir höfuð efni á því eða hafði ekki tök á því að ná sér í aðföng og jafnvel ekki einu sinni tök á því að standa í biðröð eftir mat, eins ömurlegt og það er nú í okkar samfélagi að þeir sem verst hafa það þurfi yfir höfuð að standa í því. Það sýnir líka hversu skrýtið þetta kerfi er.
Í því samhengi verðum við líka að horfa á þessar stórfurðulegu ráðstafanir ríkisstjórnarinnar undanfarið. Það var jú boðið upp á að atvinnulausir fengju borgaðar atvinnuleysisbætur og færu þar af leiðandi í vinnu á þeim forsendum að þeir fengju lágmarkslaun og því væri vinnuveitandinn að borga atvinnuleysisbæturnar. Stuttu seinna er sett inn þetta undarlega fyrirbæri, 472.000 kr., sem er flott tala og sýnir að einhverra hluta vegna hefur mönnum eiginlega tekist að finna út réttu framfærslutöluna sem ætti að gilda fyrir alla sem eru í þessari aðstöðu, framfærslutölu upp á 472.000 kr. á mánuði. Ímyndum okkur augnablik hvað það myndi þýða fyrir allan þann hóp fólks sem er þarna úti að telja hverja einustu krónu, fólks sem veit ekki hvað það á að gera eftir að hálfur mánuður er liðinn frá mánaðamótum, ef það hefði fengið þessa upphæð, 472.000 kr., þ.e. rúmlega 350.000 kr. útborgaðar. Setjum það í samhengi við þá sem fá minnst, rétt 200.000 kr. útborgaðar. Þarna er himinn og haf á milli og þarna skilur akkúrat á milli þess að reyna að tóra í algeru svelti og að geta lifað með reisn. Hvers vegna í ósköpunum bjóðum við ekki öllum þetta? Hvers vegna í ósköpunum er verið að taka út ákveðinn hóp? Hvers vegna í ósköpunum er á sama tíma slegið á hendur þeirra, hvort sem það eru námsmenn eða þeir sem hafa dottið út úr kerfinu, eru komnir á félagsbætur? Þeir finna sér vinnu og vilja fá 472.000 kr. á mánuði, 11% lífeyrissjóð. Þá er slegið á hönd þeirra og sagt: Nei, þú passar ekki inn í kassann, þú dast út einum degi fyrr eða seinna. Einn dagur getur skipt sköpum. Einhverra hluta vegna finnst mönnum það bara hinn eðlilegasti hlutur að hafa hlutina á þennan stórfurðulega hátt.
Ég segi enn og aftur: Hér stöndum við og ræðum þetta og í dag er 5. maí, sem er afmælisdagur Öryrkjabandalagsins, 60 ára afmæli Öryrkjabandalagsins. Það er sorglegt til þess að vita að baráttan skuli ekki vera komin lengra en þetta, að eftir 60 ára baráttu sé staðan jafn ömurleg og hún er í dag. Gliðnunin er alltaf meiri og meiri. Það verður alltaf stærra bil á milli þeirra ríku og fátæku og síðan gliðnar bilið innan þeirra hópa sem reyna að tóra á lægstu launum frá Tryggingastofnun ríkisins eða á atvinnuleysisbótum. Það er eiginlega með ólíkindum að við skulum ekki geta fundið neinn grundvöll fyrir því að hafa þetta sanngjarnt, að hafa pakkann fyrir alla, að skilja engan út undan. Til dæmis hefði núna verið kjörið að koma með 100.000 kr. eingreiðslu skatta- og skerðingarlaust fyrir alla þá sem verst hafa það. Það hefði verið rétta útspilið. En þeir komu með greiðslur á síðasta ári fyrir öryrkja og einnig hafa komið greiðslur að ákveðnum hluta, 25.000 kr., minnir mig. Það er gott en það er bara plástur á sárið að veita einhverja svona styrki eða eingreiðslur.
Það sem við þurfum að gera og ríkisstjórnin hefur ekki gert en lofaði fyrir síðustu kosningar, forystuflokkurinn þar, er að bæta stöðu fátækra. Þeir hafa nú aldeilis þurft að bíða þessi fjögur ár og bíða enn, því miður. Gliðnunin er að aukast. Laun hjá opinberum starfsmönnum hafa hækkað töluvert meira en á almennum vinnumarkaði og það sýnir að kjaragliðnunin verður alltaf meiri og meiri. Ríkisstjórn eftir ríkisstjórn hefur séð til þess að það vantar um 40% upp á lífeyrislaun almannatrygginga til að jafna nokkurn veginn út kjaragliðnun og launahækkanir frá hruni. Því miður stendur ekki til hjá þessari ríkisstjórn að leiðrétta það. Það er gott að einhverjir fái þennan 100.000 kr. styrk en það er ömurlegt að ekki skuli allir fá hann, að ákveðnir hópar skuli vera skildir út undan. Það sem er kannski sorglegast í þessu öllu er að þeir skuli vera skildir út undan sem mest þurftu á þessu að halda, þ.e. þeir sem eru á félagslegum bótum. Það er líka ömurlegt að enginn 100.000 kr. styrkur skuli vera fyrir verst settu eldri borgarana á búsetuskerðingunum og með strípuð lífeyrislaun, að enn skuli ekki hafa sést króna fyrir þann hóp. Það er til háborinnar skammar fyrir þessa ríkisstjórn.