151. löggjafarþing — 91. fundur,  6. maí 2021.

framkvæmd EES-samningsins.

764. mál
[14:53]
Horfa

utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Það er ákveðinn misskilningur hérna í gangi. Ef við værum í ESB tækjum við 100%. Af því að við erum í EES þá tökum við bara 13,4%. Í því felst munurinn. Þetta er ekki valkvætt. Það sem ESB-sinnar hafa gert til að grafa undan EES-samningnum er að láta að því liggja, og það hefur margoft komið hér fram, ekki bara á undanförnum árum heldur áratugum, og sagt að þetta sé nokkurn veginn eins og að vera í ESB af því að við tökum allt að 90% upp af gerðum ESB. Það er ekki þannig. Við erum bara þátttakendur í ákveðnum hluta samstarfsins. Mig minnir að það séu 34 kaflar í þessu Evrópusamstarfi, sem eru þá allir undir ESB og EES-samningurinn væri að fullu 10 kaflar inni í því. 13 eru algjörlega fyrir utan. Og af því að við erum EES-ríki þá tókum við á þessu árabili um 13,4%. Ef við færum í ESB þá tækjum við 100%. Það getur hver maður séð hvað það hefði mikil áhrif ef við færum úr 13,4% í 100%. Þetta er dregið fram í skýrslunni til að sýna fram á muninn á því að vera í EES-samstarfinu og síðan ESB. Það liggur alveg fyrir. Og af því að hv. þingmaður vísaði í að einhverjir þingmenn í öðrum flokkum vilji sannarlega ekki ganga í Evrópusambandið þá notuðu þeir hins vegar oft þessi rök, eða rökleysu, sem hefur verið hamrað á svo árum og áratugum skiptir en er einfaldlega rangt, að við séum nokkurn veginn að taka upp allar gerðir ESB. Við erum að taka upp á milli 13 og 14%.