151. löggjafarþing — 91. fundur,  6. maí 2021.

framkvæmd EES-samningsins.

764. mál
[14:13]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir skýrslu hans og framsögu hér. Ég vil víkja að því sem heitir bókun 35, en hún er um það að réttilega innleiddar lagareglur, Evrópureglur, hafi forgang umfram íslenskar lagareglur ef árekstur verður þar á milli. Rakið er að Eftirlitsstofnun Evrópu hafi haft innleiðingu þessarar bókunar til skoðunar undanfarin ár. Rakið er að formlegt samningsbrotamál hafi hafist með formlegu áminningarbréfi sem dagsett er 13. desember 2017. Síðan er enn fremur rakið að hinn 30. september 2020 hafi stofnunin gefið út rökstutt álit um málið. Þetta er allt saman rakið í skýrslu ráðherra. Þá vil ég leyfa mér að spyrja hæstv. ráðherra: Mér sýnist sem svo að stofnuninni sé mikið kappsmál að halda þessu máli til streitu þrátt fyrir svör og athugasemdir íslenskra stjórnvalda sem rakin eru í skýrslunni, en hvaða viðbúnaður hefur verið undirbúinn af hálfu ráðuneytisins ef svo færi að við lytum í lægra haldi í slíku máli?