151. löggjafarþing — 91. fundur,  6. maí 2021.

framkvæmd EES-samningsins.

764. mál
[14:22]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir fína ræðu sem ég tek undir, sérstaklega þann rauða þráð, sem ég fagna sérstaklega, að undirstrika mikilvægi EES-samningsins og -samstarfsins, þessa mikilvægasta alþjóðasamnings sem við höfum fram til þessa gert. Við munum að það var ekki alls fyrir löngu, fyrir einu og hálfu eða tveimur árum, sem við vorum í mikilli umræðu um þriðja orkupakkann. Þá var einn flokkur sérstaklega, Miðflokkurinn, sem barðist gegn því á grundvelli sinna hugsjóna og þá fundum við fyrir því að það væri ákveðinn þrýstingur innan Sjálfstæðisflokksins að taka aðra leið, en hann stóð vaktina og fylgdi þessu í gegn. Engu að síður sagði formaður Sjálfstæðisflokksins á sínum tíma í viðtali í þessu umhverfi að það þyrfti annars vegar að endurskoða alla orkulöggjöfina og hins vegar að endurskoða þyrfti eðli og inntak þess að vera þátttakandi í EES-samstarfinu. Því vil ég spyrja hæstv. utanríkisráðherra: Hefur það formlega ferli farið af stað, að skoða inntak þess að vera þátttakandi eða eðli þess að vera þátttakandi í EES-samstarfinu? Og ef svo er, hvenær verður hv. utanríkismálanefnd upplýst um það?