151. löggjafarþing — 96. fundur,  17. maí 2021.

loftferðir.

613. mál
[14:37]
Horfa

Óli Björn Kárason (S) (andsvar):

Herra forseti. Við erum að einhverju leyti að rífast um orðinn hlut vegna þess að hv. þingmaður hefur tekið undir með öðrum um að ekki eigi að meina íslenskum ríkisborgurum, með þeim hætti sem gert var ráð fyrir í upphaflegu frumvarpi, að koma aftur til síns heima. Það stendur í rauninni líka skýrt í stjórnarskránni að íslenskum ríkisborgara verði ekki vísað úr landi. Hann verður ekki framseldur til annars ríkis nema þá að undangengnum dómi. Það er annað og það er ekki framkvæmdarvaldið sem tekur þá ákvörðun.

Ágreiningur okkar er um hvað kallast meðalhóf. Ég tel það ekki vera meðalhóf þegar ráðherra eða framkvæmdarvaldinu er veitt víðtæk reglugerðarheimild, eins og hér er gert ráð fyrir, allt til loka ársins 2022, ekki síst þegar haft er í huga að Alþingi Íslendinga verður starfandi meginhluta þess tíma sem líður til loka árs 2022. Ef menn telja að rök séu fyrir því eða nauðsyn, sem ég vona að verði ekki, að veita ráðherra slíka heimild til reglugerðar þá geta menn veitt hana í lögum. En það er engin ástæða til að hafa þessa reglugerðarheimild út árið 2022 og ég vara eindregið við því að menn geri það bara fyrir þægindaauka eins og mér virðist vera, það sé bara svo gott og þægilegt fyrir framkvæmdarvaldið. Það er ávísun á að við lendum í öngstræti. Þess vegna tel ég mikilvægt að þessi reglugerðarheimild verði a.m.k. takmörkuð við nokkra mánuði.