151. löggjafarþing — 97. fundur,  18. maí 2021.

störf þingsins.

[13:10]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Við horfum fram á bjartari daga hér á landi. Sól hækkar á lofti, bólusetningar ganga sinn gang og í kjölfarið hefst vonandi viðspyrna í atvinnumálum þjóðarinnar. En það er ekki bjart alls staðar, fjarri því. Hörmungar dynja enn og aftur á palestínskri þjóð og enn sem komið er horfir alþjóðasamfélagið aðgerðalaust á. Hernaðurinn, eyðileggingin og mannfallið í Palestínu síðustu daga fer ekki fram hjá neinum. Hamas-liðar hafa myrt óbreytta borgara í Ísrael en gagnárásir Ísraelshers hafa kostað tuttugufalt fleiri lífið, þar á meðal fjölda barna. Það er enda ljóst að Ísrael hefur mikla yfirburðastöðu gagnvart Palestínu, bæði hvað varðar hernaðarafl og efnahagslega yfirburði, m.a. í ljósi stuðnings frá erlendum ríkjum.

Ég ætla ekki að þykjast hafa lausnir á áratugalöngum deilum og átökum Ísraels og Palestínu, en ég hef skoðun á þeirri vegferð sem Ísraelsmenn eru á og það hljótum við öll að hafa. Aðgerðir þeirra á Gaza, valdníðsla, endurteknar landtökur og brottrekstur Palestínubúa frá heimilum sínum, og nú hernaðaraðgerðir sem koma fyrst og fremst niður á óbreyttum borgurum, körlum, konum og börnum, er eitthvað sem við eigum að hafa skoðun á. Það er einfaldlega ekki hægt að sitja aðgerðalaus hjá. Mannréttindabrot og brot á alþjóðasamþykktum eru líka ólögleg í þessum heimshluta og þau ber að stöðva með öllum ráðum. Líf og öryggi milljóna manna, karla, kvenna og barna, veltur á því að vopnahléi verði komið á á milli Ísraels og Palestínu og að friðsamleg lausn verði fundin til frambúðar.

Við Íslendingar höfum sterka rödd á alþjóðavettvangi. Það höfum við, þessi litla þjóð, sýnt oftar en einu sinni. Við þurfum að nota hana.