Bráðabirgðaútgáfa.

151. löggjafarþing — 97. fundur,  18. maí 2021.

fjölmiðlar.

367. mál
[16:56]
Horfa

Páll Magnússon (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er ágætt að koma inn á þetta. Ég vil þó segja strax að ég hef ekki talað fyrir því að það ætti að styrkja frekar stærri fjölmiðla en minni. Ég hef hins vegar sagt að það ætti að styrkja þá eins og þá minni þannig að þeir lúti sömu reglum. En ég er þó tilbúinn, eins og við vorum í meiri hluta nefndarinnar og í nefndinni, að setja þetta þak, þetta 25% þak. Þegar talað er um að þetta sé til að styrkja fjárfestana en ekki fréttirnar þá væri það í fyrsta lagi afar hæpið að þetta myndi duga miðlunum sem voru nefndir til samanburðar og hefðu fengið hlutfallslega meira ef hámarkið hefði verið lækkað, eins og hv. þm. Björn Leví Gunnarsson nefndi, til þess að fara í sjálfstæðan fréttaflutning, þ.e. þennan alltumlykjandi eða víttumlykjandi meginstraumsfréttaflutning sem ég er að tala um enda hef ég aldrei heyrt það af málflutningi þeirra miðla að framtíðarplön þeirra eða metnaður liggi þar, miklu frekar í því að gera meira af því sem þeir eru að gera.

Við höfum dæmi um það að eitt af stóru ríku fjölmiðlafyrirtækjunum — ríkt í þeim skilningi að vera bara stórt, ekki í þeim skilningi að þola bullandi tap — tók þá ákvörðun núna í vetur að læsa fréttum Stöðvar 2. Það er næsta númer við að hætta að reka fréttastofuna. Og ég held að ekki sé á vísan að róa með að þessir stóru aðilar sem reka þessi þrjú stóru fjölmiðlafyrirtæki, sem öll eru rekin með u.þ.b. milljón króna tapi á dag, eigi eða vilji eða nenni að halda rekstrinum áfram að óbreyttu. Við erum að gera okkur vonir um, og það er ástæðan fyrir því (Forseti hringir.) að ég og minn flokkur getum fallist á þetta tímabundið, að tvenns konar endurskoðun og breytingar (Forseti hringir.) sem koma þá vonandi í kjölfar þessarar endurskoðunar, bæði á útlendingunum og fyrirferð ríkisins á þessum markaði, breyti rekstrarumhverfinu þannig að það þurfi ekki að koma til beinn ríkisstyrkur af þessu tagi.