151. löggjafarþing — 92. fundur,  10. maí 2021.

undirbúningur þjóðgarðs á Vestfjörðum.

[13:40]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir þessa fínu fyrirspurn. Mig langar að byrja á því að geta þess að margt hefur í raun þegar verið gert á þessu svæði, sérstaklega á Dynjandasvæðinu. Ég held að þar sé búið að ráðast í uppbyggingu fyrir 200 eða 250 milljónir, ef ég man rétt. En fyrir áframhaldandi uppbyggingu innviða þarna þarf að liggja fyrir greining á þörfinni og sú greining stendur yfir núna. Við höfum falið Vestfjarðarstofu að vinna það. Það er síðan starfshópur í gangi í kringum friðlýsinguna með aðkomu heimamanna sem er í samstarfi við þá aðila sem vinna þessa greiningarvinnu. Þegar hún liggur fyrir, sem ætti að vera núna í maímánuði, er betur hægt að svara spurningunni um hversu mikið það verður sem þarna má gera ráð fyrir. En það þarf að huga að gestastofum, uppbyggingu göngustíga og fleiri þáttum. Það er hins vegar alveg ljóst að ráðinn verður þjóðgarðsvörður á þetta svæði og aðstoðarmaður þjóðgarðsvarðar eins og er í hinum þjóðgörðunum okkar. Það er alla vega öruggt að svo verði og það fjármagn er til. En nákvæmlega hvernig síðan sú uppbygging sem áætluð er á næstu fimm árum verður útfærð, þá horfum við að sjálfsögðu til landsáætlunar um uppbyggingu innviða sem er okkar lykilstjórntæki í að fjármagna innviðauppbyggingu.

Aðeins varðandi það sem hv. þingmaður nefnir hér um samráðsferlið. Sveitarfélögin hafa frá upphafi verið með í þessari vinnu í þeim samstarfshópi sem er að vinna að friðlýsingarskilmálunum og ég hef sjálfur fundað með sveitarfélögunum, bæði áður en þetta hófst og svo nýlega, en síðan er samráðsferlið líka við íbúana. Það hefur verið haldinn kynningarfundur og samráðsfundur á netinu, ég held að um 60 manns hafi sótt þann fund, og fleiri slíkir fundir fyrirhugaðir. Við höfum sent dreifibréf til íbúa og fleira í þeim dúr og síðan er umsagnarfrestur til 26. maí þannig að öll geta haft áhrif á það og sent inn athugasemdir.