151. löggjafarþing — 96. fundur,  17. maí 2021.

loftferðir.

613. mál
[14:17]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er einmitt vegna þess að menn eru að vísa til einhvers konar bráðaástands sem mögulega ríkti þegar þetta frumvarp var lagt fram en á alveg örugglega ekki við nú um stundir eins og aðstæður hafa þróast hér á landi. Það er einmitt við slíkar aðstæður sem er mjög mikilvægt að lagaheimildir séu ekki opin ávísun fyrir framkvæmdarvaldið til að setja reglur um ókomna tíð og framlengja þær, eins og við höfum einmitt dæmi um þegar sett var lagaheimild til handa hæstv. dómsmálaráðherra og hæstv. heilbrigðisráðherra til að setja skorður á ferðalög manna til og frá landinu. Þá voru þær skorður settar í lagaheimild með tímabundnum hætti. Það hlýtur að vera hægt að gera kröfu um það hér að löggjafinn taki afstöðu til tímalengdar og til slíkra valdbeitinga yfir höfuð, að það sé gert með lögum en ekki reglugerðum. Um það hefur þessi umræða um lögmæti aðgerða snúist. Í ljósi þess að aðrar lagaheimildir til aðgerða í þessum efnum eru tímabundnar til mun skemmri tíma, til loka júní á þessu ári, skýtur það skökku við að þessi lagaheimild eigi að vera til ársloka, ekki loka þessa árs heldur næsta árs, ársins 2022. Ég myndi hvetja nefndina til að endurskoða þetta af því að ég held að það liggi alveg ljóst fyrir að þetta mál fari aftur inn til nefndar milli 2.og 3. umr. Ég mun a.m.k. óska eftir því.

En í ljósi þess að hv. frummælandi og framsögumaður þessa máls vísar í reglugerðina og nefnir að hún muni bara gilda í fjórar vikur í einu þá vil ég spyrja: Hefur nefndin fengið að sjá drög að slíkri reglugerð? Liggur hún fyrir nú þegar? Og ef svo er, væri ekki rétt að gera hana opinbera öllum þingheimi og almenningi til upplýsingar?