151. löggjafarþing — 90. fundur,  5. maí 2021.

loftferðir.

613. mál
[18:54]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta um.- og samgn. (Karl Gauti Hjaltason) (M):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti 2. minni hluta umhverfis- og samgöngunefndar varðandi þetta mál. Við teljum verulegum vafa undirorpið hvort b-liður 1. mgr. 1. gr. frumvarpsins, um að ráðherra geti skyldað flugrekendur til að synja farþegum um aðgang að loftfari á leið til landsins í vissum tilfellum, fái staðist gagnvart íslenskum ríkisborgurum í ljósi 2. mgr. 66. gr. stjórnarskrárinnar, sem hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Íslenskum ríkisborgara verður ekki meinað að koma til landsins né verður honum vísað úr landi.“

Herra forseti. Þetta er fortakslaust orðalag. Orðalagið í þessu ákvæði sker sig úr fyrir það hversu fortakslaust það er.

Heimild íslenskra ríkisborgara til komu til heimalandsins er sögulega nátengd ríkisborgararéttinum eins og hann er skilgreindur og skilinn og hvað í þeim rétti felst. Í þeim rétti felst í grunninn heimild til að koma til heimalandsins. Það eru grundvallarréttindi ríkisborgararéttarins og hafa verið það alveg frá upphafi. Þetta er ein af grunnstoðum kerfisins sem ríkisborgararétturinn er byggður á.

Fyrir umhverfis- og samgöngunefnd komu nokkrir sérfræðingar í stjórnskipunarrétti. Það er alveg rétt sem komið hefur fram í ræðum framsögumanns 1. minni hluta og meiri hluta nefndarinnar að sjónarmið þeirra voru vissulega ólík að því leyti að komið gæti til beitingar ákvæða frumvarpsins, hvort beiting þeirra gæti talist brot á 2. mgr. 66. gr. stjórnarskrárinnar. Menn voru alls ekki á einu máli um það.

Ég vil aðeins gera athugasemdir við það sem kom fram í máli hv. þm. Ara Trausta Guðmundssonar, að þessir sérfræðingar hafi haft orð á því að það væri bara gott að þetta yrði athugað eða prófað eða að það kæmi í ljós — mér finnst ekki vera mikil ábyrgð í slíkum viðbrögðum ef hugsanlegt væri að beiting eða framkvæmd einhverra ákvæða sem við setjum á Alþingi gætu talist brot á stjórnarskrá — þó að sérfræðingar í stjórnskipunarrétti teldu það vera eftirsóknarvert að þessi ákvæði kæmu svo fyrir dómstóla í einhvers konar tilraunaskyni eða byggt á einhverjum fræðilegum áhuga þeirra á því að sjá hver niðurstaðan yrði, mér finnst ekki vera ekki mjög mikil ábyrgð fólgin í því að samþykkja slíkt út af fræðilegum áhuga, alls ekki.

Beiting ákvæðisins í frumvarpinu gæti þannig að mati einhverra þessara sérfræðinga talist jafngilda því að íslenskum ríkisborgara yrði meinað að koma til landsins. Þetta rammar kannski inn það sem menn voru hræddir við, að breytingin gæti verið talin jafngilda því að honum yrði meinað að koma til landsins.

Ef þessi mál koma upp verður þessu auðvitað beitt. Og auðvitað koma þessi mál upp. Þessi mál munu koma upp. Slík mál gætu hæglega komið upp og sú hætta er því nærtæk, herra forseti. Hún er fyrirsjáanleg, hún er bæði nærtæk og fyrirsjáanleg. Ef talið er, og það leiðir til þess að talið er að þetta ákvæði fari í bága við stjórnarskrá, að þetta tilvitnaða ákvæði stjórnarskrárinnar leiði til skaðabótaskyldu ríkissjóðs, herra forseti — að setja slíkt ákvæði í lög vitandi um þessa yfirvofandi hættu eru ekki nægilega góð viðbrögð. Fræðilegur áhugi á úrlausnarefninu eða niðurstöðu dómstóla er bara ekki næg ástæða, herra forseti. Það er bara að mínu mati alls ekki næg ástæða, bara alls ekki. Mér finnst það vera kærulaust og ekki boðlegt fyrir okkur hér á Alþingi. Ef hætta er talin á þessu þá eigum við auðvitað ekki að fara þá leið, alveg sama hversu mikinn áhuga menn hafa á niðurstöðunni síðar, vegna þess að þarna er auðvitað verið að brjóta á rétti borgaranna og einnig að skapa ríkissjóði skaðabótaskyldu.

Annar minni hluti telur þess vegna verulega hættu á að tilvitnað ákvæði frumvarpsins, þ.e. beiting þess gagnvart íslenskum ríkisborgurum, yrði talið brot á tilvitnuðu ákvæði stjórnarskrárinnar. Við teljum að túlka beri stjórnarskrárákvæði þannig að það veiti íslenskum ríkisborgurum víðtæka vernd og sú vernd verði að vera virk í öllum aðstæðum.

Þetta er ekki nægilega tryggt með fyrirliggjandi frumvarpi. 2. minni hluti telur hættu á að ríkissjóður verði skaðabótaskyldur vegna tjóns sem rakið verði til skyldu flugrekanda til að synja íslenskum ríkisborgara um aðgang að loftfari á leið til landsins, að því marki sem sú skylda yrði talin jafngilda því að meina íslenskum ríkisborgurum að koma til landsins í skilningi stjórnarskrárinnar.

Jafnframt setur 2. minni hluti fyrirvara við raunverulega nauðsyn þessarar lagasetningar, sem er svo annað atriði, það er ekki bara stjórnarskrárhættan, það er líka nauðsyn lagasetningarinnar. Sumir hv. þingmenn hafa komið hér sérstaklega í andsvör og talið það vera stóra málið varðandi þetta frumvarp hver sé raunveruleg nauðsyn þess í dag, vegna þess að það er ekki langt síðan þetta frumvarp kom fram, í mars sl., og átti á þeim tíma að fara í gegnum þingið helst á einum eða tveimur dögum. Síðan eru liðnir einn og hálfur mánuður a.m.k. og nú er það komið til 2. umr., þannig að það bráðlá á.

Gildistími frumvarpsins er takmarkaður. Hann er tímabundinn þannig að maður getur spurt: Hvað liggur á? Er þetta nauðsynlegt? Hvernig er ástandið í faraldrinum? Mér skilst að bólusetningar gangi vel, það eru ekki miklar fréttir af veikindum og síst alvarlegum veikindum, þannig að hver er þessi nauðsyn að fara þessa leið, taka þessa áhættu varðandi stjórnarskrána og setja þetta frumvarp fram núna með þessum krafti sem virðist vera í því að koma því hér í gegn núna, loksins í byrjun maí? Er þetta nauðsynlegt, vegna þess að þetta er tímabundið og faraldurinn er á niðurleið? Veikindin eru ekki alvarleg en frumvarpið á samt að fara í gegn, kannski vegna sérstaks fræðilegs áhuga fræðimanna og til að sjá niðurstöðu varðandi stjórnarskrárhættu.

Frumvarpið er lagt fram af nefndinni sjálfri að tilstuðlan ráðuneytisins og þótti nauðsynlegt að það yrði að lögum sem fyrst. Síðan hefur margt breyst hvað varðar regluumhverfi sóttvarna, sem er svo annað atriði. Síðan hafa verið sett ný ákvæði í sóttvarnalög sem breyta stöðunni ansi mikið og veita yfirvöldum heimildir til að taka á komufarþegum hingað til lands á allt annan hátt en áður var. Þannig að það byggir líka undir þessa spurningu mína um hver nauðsynin er á þessari lagasetningu núna, svona seint þegar frumvarpið hefur dregist í einn og hálfan mánuð.

Loks telur 2. minni hluti að í ljósi þessa hafi ekki verið sýnt fram á að enn sé knýjandi þörf á þeirri lagasetningu sem hér er til umfjöllunar. 2. minni hluti leggst gegn samþykkt frumvarpsins en tekur þó undir og styður breytingartillögur meiri hluta nefndarinnar um að c-liður 1. mgr. 1. gr. frumvarpsins falli út. Við styðjum auðvitað að hættulegasta ákvæðið fari út, sem er þá framför. Við styðjum að það verði fellt út. En að öðru leyti getum við ekki stutt þetta frumvarp. Okkur líst nú ágætlega á tillögur 1. minni hluta eins langt og þær ná og munum styðja breytingartillögu þeirra einnig.