151. löggjafarþing — 96. fundur,  17. maí 2021.

ferðagjöf.

776. mál
[16:24]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég ákvað að taka aðeins þátt í þessari umræðu um endurnýjun á því sem kallað hefur verið ferðagjöf. Það var áhugavert að hlusta á samtal hv. framsögumanns og þingmanna um hvort lengja eigi tímann eða hvort framlengja eigi þá gjöf sem enn er í gildi. Auðvitað getum við haft ýmsar skoðanir á því. Ég hvet fólk til að nýta sér þá ferðagjöf sem enn er ónotuð þá daga sem eftir lifa af maí þangað til að hún rennur út. Ég tek undir það og ég held að það gæti verið dálítið áhugavert að heyra hverjir það eru sem hafa ekki nýtt sér þessa gjöf. Sjálf hef ég heyrt í kringum mig að fólk hefur sagt: Ég þarf ekki á þessum fjármunum úr ríkissjóði að halda, ég get séð um mig. Allt í góðu með það og þá er betra að þeir verði nýttir í eitthvað annað. Það eru alls konar skoðanir á þessu og ekki má heldur gleyma því að auðvitað getur hluti af skýringunni verið að við þrengdum takmarkanir, aðgerðir voru hertar og annað slíkt. Eftir sumarið var fólk kannski að hreyfa sig minna og það getur verið hluti af skýringunni á því að ferðagjöfin var ekki nýtt. Ég tek undir það og ég held að það gæti verið áhugavert að reyna að greina hverjir það voru sem ekki nýttu sér hana.

Ég tek undir að auðvitað er þetta hvati. Þetta er hvati til að viðspyrnan verði hraðari. Það eru líka ákveðin skilaboð í því að hafa ferðagjöfina ekki til mjög langs tíma. Það er líka ágætt að reyna að koma peningunum í vinnu í hagkerfinu sem allra fyrst. Ég tek þó undir að það var ágætt að bæta þessum mánuði við, að ferðagjöfin gildi fram í lok september. Það eru kannski okkar sumarlok, sumarleyfi fólks eru fram undir lok september. En ég held að við verðum að reyna að hugsa um að því hraðar sem þetta fer út því hraðari verður viðspyrna ferðaþjónustunnar. Ég tel að núna þegar bólusetningin gengur svona gríðarlega vel eins og hún gerir hjá okkur sé það líka partur af því að við endurupplifum væntanlega ekki það sem gerðist þegar leið á sumarið í fyrra og við þurftum að draga saman seglin og þjónustufyrirtæki og fyrirtæki í ferðaþjónustu þurftu að loka enn og aftur. Ég vona svo sannarlega að við þurfum ekki að standa frammi fyrir því að það gerist aftur þegar líða fer á sumarið.

Það sem mig langaði til að leggja inn í umræðuna — fyrir utan að hvetja fólk til að nýta sér þessa ávísun og búa til góðar minningar með fjölskyldunni, því að þetta skiptir máli, 5.000 kr. skipta máli, ekki má gera lítið úr því, eins og stundum hefur heyrst, að þetta sé ekki neitt og lítið hægt að gera fyrir þetta — en ég hvet fyrirtæki til að gera eins og svo margir gerðu við síðustu ávísun, að bæta við hana þannig að það verði enn þá meiri hvatning fyrir fólk að nýta sér þjónustu þeirra. Það voru ansi mörg fyrirtæki sem það gerðu. Það væri líka áhugavert að skoða þetta t.d. út frá því, talandi um að fá greiningar á gögnum um nýtingu ávísunarinnar sem er að renna út, hvort það skipti máli hvar fólk velur að nýta hana. Ég held að auðvitað neiti fólk sér um margt eða geri það síður og þetta er hvatning til þess að nýta sér ávísunina í einhverja góða afþreyingu, listviðburði eða annað slíkt sem fólk leyfir sér kannski síður dag frá degi.

En ég vildi alla vega setja það inn í þessa umræðu að hvetja fyrirtæki í ferðaþjónustu og þau sem hyggjast taka við ferðagjöfinni að bæta við hana, að bjóða fólki upp á að örlitlu verði bætt við hana. Enn þá eru fyrirtæki sem gera það með þá gömlu, það veit ég. Ég held að það hljóti að skila sér í aukinni veltu og fleiri heimsóknum til þeirra fyrirtækja sem það gera.

Virðulegi forseti. Það verður áhugavert að sjá hvað kemur út úr þessu með gildistímann ef það er eitthvað sem liggur ekki enn þá fyrir þó að það komi hér fram og hafi komið fram í máli hv. framsögumanns. Væntanlega verður ekki komin ný ríkisstjórn þegar ávísunin á að falla úr gildi þannig að það getur verið skynsamlegt að lengja tímann aðeins. Ég held þó að betra sé að reyna að koma þessum peningum sem fyrst í vinnu, inn í hagkerfið.