151. löggjafarþing — 92. fundur,  10. maí 2021.

Ný þýðing á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

568. mál
[14:38]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Herra forseti. Ég vil innleiða hér nýjan lið í þingstörfum sem ég ætla að kalla týnt/fundið, og það aðallega kannski týnt. Og hvað er nú týnt, herra forseti? Það er eitt stykki frumvarp sem Alþingi ályktaði fyrir hartnær tveimur árum að ríkisstjórninni bæri að leggja fram og lýtur það frumvarp að lögfestingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Þetta mál er um nýja þýðingu á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. En, herra forseti, það er ekki nóg að þýða umræddan samning, við þurfum að lögfesta hann. Við erum búin að samþykkja það í þessum sal að við viljum lögfesta þennan grundvallarmannréttindasamning og það gerðum við fyrir tveimur árum. Þetta mál lagði ég fram og voru 15 aðrir þingmenn á málinu og var það skýrt að lögfesta bæri þennan grundvallarsamning. Og ólíkt flestum þingmálum þingmanna var málið samþykkt af öllum flokkum. Í þessu máli var ríkisstjórninni beinlínis falið af þinginu að undirbúa lögfestinguna og átti ríkisstjórnin að leggja fram frumvarp á Alþingi sem fæli í sér lögfestingu samningsins og aðlögun íslenskra laga að honum eigi síðar — takið eftir — en 13. desember 2020. Þetta var fyrir fimm mánuðum og þetta hefur ekki verið gert. Ég kalla eftir liðsinni forsetans og kollega minna hér á þingi við að kalla eftir þessu frumvarpi inn í þennan sal áður en þingi er slitið.

Það var sorglegt þegar ég skoðaði málaskrá ríkisstjórnarinnar í upphafi þessa vetrar, en málaskráin segir til um hvaða mál ríkisstjórnin ætlar að leggja fram í vetur, og þar kom ekkert slíkt frumvarp fram, þrátt fyrir að við séum búin að samþykkja það hér að ríkisstjórninni beri að leggja slíkt frumvarp fram. Við erum búin að taka þá pólitísku ákvörðun og þingsályktun er í eðli sínu, samkvæmt stjórnskipuninni, viljayfirlýsing þingsins. Ráðherrarnir og ríkisstjórnin eru framkvæmdarvald og ber að framkvæma þann vilja sem við leggjum í hendur ríkisstjórnarinnar. Sá vilji er brotinn hér, herra forseti. Í þessu mikilvæga máli liggur þessi vilji þingsins fyrir og ráðherrar eiga ekki að geta valið og hafnað þingsályktunum eftir hentugleika, ég ítreka að ráðherrar fara með framkvæmdarvald og eiga að framkvæma vilja þingsins.

Vegna þessa máls hef ég spurt hæstv. forsætisráðherra í þessum þingsal, ég gerði það síðastliðið haust, hvernig á því stæði að þetta mál af öllum, mál sem myndi þýða gríðarlega mikla réttarbót fyrir fatlað fólk og öryrkja á Íslandi, sé látið mæta afgangi. Fátt var um svör á þeim tíma en hæstv. forsætisráðherra sagðist ætla að skoða málið. En nú, herra forseti, er liðið hálft ár og lítið heyrist af efndum. Það kom yfirlýsing frá ríkisstjórninni ekki fyrir löngu um að hefja bæri undirbúning á því að setja á fót sjálfstæða Mannréttindaskrifstofu og var vitnað til þess að það væri liður í lögfestingunni. Ég fagna því. Ég fagna því að þetta mál er að kalla fram sjálfstæða Mannréttindaskrifstofu sem áskilnaður er um í þessum samningi. En það er ekki nóg, herra forseti, lögfestingin er eftir. Alþingi sem er löggjafarvaldið, æðsta stofnun Íslendinga, hefur einmitt stigið, og ég ítreka það enn og aftur, það sögulega skref að samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks beri að lögfesta. Það er óumdeilt að það risaskref myndi stórbæta réttindi þessa hóps. Eins og fjölmargir dómar sýna er mikill munur á lögfestingu og fullgildingu. Við erum búin að fullgilda samninginn en við erum ekki búin að lögfesta hann. Hæstiréttur hefur bent á það í sínum dómum að í ljósi þess að samningurinn er ekki lögfestur þurfi stjórnvöld með ákveðnum hætti ekki að framfylgja honum eins og hann væri lög.

Við höfum einungis lögfest þrjá meginalþjóðasamninga. Það eru barnasáttmálinn, mannréttindasáttmáli Evrópu og EES-samningurinn. Við höfum auðvitað fullgilt fullt af alþjóðasamningum, en takið eftir, við höfum í raun bara lögfest þrjá alþjóðasamninga. Með lögfestingunni yrði þessi samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks settur á þennan stall, við hliðina á barnasáttmálanum, við hliðina á mannréttindasáttmála Evrópu og við hliðina á EES-samningnum.

Herra forseti. Ég er gríðarlega stoltur af því þingmáli sem ég lagði fram á sínum tíma og náði í gegn ásamt félögum mínum því að með lögfestingunni yrði Ísland eitt fyrsta land í heimi til að lögfesta þennan alþjóðasamning. Það er ekki oft sem Ísland getur státað sig af slíku. Og mér leiðist ekki að minnast á að það var einnig þingmál frá mér á sínum tíma, sem fékkst samþykkt hér á Alþingi, um að lögfesta bæri barnasáttmálann. Við urðum síðan einnig ein fyrsta þjóðin í heimi til að lögfesta hann. Það vill svo til að seinna í dag er á dagskrá mál frá hæstv. félagsmálaráðherra um aðgerðaáætlun um innleiðingu barnasáttmálans. Það stóra skref stigum við á sínum tíma og ég hef ítrekað úr þessum stól áskorun mína til ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur um að virða vilja þingsins og leggja þetta frumvarp fram og ljúka þessari aðlögun íslenskra laga að samningnum.

Herra forseti. Öryrkjar hafa lengi beðið eftir kjarabótum frá þessari ríkisstjórn og núna eiga þeir að bíða eftir réttarbótum og það réttarbótum sem Alþingi hefur nú þegar ákveðið að ráðast skuli í. En, herra forseti, þetta mál snertir ekki bara fatlað fólk á Íslandi heldur alla þjóðina. Vilji þingsins er alveg skýr og sé hann ekki virtur í þessu máli af öllum er um stórfrétt að ræða. Boltinn er hjá ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur og þið tókuð kannski eftir því að það birtist heilsíðuauglýsing síðastliðna helgi sem var áskorun frá Öryrkjabandalaginu einmitt um þetta, að við ættum að fá þetta frumvarp frá ríkisstjórninni og ljúka lögfestingunni. Þetta er ekki í fyrsta sinn, herra forseti, sem Öryrkjabandalagið neyðist til að kaupa heilsíðuauglýsingu í blöðunum til að kalla eftir því að vilji þingsins sé virtur. Ég veit að það eru örfáir dagar eftir af þessu þingi en ég hvet hæstv. ríkisstjórn til að standa við þau fyrirheit sem við höfum gefið þjóðinni og fötluðu fólki um að við klárum þessa lögfestingu. Hér er allt of mikið í húfi til að við getum misst tækifærið úr greipum okkar. Það mun ég aldrei taka til greina því þetta er eitt af þessum stóru málum sem við gætum öll verið stolt af því að vera hluti af, þ.e. að klára þetta mál. Málin verða í mínum huga ekki mikið stærri, herra forseti.