151. löggjafarþing — 90. fundur,  5. maí 2021.

Schengen-upplýsingarkerfið á Íslandi.

266. mál
[17:54]
Horfa

Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Birgir Ármannsson) (S):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar í þessu máli sem varðar Schengen-upplýsingakerfið á Íslandi. Hér er um að ræða töluvert viðamikið frumvarp sem felur í sér að skotið er lagaheimild undir breytingar á upplýsingakerfinu sem ætlað er að efla samvinnu lögreglu og dómsyfirvalda aðildarríkjanna í sakamálum, efla notkun upplýsingakerfisins á landamærum við landamæraeftirlit og styrkja stefnu Evrópusambandsins um endursendingu ríkisborgara þriðju ríkja sem dvelja ólöglega á Schengen-svæðinu.

Málið fékk allnokkra umfjöllun í nefndinni og við fengum til okkar umsagnir og gesti á fundi nefndarinnar og veltum nokkrum atriðum fyrir okkur eins og getið er um í nefndaráliti. Við leggjum til allnokkrar breytingartillögur sem þó eru fyrst og fremst tæknilegar en hafa ekki í för með sér miklar efnislegar breytingar á málinu sem slíku.

Ef ég má, hæstv. forseti, vísa örlítið í nefndarálitið þá fjöllum við um nokkra aðskilda þætti sérstaklega, þar á meðal um starfsemi SIRENE-skrifstofunnar, sem er miðlæg upplýsinga- og þjónustumiðstöð, og fjöllum nokkuð um fyrirkomulag við sólarhringsvöktun sem gerð er krafa um samkvæmt þeim alþjóðlega samningi sem hér liggur til grundvallar. Hér á landi hefur sá háttur verið hafður á að undanförnu að alþjóðadeild hefur með höndum vöktun og gegnir hlutverki SIRENE-skrifstofu, en til að sinna sólarhringsvöktun þá er um það að ræða að fjarskiptamiðstöð lögreglunnar veitir þjónustu á þeim tíma þegar alþjóðadeild er ekki opin. Við í nefndinni fjölluðum nokkuð um þetta og spurðum þá aðila sem hafa framkvæmdina með höndum um hvernig reynslan væri af þessu og niðurstaða nefndarinnar er á þá leið að núverandi fyrirkomulag tryggi það að SIRENE-skrifstofan og sú þjónusta sem henni fylgir sé fyrir hendi allan sólarhringinn eins og gerð er krafa um. Við bætum hins vegar við í nefndarálitinu, með leyfi forseta, texta sem hljóðar svo:

„Það liggur hins vegar fyrir að með tilkomu nýrra upplýsingakerfa sem nú eru í þróun aukast uppflettingar einnig í Schengen-upplýsingakerfinu. Þau fela óhjákvæmilega í sér fleiri smelli og aðgerðir í kjölfarið en umfang þeirra verkefna getur mögulega leitt til breytinga á núgildandi fyrirkomulagi alþjóðadeildar og fjarskiptamiðstöðvar.“

Þessu vildum við halda til haga vegna þess að þetta atriði fékk töluverða umfjöllun hjá okkur. Sem sagt, þó að við teljum að það sé hægt að uppfylla skyldur okkar með núverandi fyrirkomulagi, þá getur það komið til endurskoðunar í ljósi þess hvernig álag og verkefni þróast.

Í annan stað fjöllum við um brottvísun og brottför af frjálsum vilja. Við áréttum það í nefndaráliti að samkvæmt regluverkinu er gert ráð fyrir því að frestur brottfarar af frjálsum vilja sé veittur eftir að ákvörðun um brottvísun hefur verið tekin þannig að viðkomandi einstaklingur fái tækifæri til að yfirgefa Schengen-svæðið án þess að fá endurkomubann. Við teljum að það sé þörf á að samræma reglur um þetta og tökum fram að fyrirhugað sé að bregðast við framangreindu, þ.e. ákveðinni mismunun milli mismunandi tilvika, með frumvarpi til laga um breytingu á lögum um útlendinga sem liggur fyrir hjá nefndinni. Við áréttum að þetta atriði verði skoðað þar í því samhengi.

Við fjölluðum líka um skilgreiningu á sjálfviljugri brottför. Þar segir í nefndaráliti, með leyfi hæstv. forseta:

„Fyrir nefndinni komu fram sjónarmið um að skilgreining á sjálfviljugri brottför samkvæmt 14. tölulið 2. gr. frumvarpsins væri þrengri en tíðkaðist í framkvæmd. Í skilgreiningu frumvarpsins er gert ráð fyrir að sjálfviljug heimför sé án aðkomu lögreglu og Útlendingastofnunar en í framkvæmd geta umsækjendur um alþjóðlega vernd sótt um aðstoð Alþjóðlegu fólksflutningastofnunarinnar (IOM) til Útlendingastofnunar og auk þess hefur Landamærastofnun Evrópu (FRONTEX) lagt aukna áherslu á brottför af frjálsum vilja sem valkost við þvingaða brottför. Æskilegra væri að skilgreiningin væri orðuð í samræmi við skilgreiningu 8. tölul. 3. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2008/115/EB um sameiginlega staðla og málsmeðferð í aðildarríkjunum varðandi endursendingu ríkisborgara þriðja ríkis sem dvelja þar ólöglega. Meiri hlutinn tekur undir framangreint og leggur til breytingar þess efnis. Þá hefur hugtakið „sjálfviljug brottför“ verið notað nokkuð í orðræðu en einnig „sjálfviljug heimför“ en hins vegar leggur meiri hlutinn til að í stað þess verði notað hugtakið „brottför af frjálsum vilja“, (e. voluntary return) sem er í samræmi við íslenska þýðingu á framangreindri tilskipun. Þá eru lagðar til breytingar á hugtakanotkun í öðrum ákvæðum til samræmis við framangreint.“

Síðan vísum við til að felldar verði brott tilteknar reglugerðarheimildir af lagatæknilegum ástæðum og allnokkrar aðrar tæknilegar breytingar og lagfæringar sem getið er um á sérstöku þingskjali.

Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri, hæstv. forseti. Schengen-upplýsingakerfið hefur reynst afar mikilvægt við framkvæmd löggæslumála hér á landi og með því að innleiða þetta með þessari löggjöf erum við að tryggja að Ísland geti áfram nýtt sér kosti þessa kerfis og að lagaumhverfið hér sé í samræmi við lagaumhverfi í nágrannalöndunum sem er forsenda þess að þetta alþjóðlega samstarf geti gengið snurðulaust fyrir sig.