151. löggjafarþing — 92. fundur,  10. maí 2021.

Ný þýðing á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

568. mál
[14:51]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég tek heils hugar undir. Þetta er allt of stórt mál eins og hv. þm. Ágúst Ólafur Ágústsson segir til að leyfa ríkisstjórninni einfaldlega að sitja með það algerlega óhreyft hjá sér. Þingmaðurinn nefnir einmitt kosningaár. Ég vil miklu frekar segja að mér finnst þetta skýr pólitísk kosningayfirlýsing. Við vitum að ríkisstjórnin og ríkisstjórnarflokkarnir ætla sér að halda áfram og ég held að allir forystumenn allra ríkisstjórnarflokkanna hafi lýst því yfir að þau muni reyna að halda áfram að starfa. Þetta er líka skýr yfirlýsing inn í þeirra kosningaplagg um að þau ætli ekkert að gera neitt í málinu. Ég held því að við verðum að halda áfram, meðan 17 þingdagar eru eftir af kjörtímabilinu eða alla vega á þessu þingi, að þrýsta á ríkisstjórnina í þessu mikilvæga máli. Ég ítreka því spurningu mína varðandi það af hverju hv. þingmaður telur — milljón dollara spurning, sagði hann — að ríkisstjórnarflokkarnir dragi lappirnar í þessu máli. Telur hann einhvern einn flokk umfram annan vera dragbít í málinu?