151. löggjafarþing — 96. fundur,  17. maí 2021.

ástandið á Gaza.

[13:03]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Forseti. Undanfarna viku hafa staðið yfir linnulausar loftárásir á Gaza. Ísraelski herinn hefur drepið a.m.k. 214 manns, þar af 58 börn. Þetta er áframhald á ástandi sem hefur smám saman farið versnandi frá lokum seinni heimsstyrjaldar en alþjóðasamfélagið hefur setið aðgerðalaust hjá og horft á voðaverk og dauða tugþúsunda. Það kemur engum lengur á óvart að núverandi stjórnvöld í Ísrael nýti hvert tækifæri til ofsafenginna og ofbeldisfullra viðbragða gagnvart Palestínumönnum en allt er það hluti af áætlun ísraelskra stjórnvalda um að sölsa undir sig landsvæði Palestínumanna, hrekja þá á flótta og hertaka landsvæði þeirra.

Forseti. Aðeins samhæfður og hávær þrýstingur frá alþjóðasamfélaginu getur mögulega hnikað áformum ríkisstjórnar sem virðir mannslíf að vettugi. Það þýðir að ríkisstjórnir allra landa, líka Íslands, þurfa að sýna frumkvæði og hafa þor til að tjá sig gegn stríðsglæpum, tjá sig gegn drápi á börnum og mótmæla harðlega þjóðarmorðum. Hvað ætlar ríkisstjórn hæstv. forsætisráðherra að gera í þessu máli? Hvaða aðgerða á að grípa til að hennar mati?