151. löggjafarþing — 92. fundur,  10. maí 2021.

heimahjúkrun og umönnunarbyrði.

[13:17]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Á heimasíðu Öryrkjabandalagsins segir orðrétt að nærri 9% Íslendinga, eða 35.000 manns, telji sig hafa umönnunarskyldur gagnvart öldruðum, sjúkum eða fötluðum ættingjum. Nærri tíu sinnum fleiri Íslendingar þurfa að sinna slíkum umönnunarstörfum en Danir. Þær tölur sem Öryrkjabandalagið nefnir hér tákna þann stóra hluta félagskerfisins sem hefur einfaldlega verið velt yfir á íslensk heimili. Hvergi í Evrópu er viðlíka hátt hlutfall félagslega kerfisins á ábyrgð fjölskyldna og einstaklinga. Þessar tölur kallast á við upplýsingar úr nýútkominni skýrslu á vegum heilbrigðisráðuneytisins þar sem leitast er við að greina rekstrarkostnað hjúkrunarheimila. Þar kemur fram að mikið vanti upp á að viðmið hjúkrunarheimila, sett af landlækni, náist. Gildir það bæði hvað varðar að uppfylla kröfur um fjölda faglærðra starfsmanna og að fjölda umönnunarklukkustunda sé náð. Þessu stóra gapi á hjúkrunarheimilunum er væntanlega að einhverju leyti mætt af aðstandendum og skýrir það hluta tölunnar sem ég nefndi hér áðan. Öryrkjabandalagið undrast af hverju landlæknisembættið sé að setja viðmið fyrir þessa þjónustu en því sé ekki fylgt eftir. Þessi staða helst í hendur við fjölgun öryrkja hér á Íslandi. Skýrsla Kolbeins Stefánssonar um fjölgun öryrkja sýnir að nær helmingur aukningarinnar er vegna kvenna á aldrinum 50–66 ára. Möguleg skýring gæti legið í kynjabundinni verkaskiptingu á vinnumarkaði, aukinni byrði kvenna í heimilishaldi, umönnun barna og eldri veikra fjölskyldumeðlima og kynbundnu ofbeldi, svo að dæmi sé nefnt. Bak við þessar tölur eru mæður, ömmur, frænkur, systur sem eru rétt komnar á miðjan aldur og geta hreinlega ekki meir. 17 sinnum var einstaklingi neitað um að komast inn á hjúkrunarheimili. Hvað er hæstv. heilbrigðisráðherra að gera í þessum málum í dag?