151. löggjafarþing — 92. fundur,  10. maí 2021.

Ný þýðing á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

568. mál
[15:01]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Við ræðum hér tillögu til þingsályktunar um nýja þýðingu á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Hv. þm. Ágúst Ólafur Ágústsson hefur barist hatrammlega fyrir því að samningur Sameinuðu þjóðanna verði lögfestur og ég hef stutt hann í því. Mér sýnist að þessi þýðing sé hækja vegna þess að hægt hefði verið að koma henni út fyrir löngu. Ríkisstjórnin er á fjórða ári. Það hefur verið rifist um þessa þýðingu í fjölda ára. Ríkisstjórnin hefði getað komið með þýðinguna fyrr. Mig langar að spyrja hv. þingmann: Hefði það breytt nokkru, ef við værum búin að lögfesta samninginn, þó að þýðingin hefði komið seinna? Við hefðum þá bara getað breytt orðalaginu í lagasafninu. Aðalatriðið hlýtur að vera að fá lögfestingu á samningnum. Það hlýtur að hafa verið tilgangurinn með því að Alþingi samþykkti að þetta ætti að liggja fyrir í desember. Það er eiginlega alveg með ólíkindum að á sama tíma og þessi löglegu réttindi sem Alþingi á að vera búið að koma á eru til umræðu er umboðsmaður Alþingis hvað eftir annað að slá á puttana á framkvæmdavaldinu, Tryggingastofnun og ráðuneytinu, fyrir að brjóta löglegan rétt á skjólstæðingum Tryggingastofnunar. Það gildir bæði um skerðingar og líka þegar gengið er svo langt að hirða eignir af öryrkjum ólöglega. Ég segi fyrir mitt leyti: Ef einhvern tímann hefur verið þörf og nauðsyn á að lögfesta samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks þá er það núna. Við verðum að drífa í því vegna þess að ef það hefði verið búið hefði ekki verið hægt að fara út í ólöglegar aðgerðir gagnvart þessu fólki.