151. löggjafarþing — 91. fundur,  6. maí 2021.

framkvæmd EES-samningsins.

764. mál
[14:26]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er fegin að heyra að Sjálfstæðisflokkurinn ætlar ekki undanbragðalaust að fara að beita sér fyrir því að fara úr EES-samstarfinu eða beita sér fyrir breytingum. Við erum eðlilega með öfluga hagsmunagæslu og það er gríðarlega mikilvægt. Mér finnst líka mikilvægt að hæstv. ráðherra dró fram aðildina að NATO. Þar erum við einmitt blessunarlega fullgildir meðlimir þar sem við sitjum við borðið, höfum áhrif, höfum atkvæðisrétt, sem er annað en við höfum í rauninni gagnvart öllum þeim fjölda tilskipana sem við fáum hingað þar sem aðkoma okkar er minni. Gott og vel. Ég ætla ekki að fara að ræða um Evrópusambandsaðildina akkúrat hér.

En í seinni spurningu vil ég sérstaklega spyrja ráðherra um það sem á ekki að koma neinum á óvart, þ.e. að Evrópusambandið er tollabandalag og það er títt rætt um tollfrelsi og frelsi okkar Íslendinga, sem er gríðarlega mikilvægt. Meðan Evrópusambandið hefur gert 55 fríverslunarsamninga, eða samninga við 55 svæði, þá höfum við Íslendingar gert 32 samninga, fríverslunarsamninga eða samninga við tiltekin svæði. Af þessum 32 eru 27 gerðir með EFTA, sem sagt í samstarfi annarra þjóða m.a. á grunni og í tengslum við EES-samninginn, þannig að við erum að nýta okkar frelsi. Síðan eru það fimm samningar, þar af Hoyvíkursamningurinn og fleiri samningar sem eru mikilvægir, en við höfum ekki nýtt frelsi okkar meira en svo að það eru í rauninni fimm samningar utan alþjóðasamstarfs sem við höfum haft frumkvæði að.

Því vil ég spyrja hæstv. ráðherra, af því að honum er tollfrelsið hugleikið og frelsi til þess að gera samninga: Hvaða samninga megum við vænta þess að sjá núna á næstunni? Mun þeim fjölga gríðarlega í ljósi þess að við þurfum að nýta okkur þetta frelsi okkar Íslendinga? Eða getur verið, ef við værum t.d. í Evrópusambandinu, að við værum þá með 55 fríverslunarsamninga? Í dag höfum við bara 32, (Forseti hringir.) þar af 27 í gegnum EFTA. Mun ráðherra beita sér fyrir fjölgun fríverslunarsamninga í þágu frelsis eða innan frelsis Íslendinga til að semja sjálfir og í þágu Íslands?