151. löggjafarþing — 91. fundur,  6. maí 2021.

kostnaður við móttöku hælisleitenda.

[13:10]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég styð ekki breytingar sem leiða til þess að við sköpum hér, hvað eigum við að segja, lægsta þröskuldinn, stærsta hliðið fyrir þann ótrúlega fjölda fólks sem er að leita sér að nýjum heimkynnum. Ég er trúaður á lausnir sem eru alþjóðlegar, taka mið af því sem samstarfsþjóðir okkar í þessum málum hafa sett sér, þeim reglum sem þær hafa sett sér og ég held líka að við höfum skyldu til að læra af reynslunni. Ég sé fyrir mér að við eigum að gera það sem að okkur snýr með myndarlegum hætti. Við eigum ofboðslega mikið undir því sem samfélag að hjálpa þeim sem eru komnir til landsins og hafa fengið samþykkta stöðu sem alþjóðlegir flóttamenn eða hafa komið hingað í kvótaflóttamannaprógrammi; að því fólki takist vel til við að aðlagast samfélaginu. Það er þangað sem ég held að við eigum að beina sjónum okkar. Svo eigum við að spyrja okkur spurninga út af málsmeðferðartímanum sem er ófullnægjandi, (Forseti hringir.) hefur leitt til þess að mörg mál hafa kannski verið samþykkt, jafnvel með ríkisborgararétti, hér á Alþingi fyrir það eitt að þau töfðust í málsmeðferð. Þetta gengur ekki. (Forseti hringir.) Það eru veikleikar í framkvæmd þessara mála á Íslandi sem við verðum að bregðast við.