151. löggjafarþing — 90. fundur,  5. maí 2021.

málefni innflytjenda.

452. mál
[17:24]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Herra forseti. Þegar frá var horfið var ég að vísa í stefnu danskra jafnaðarmanna og sagði frá því að sú stefna sem íslenska ríkisstjórnin boðar nú sé í raun svik við þá sem þurfa mest á hjálp að halda að mati jafnaðarmannanna dönsku. Ég get tekið undir það. Ég ætla bara að vitna beint í inngangsorð stefnuskrár þeirra þar sem segir: Við erum að vanrækja skyldur okkar gagnvart öðru fólki ef við látum núverandi kerfi halda áfram. Það er kerfið sem íslenska ríkisstjórnin færir sig nú inn í. Og hvers vegna er það? Það er ekki hvað síst vegna þess að misnotkun kerfisins, sem verið er að bjóða upp á að aukist mjög hér á Íslandi, bitnar fyrst og fremst á þeim sem þurfa mest á hjálp að halda.

Það var nefnt hér að ríkislögreglustjóri hefði varað við því í mikilli skýrslu að hælisleitendakerfið á Íslandi væri misnotað af erlendum glæpagengjum. Það liggur fyrir. En það fyrirkomulag sem lagt er upp með í frumvarpinu mun auðvelda þeim til mikilla muna að beita íslenska kerfinu til að senda fólk til Íslands, til að fá fólk til að leita viðskipta við, ef það er rétta orðið, þessi stórhættulegu gengi og leyfa þeim að beina för fólks hingað til lands. Það er kjarninn í stefnu danskra jafnaðarmanna. Þeir segja: Við þurfum að hverfa frá stefnu sem gerir glæpagengjum kleift að nota Danmörku sem söluvöru. Danskir jafnaðarmenn segja einnig að ætlunin sé því einnig leið út úr núverandi ástandi þar sem hver hert aðgerðin á fætur annarri í einu landi leiðir til aðhalds í nágrannalöndunum — nema reyndar hér á Íslandi, þeir hafa ekki vitað af þessu frumvarpi — og þar sem lönd Evrópu, ef svo má segja, keppast um að vera minnst aðlaðandi áfangastaðurinn, nema Ísland sem virðist ætla að keppast um að verða mest aðlaðandi áfangastaðurinn, enda var þjónustan hér fyrir þetta frumvarp með því besta sem er í boði og hælisleitendur orðnir, eins og nefnt hefur verið, sexfalt fleiri á Íslandi hlutfallslega en í Danmörku og Noregi.

Það er lýsandi fyrir þetta mál og skort á rökum fyrir innleiðingu þess að þeir sem hafa komið hingað til að verja málið hafa ekki talað um raunveruleg áhrif þess. Þeir hafa ekki einu sinni talað um raunverulegt markmið og þó er markmiðið skýrt; að samræma þá þjónustu sem fólk fær, óháð því hvernig það kemur til landsins, hvort sem því er boðið hingað af íslenskum stjórnvöldum sem kvótaflóttamönnum, hafandi farið í gegnum löglegt, öruggt kerfi eða komið hingað ólöglega, stundum á vegum hættulegra glæpagengja. Það er markmiðið með þessu að það sé jafngilt með hvaða hætti menn koma. Það markmið er 180 gráður frá markmiði stjórnvalda í Danmörku þar sem forsætisráðherrann segir nú: Markmiðið er að enginn mæti til Danmerkur sem hælisleitandi. Við munum taka við flóttamönnum en við viljum hafa stjórn á því hverjum er boðið til landsins og við viljum hvetja fólk til að nýta sér öruggu leiðina, lögmætu leiðina, og þá hefur það tækifæri á því að koma til Danmerkur. Hér er farin þveröfug leið.

Herra forseti. Ég geri mér grein fyrir því að hæstv. forseti vill fara að koma fleiri málum á dagskrá þó að margt sé órætt í þessu. En ég verð að nefna örfá atriði í viðbót áður en ég lýk máli mínu í þessari umræðu og bið því um að verða settur aftur á mælendaskrá.