151. löggjafarþing — 92. fundur,  10. maí 2021.

Ný þýðing á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

568. mál
[14:49]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Þetta er milljón dollara spurningin. Ég átta mig hreinlega ekki á því af hverju ríkisstjórnin leggur þetta frumvarp ekki fram. Við samþykktum þessa þingsályktun fyrir næstum tveimur árum og það eru fimm mánuðir síðan frumvarp átti að koma fram. Það hefur ekki skort tímann og ef það skortir ekki tíma þá skortir vilja. Mér finnst svo sorglegt að í þessum málum af öllum skuli ríkisstjórnin ákveða að hunsa vilja þingsins. Eða hvað? Verður frumvarp lagt fram? Það var ekki á málaskránni. Það er ekki enn komið fram. Er ekki einhver skilafrestur til 1. apríl? Við getum veitt afbrigði fyrir slíkum málum. Mér finnst þetta vera stórmál. Þingið er búið að ákveða þetta. Þingsályktun er viljayfirlýsing þingsins. Ráðherrar eiga ekki að geta hafnað eða valið þingsályktanir eftir hentugleika. Þeir eru framkvæmdarvaldið. Í öðru lagi lýtur þetta að mannréttindum, eins og hv. þingmaður bendir á. Mannréttindasáttmálar eins og þessi veita aðhald, auka vernd. Þeir búa til tæki borgaranna gagnvart stjórnvöldum. Það skiptir svo miklu máli að slíkir samningar séu lögfestir því að Ísland aðhyllist svokallaða tvíeðliskenningu sem byggir á því að alþjóðasamningar fái ekki lagagildi hér nema við lögfestum þá. Dómstólar geta því ekki beitt alþjóðasamningum eins og settum lögum nema við stígum það skref að lögfesta þá. Það getur vel verið að þetta mál strandi á kostnaði, mannréttindi geta kostað. Ég trúi bara ekki að það sé ástæðan. Það er nú annað eins sem við eyðum í þessum sal. Ég ætla því að nýta síðustu sekúndurnar hvað þetta varðar og segja: (Forseti hringir.) Við megum ekki láta þetta mál sofna. Þetta er allt of stórt mál til að láta ríkisstjórnina ljúka sínu kjörtímabili án þess að leggja þetta frumvarp fram.