veitingastaðir, gististaðir og skemmtanahald o.fl.
Herra forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald, lögum um aukatekjur ríkissjóðs og lögum um leigu skráningarskyldra ökutækja.
Frumvarpið byggist á tillögum og rýni á vegum OECD sem hefur gert yfir hundrað tillögur til breytinga á laga- og reglugerðarákvæðum í ferðatengdri þjónustu hér á landi. Í frumvarpinu er kveðið á um ferns konar breytingar á gildandi lögum: Í fyrsta lagi breytingu á aldursskilyrði rekstrarleyfishafa vegna veitinga- og gististaða, í öðru lagi styttingu á málsmeðferðartíma vegna útgáfu tækifærisleyfa, í þriðja lagi breytingu á gjaldi fyrir rekstrarleyfi veitinga- og gististaða sem heimila sölu áfengis og í fjórða lagi er kveðið á um afnám þess skilyrðis að starfsstöð ökutækjaleigu skuli vera opin almenningi.
Eins og ég kom inn á byggist frumvarpið á tillögum efnahags- og framfarastofnunarinnar OECD. Árið 2019 gerðu íslensk stjórnvöld samning við OECD um framkvæmd á sjálfstæðu samkeppnismati á regluverki íslenskrar ferðaþjónustu og byggingariðnaðar. Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hafði umsjón með verkefninu sem var unnið í náinni samvinnu við Samkeppniseftirlitið, önnur ráðuneyti og stofnanir. Verkefnið leiddi meðal annars í ljós að draga má úr óþarfa reglubyrði fyrir atvinnustarfsemi og breyta regluverki í þeim tilgangi að það styðji betur við virka samkeppni innan íslenskrar ferðaþjónustu en samkeppni stuðlar að lægra verði og meiri gæðum auk betra vöruúrvals og nýsköpunar á mörkuðum. Samkeppnishindranir hafa þveröfug áhrif með neikvæðum afleiðingum fyrir neytendur. Við vinnslu verkefnisins voru 632 gildandi lög og reglugerðir á sviði ferðaþjónustu og byggingariðnaðar yfirfarin í þeim tilgangi að greina samkeppnishamlandi ákvæði. Vinna leiddi í ljós 676 mögulegar samkeppnishindranir. Af þeim gerir OECD 438 tillögur til úrbóta sem stofnunin telur að geti aukið landsframleiðslu um 1%.
Í janúar síðastliðnum var stofnaður vinnuhópur, skipaður fulltrúum atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis, samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis og Samkeppniseftirlitsins, til að vinna drög að fyrstu laga- og reglugerðarbreytingum sem grundvallast á umræddum tillögum OECD er varða ferðatengda þjónustu. Rétt er að geta þess að þær tillögur sem snúa að samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti eru ýmist til skoðunar, í vinnslu og frekara samráði við hagsmunaaðila eða nú þegar til meðferðar hjá umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis. Þá er einnig unnið að úrvinnslu tillagna sem snúa að umhverfis- og auðlindaráðuneyti á vegum þess, enda eru þessar tillögur víða í stjórnkerfinu, í mörgum lagabálkum og mjög ólíkar innbyrðis.
Virðulegur forseti. Með frumvarpi þessu er stigið skref í átt að því að efla viðspyrnu hagkerfisins, stuðla að einfaldara regluverki, aukinni framleiðni og fjölgun starfa. Rétt er að geta þess að frumvarp þetta er einungis einn liður í áframhaldandi vinnu við að bæta rekstrarskilyrði íslenskrar ferðaþjónustu. Samhliða frumvarpinu verða gerðar breytingar á reglugerð um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald sem taka mið af hluta tillagna OECD og eru ýmist að öllu leyti eða að hluta í samræmi við tillögur stofnunarinnar. Reglugerðarbreytingarnar fela m.a. í sér afnám úreltra og viðkvæmra forskriftarákvæða og staðla vegna gististarfsemi. Þá fela þær í sér brottfall ákvæða sem varða kröfur til opinberra gæðaúttekta sem og breytingar sem snúa m.a. að styttingu málsmeðferðartíma vegna umsókna tækifærisleyfa. Aðrar tillögur sem komu fram í skýrslu OECD kalla á frekari skoðun, undirbúning og nánara samráð milli atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis, annarra ráðuneyta, hagsmunaaðila, sveitarfélaga og stjórnvalda.
Í frumvarpinu er kveðið á um ferns konar breytingar eins og ég nefndi. Í fyrsta lagi er lagt til að aldursskilyrði umsækjanda um rekstrarleyfi eða forsvarsmanns umsækjanda verði rýmkuð. Eitt af skilyrðum fyrir útgáfu rekstrarleyfis samkvæmt gildandi lögum er að umsækjandi eða forsvarsmaður hafi náð 20 ára aldri á umsóknardegi en umrætt aldurstakmark tekur mið af áfengiskaupaaldri samkvæmt áfengislögum. Í því samhengi er málefnalegt að handhafar rekstrarleyfa sem fela í sér heimild til áfengisveitinga uppfylli aldursskilyrði til að kaupa áfengi samkvæmt áfengislögum. Hins vegar eiga sömu sjónarmið ekki við um annars konar rekstur sem fer fram á grundvelli laga um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald. Með hliðsjón af framangreindu og atvinnufrelsisákvæði stjórnarskrár er þess vegna lagt til hér að rýmka aldursmörk umsækjanda eða forsvarsmanns hans vegna leyfa til veitingastaða og gististaða sem fela jafnframt ekki í sér heimild til áfengisveitinga. Lagt er til að aldursmörk í slíkum tilvikum miðist við lögræðisaldur eða 18 ár.
Í öðru lagi er lagt til að lögbundinn frestur til að sækja um tækifærisleyfi verði felldur brott og þess í stað kveðið á um umsóknarfrest og málsmeðferðartíma í reglugerð. Viðburðir sem kalla á útgáfu tækifærisleyfa geta verið afar ólíkir að eðli og umfangi. Sú krafa í gildandi lögum að sótt sé um tækifærisleyfi með a.m.k. þriggja vikna fyrirvara, án tillits til eðlis eða umfangs viðburðar, getur verið verulega íþyngjandi fyrir smærri rekstraraðila. Viðburðir sem kalla á útgáfu tækifærisleyfis geta eðli máls samkvæmt verið haldnir með stuttum fyrirvara. Þá þarf að veita rekstraraðilum eðlilegan og sanngjarnan tíma til að auglýsa og undirbúa viðburði í kjölfar þess að tækifærisleyfi hefur verið veitt. Með vísan til þessa er lagt til að ákvæði um lögbundinn umsóknarfrest verði einfaldlega afnumið úr lögum. Þess í stað er lagt til að ráðherra verði heimilt að kveða nánar á um tímafrest í reglugerð sem tekið getur mið af eðli og umfangi viðkomandi viðburðar í því skyni að stytta málsmeðferðartíma eins og frekast er unnt. Þegar um er að ræða einfalda viðburði þarf málsmeðferðartíminn því ekki að vera þrjár vikur en hægt er að setja í reglugerð að þegar sá málsmeðferðartími þarf að vera allt að þrjár vikur, ef um er að ræða mörg leyfi og í mörg horn að líta fyrir ákveðinn viðburð, sé hægt að skrifa það út.
Þriðja breytingartillaga frumvarpsins snýr að gjaldi fyrir rekstrarleyfi veitinga- og gististaða sem heimila sölu áfengis. Í skýrslu OECD er m.a. vísað til þess að gjaldið samkvæmt gildandi lögum feli í sér óþarfa og órökstudda kostnaðarbyrði fyrir smærri fyrirtæki. Í samræmi við tillögur OECD er því lagt til að gjald vegna rekstrarleyfis veitinga- og gististaða sem heimilar sölu og/eða neyslu áfengis verði lækkað í því skyni að samræma betur raunverulegan umsýslukostnað við útgáfu slíkra leyfa. Samkvæmt gildandi lögum um aukatekjur ríkissjóðs er gjald fyrir rekstrarleyfi sem heimilar sölu áfengis allt að 6,5 sinnum hærra en gjald fyrir rekstrarleyfi án áfengisveitinga. Breytingarnar sem felast í frumvarpinu lækka þann mun verulega þannig að hann verður u.þ.b. tvöfaldur í stað þess að vera meira en sexfaldur.
Rekstur vínveitingastaða er til þess fallinn að kalla á aukinn eftirlitslöggæslukostnað. Hins vegar er ljóst að það einskiptisgjald sem kveðið er á um í gildandi lögum getur ekki staðið undir þeim kostnaði sem hlýst af viðvarandi eftirliti lögreglu, enda er það eftirlit fjármagnað með sérstakri fjárveitingu til lögreglu af fjárlögum. Umrætt gjald felur því fremur í sér lítt dulda aðgangshindrun að þeim mörkuðum sem um ræðir sem nemur mismuni þess umsýslukostnaður sem hlýst af útgáfu leyfisins og fjárhæð gjaldsins. Með frumvarpinu er þess vegna lagt til að gjald fyrir útgáfu rekstrarleyfa verði lækkað verulega í þeim tilgangi að efla samkeppni og auðvelda nýjum aðilum að hefja rekstur veitinga- og gististarfsemi. Með hliðsjón af eftirlitskröfum er hins vegar talið málefnalegt að gjald vegna rekstrarleyfa sem fela í sér heimild til sölu áfengisveitinga verði áfram hærra en gjald vegna rekstrarleyfa án slíkra heimilda.
Fjórða og síðasta breytingartillaga frumvarpsins varðar afnám þess skilyrðis að starfsstöð ökutækjaleigu skuli vera opin almenningi. Með breyttum viðskiptaháttum er talið rétt að falla frá umræddri kröfu, m.a. í því skyni að liðka enn frekar fyrir rafrænum viðskiptum og fjölbreyttari viðskiptaháttum. Skilyrði gildandi laga um fasta starfsstöð sem er opin almenningi getur verið sérstaklega íþyngjandi fyrir smærri ökutækjaleigur. Með því að afnema skilyrðin eru stigin fyrstu skref í að einfalda regluverk í tengslum við leyfisveitingar ökutækjaleiga. Umræddar breytingar eru til þess fallnar að auka fjölbreytni og nýsköpun og auðvelda nýjum rekstraraðilum að hefja starfsemi með minni yfirbyggingu og tilkostnaði.
Virðulegi forseti. Eins og ég kom inn á fyrr í ræðu minni er frumvarp þetta einungis einn liður í áframhaldandi vinnu við að bæta rekstrarskilyrði íslenskrar ferðaþjónustu. Það hefur verið unnið í góðu samráði við samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið, Samkeppniseftirlitið, sýslumanninn á höfuðborgarsvæðinu, Samgöngustofu og Ferðamálastofu. Frumvarpið hefur almennt í för með sér að aðgangshindrunum og íþyngjandi kvöðum á atvinnurekstur, sem ekki er talið að málefnaleg rök standi til að viðhalda í lögum, sé rutt úr vegi. Markmið breytinganna er að bæta skilyrði fyrir virka samkeppni og efla viðspyrnu hagkerfisins. Af frumvarpinu mun því leiða að skilyrði batna fyrir samkeppni og rekstur smærri fyrirtækja ásamt því að dregið er úr kostnaðarbyrði í formi opinberra leyfa og krafna.
Að lokinni þessari umræðu legg ég til að frumvarpinu verði vísað til hv. atvinnuveganefndar.