151. löggjafarþing — 96. fundur,  17. maí 2021.

loftferðir.

613. mál
[14:30]
Horfa

Frsm. meiri hluta um.- og samgn. (Ari Trausti Guðmundsson) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Mér datt reyndar ekki í hug að við þyrftum að eyða meiri tíma í þetta mál en það virðist samt vera svo, a.m.k. hér og nú. Þetta snýst annars vegar um stjórnarskrána og svo þetta meðalhóf sem við gjarnan köllum svo. Þetta orð, fortakslaust, þýðir án undantekninga. Það er svo sagt eiga við þessa tilteknu grein í stjórnarskránni, en á auðvitað við um fleiri. En alltaf er það nú þannig að ef við lesum stjórnarskrána saman, öll réttindi í stjórnarskránni, myndar hún auðvitað ákveðinn réttindagrunn og hann er fortakslaus ef menn vilja kalla það svo. Auðvitað er það ekki þannig í reynd. Ef dómur fellur t.d. þannig að einhver hér er sekur um einhvern glæp í útlandinu og óskað er eftir að hann sé þar af leiðandi afhentur yfirvöldum o.s.frv. og samningar eru um það þá er auðvitað hægt að vísa manni frá Íslandi en það er ekki leyfilegt samkvæmt þessari stjórnarskrárgrein. Verið er að leggja fram, minnir mig, á þingi mál þar sem á í raun og veru að gera refsiverða og banna ákveðna neikvæða umfjöllun — þið skiljið hvað ég á við — um helförina. Það er skerðing á málfrelsi og réttindum manna. Auðvitað getur löggjafinn sett slík lög og rétt í þessu máli. Hvað er það annað en ákveðin skerðing á tilteknum fortakslausum réttindum? Og varðandi meðalhófið: Óvissa í faraldrinum gerir það að verkum að eins og hálfs árs lagagildi greinar eða laga sem reglugerð gildir um er auðvitað í lagi ef reglugerðin sem á þeim hvílir er endurskoðuð á fjögurra vikna fresti. Þá er auðvelt að kippa því öllu saman úr sambandi og hætta að beita þessu úrræði. Það er ekki flókið.