151. löggjafarþing — 97. fundur,  18. maí 2021.

fjölmiðlar.

367. mál
[19:42]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Frú forseti. Við ræðum hér þingmál um ríkisvæðingu allra fjölmiðla á Íslandi að umtalsverðu leyti. Við ræðum mál sem er kynnt sem bráðabirgðaráðstöfun en er í raun í eðli sínu framtíðarfyrirkomulag eins og sjá má á málinu sjálfu og áliti meiri hluta hv. allsherjarnefndar. Þar segir t.d., með leyfi forseta:

„Samkvæmt c-lið 2. gr. frumvarpsins skal umsókn um rekstrarstuðning, ásamt fylgigögnum, berast eigi síðar en 31. mars ár hvert.“

Ár hvert, frú forseti. Fjölmargt annað í þessu máli sýnir að þó að það sé í rauninni kynnt má segja á fölskum forsendum, sem bráðabirgðaráðstöfun, er það greinilega hugsað sem framtíðarfyrirkomulag. Nú er það reyndar sett í samhengi við faraldur kórónuveiru en eins og hv. þm. Óli Björn Kárason og fleiri hafa nefnt er málið í raun sama eðlis og mál sem kom fram í desember 2019, er í rauninni sama málið. En það var fyrir upphaf faraldursins. Þegar kórónuveirufaraldurinn hófst sáu einhverjir sér leik á borði að klæða málið í kórónaföt ef svo má segja. Allt í einu varð það Covid-mál. Svo gerist það aftur núna þegar við vonandi sjáum loksins að þessi faraldur er að hjaðna á Íslandi, hættir að vera vandamál hjá okkur, að þetta er aftur lagt fram sem bráðabirgðaráðstöfun vegna ástandsins í efnahagslífinu og áhrifa þess á íslenska fjölmiðla. Einkareknir íslenskir fjölmiðlar voru lentir í stórkostlegum vandræðum, stórkostlegum fjárhagsvanda, löngu áður en kórónuveirufaraldurinn hófst. Það var löngu komið fullt tilefni til að taka á rekstrarumhverfi þessara miðla á heildstæðan skynsamlegan hátt. Það var ekki gert. Það var lagt fram sams konar mál og þetta um ríkisvæðingu miðlanna, faraldurinn var svo notaður sem rökstuðningur og núna bætt við því dulargervi sem felst í að kalla það bráðabirgðaráðstöfun, sem mér finnst satt best að segja ekki alveg heiðarlegt þegar málið er skoðað. Það má hverjum manni vera ljóst til hvers er ætlast með framtíðaráhrif málsins. Fyrir utan þá augljósu staðreynd sem margir hafa bent á í þessari umræðu, hv. þm. Brynjar Níelsson í ræðu sinni, að við getum öll getið okkur til um það, þingmennirnir 63, hvernig það yrði ef einhver minnti á það þegar þar að kemur að þetta hafi bara verið til bráðabirgða og þar af leiðandi ætti ekki að framlengja það. Það verður nefnilega búið að venja ekki bara þingið heldur fjölmiðlana á þetta fyrirkomulag. Og væntanlega mun ekki skorta áminningarnar um að þeir sem ætli ekki að framlengja séu að fara að setja framtíð íslenskra fjölmiðla í hættu. Hér er því verið að innleiða raunverulega framtíðarráðstöfun, framtíðarfyrirkomulag í dulargervi Covid-máls og bráðabirgðaráðstöfunar.

Það hefur verið endalaus vandræðagangur með þetta mál, frú forseti. Maður sér það glöggt á málinu sjálfu og raunar á nefndarálitum líka að flækjurnar eru orðnar óhemjumiklar. Hv. þm. Sigríður Á. Andersen rakti það ágætlega í ræðu svoleiðis að ég ætla ekki að verja löngum tíma í að fara yfir flækjurnar í málinu sem er á margan hátt sérkennilegt. Það þarf leyfi frá fjölmiðlanefnd og 12 mánaða aðlögunartími þarf að líða, sem ég tek undir með þeim hv. þingmönnum sem hafa á það minnt að er auðvitað mikil aðgangshindrun í þessari grein. Þeir sem gætu hugsað sér að stofna nýjan miðil og byrja þá með lítinn miðil standa höllum fæti gagnvart þeim sem eru þegar komnir með þennan stuðning. Eins og ég nefndi áðan voru fjölmiðlar löngu lentir í vandræðum og það ætti fyrir löngu síðan að vera komin heildstæð nálgun um þessi mál. Menn hafa lagt til ólíkar leiðir, eins og ég kem aðeins betur inn á á eftir, en ekkert verið gert með það heldur bara hjakkað í sama farinu. Í nýjum þjónustusamningi við Ríkisútvarpið er ekki á nokkurn hátt, þrátt fyrir fyrirheit sem höfðu verið gefin, a.m.k. væntingar hvað það varðaði, tekið á þeim vanda sem starfsemi þeirrar stofnunar eins og henni er háttað setur aðra fjölmiðla í. Mér hafði skilist að þetta ætti að leysa að einhverju leyti í nýjum þjónustusamningi, auk þess að árétta lögbundnar skyldur Ríkisútvarpsins um hlutleysi og eitt og annað fleira sem mætti kannski alveg minna á. En það fór fyrir ofan garð og neðan. Ráðherrann hefur kannski ekki viljað styggja svo áhrifaríkan fjölmiðil.

Og hér sitjum við uppi með þessa lausn ef lausn skyldi kalla vegna þess að tíminn hefur ekki verið nýttur til að taka á heildarmyndinni. Úr getur orðið það sem hv. þm. Óli Björn Kárason kallaði vanheilagt bandalag. Hvernig verður það t.d. ef menn fara að takast á um það í kosningabaráttu hvaða flokkur ætli að láta fjölmiðla fá mesta peninga, beinharða peninga? Ég veit um nokkra flokka hér á þingi sem gætu vel hugsað sér að taka þátt í slíkum popúlisma og farið í uppboð við aðra flokka í þeim efnum. Þeir sem legðu þá til eitthvað minna yrðu sakaðir um að vilja svelta fjölmiðlana. Hvernig stendur á því, frú forseti, að ekki skuli hafa verið farin sú leið að reyna að koma til móts við fjölmiðla — og það er enginn ágreiningur um vanda þeirra — koma til móts við þá með því að létta á þeim álögum, jafna samkeppnisstöðuna? Auðvitað er óhjákvæmilegt að taka á þeirri stöðu sem felst í yfirburðum Ríkisútvarpsins, þessari forgjöf á markaðnum.

Þó að menn ímyndi sér kannski að þetta fyrirkomulag, ríkið í alla miðla, muni ekki hafa áhrif á umfjöllun miðlanna — sumir ímynda sér það kannski, í mörgum tilvikum er eflaust rétt að mönnum takist að líta fram hjá því — er samt ekki hægt að horfa fram hjá þeirri hættu að þetta setur fjölmiðlana í erfiðari stöðu gagnvart þeim aðila sem útdeilir fjármagninu og getur til að mynda gert fjölmiðlum erfiðara fyrir að gagnrýna aukin ríkisútgjöld. Þegar ríkið er einu sinni sem oftar að bæta við útgjöldum einhvers staðar verða fjölmiðlar þá eins vel í stakk búnir til að gagnrýna slíkt, verandi sjálfir orðnir styrkþegar ríkisins? Þess vegna hefði verið miklu betra að koma til móts við fjölmiðlana með því að bæta rekstrarumhverfi þeirra, til að mynda með því að undanþiggja þá að ákveðnu leyti virðisaukaskatti, rétt eins og erlendu efnisveiturnar — ég segi ekki að þær gnæfi yfir, þær gnæfa ekki eins mikið yfir og Ríkisútvarpið, en þær eru alla vega farnar að taka verulegar tekjur, mögulegar tekjur, af innlendum miðlum og þær borga ekki skatt hér. Til að jafna þá stöðu, gæta jafnræðis, væri eðlilegt að koma til móts við fjölmiðlana á þann hátt. Við sjáum að fréttastofa Stöðvar 2 sendir ekki lengur út fréttir í opinni dagskrá. Þessar efnisveitur og áhrif þeirra voru nefnd í því sambandi, að stöðin hafi þurft að loka fyrir útsendingar frétta nema fyrir áskrifendur af þessum sökum. Það er mikið tjón af því, frú forseti, að stærstur hluti landsmanna hafi núna aðeins aðgang að sjónvarpsfréttum frá ríkinu og jafnvel er hætt við að því verði öllu snúið á haus og notað sem rökstuðningur fyrir því að ríkið þurfi að vera með þessar sjónvarpsfréttir þegar búið er að drepa allt hitt. Svo öfugsnúin er stundum röksemdafærslan í þessu máli.

Auðvitað er með stökustu ólíkindum að Ríkisútvarpið sé hvergi nefnt í þessu máli. Ég þurfti nú að fara aftur yfir það eftir að hv. þm. Sigríður Á. Andersen benti á þá staðreynd að það er ekki nefnt í málinu og ekki í nefndaráliti meiri hlutans. Hugtakið fíllinn í stofunni hefur líklega aldrei átt eins vel við og um Ríkisútvarpið í þessu máli, stóra málið sem hefur langmest áhrif af öllu á fjölmiðlamarkaðinn hér þar sem einn risi er ríkisstyrktur og með allsráðandi stöðu á auglýsingamarkaði. Menn eru að fjalla um hvernig hægt er að koma til móts við einkarekna fjölmiðla og láta bara eins og vandinn sé ekki til. Því miður er það raunin í allt of mörgum málum nú til dags að menn eru ekki að taka á hlutunum eins og þeir raunverulega eru heldur kannski frekar eins og þeir ættu að vera eða, eins og í þessu tilviki, líta einfaldlega bara fram hjá því.

Fjallað er um Ríkisútvarpið í máli sem var nefnt fyrr í umræðunni og hv. þingmenn Óli Björn Kárason og Brynjar Níelsson hafa lagt fram. Ég tek undir þá tillögu sem kom fyrst frá hv. þm. Óla Birni Kárasyni og fleiri hafa tekið undir að auðvitað ætti að ræða þessi mál saman. Nú hefur verið beðið um að málið fari aftur til nefndar milli umræðna og alveg sjálfsagt og eðlilegt — og í rauninni ekki bara eðlilegt, það væri óeðlilegt að gera það ekki þegar Ríkisútvarpið gleymdist í málinu. En enn þá er hægt að bæta úr því og ég vona að hv. þingmenn séu ekki alveg einir um þetta mál í sínum þingflokki. Ég veitti því athygli að þeir eru bara tveir á málinu og ég vona að þeir séu ekki sem tegund í útrýmingarhættu í þingflokknum, séu ekki eins og norðlægi hvíti nashyrningurinn. Það eru bara tvö eintök eftir af þeirri tegund. (ÓBK: Karlkyns báðir.) Reyndar kvenkyns í þessu tilviki, báðir kvenkyns, ólíkt hv. þingmönnum sem báðar eru karlkyns, svoleiðis að það er ekkert hægt að gera í því máli. Ég veit ekki hvort hægt er að gera eitthvað í máli nashyrninganna okkar hér á þingi en við verðum að vona að fleiri komi til hjálpar og styðji það a.m.k. að þetta fái umfjöllun í nefndinni.

Þá minni ég líka á það sem fleiri hafa gert hér í umræðunni að allir þingmenn Miðflokksins lögðu fram annars konar tillögu til að taka á vanda Ríkisútvarpsins, mjög hófsöm tillaga reyndar, í okkar anda, tillaga byggð á lausnamiðaðri hófsemi þar sem, til að byrja með a.m.k., fólki yrði gefinn kostur á að ánefna hluta útvarpsgjaldsins, nefskattsins, öðrum fjölmiðlum. Í því felst auðvitað ákveðið lýðræði. Fjölmiðlar gegna mikilvægu hlutverki í lýðræðisfyrirkomulagi og ef við ætlum að leggja á þennan nefskatt er lýðræðislegt að fólk geti þá haft eitthvað um það að segja hvert fjármagnið fer, fjármagn sem á að renna í að efla fjölmiðlun, en sé ekki neytt til að borga allt saman í miðil sem kannski stendur fyrir eitthvað sem viðkomandi er afskaplega andsnúinn. Þetta er lýðræðisleg tillaga. Með því er ég ekki að segja að ég hafni tillögu hv. þm. Óla Björns Kárasonar og Brynjars Níelssonar en mér finnst eðlilegt að þessi þrjú mál verði rædd saman í allsherjar- og menntamálanefnd.

Svo hafa menn nefnt BBC, breska ríkisútvarpið, í samhengi við Ríkisútvarpið. Þá er rétt að minna á að þó að BBC sé um margt gjörólíkt Ríkisútvarpinu íslenska hefur það farið svolítið út af sporinu hvað varðar grunnskyldur sínar, innan lands a.m.k., varðandi hlutlægni. Þar er þetta hins vegar viðurkennt og standa nú yfir tilraunir til að bæta þar úr. Nýr stjórnarformaður og forstjóri fyrirtækisins viðurkenna þennan vanda og að á honum þurfi að taka og stjórnvöld gera það líka. Hér erum við hins vegar með Ríkisútvarp sem er óskeikult, algerlega óskeikult að eigin mati, á sama hátt og ríkisútvarpið í Austur-Þýskalandi í gamla daga. Ef eitthvað sem þar birtist reyndist ekki vera rétt var raunveruleikinn endurskilgreindur því að eðli máls samkvæmt var útvarpið óskeikult. Það má ekki alveg líta fram hjá því þegar við erum að ræða stöðu Ríkisútvarpsins gagnvart innlendum fjölmiðlum að það þarf, a.m.k. á meðan sú er raunin, að fylgja lögum og uppfylla skyldur sínar gagnvart almenningi. Það er einum of langt gengið, eða reyndar meira en það, ef eitt fyrirtæki á að gnæfa yfir markaðinn, soga til sín stóran hluta, jafnvel megnið, af auglýsingafé, hafa auk þess forskot með ríkisstyrkjum en ætlar ekki einu sinni að fylgja lögunum sem gilda um þessa stofnun og þeim rökstuðningi sem hefur verið við lýði frá stofnun félagsins að það þurfi að veita almenningi réttar og hlutlægar upplýsingar.

Auðvitað má líkja þessu ástandi við ýmsan annan rekstur. Matvöruverslanir eru til að mynda ekki síður mikilvægar en fjölmiðlar þótt fjölmiðlar séu mikilvægir. Ef staðan hefði einhvern tímann verið sú að fólk hefði ekki aðgang að matvælum hefði það getað verið réttlætanlegt fyrir ríkisvaldið að bæta þar úr. En þegar hins vegar aðrir eru komnir inn á þann markað og farnir að sinna því vel að sjá fólki fyrir matvælum væri þá eðlilegt að ríkið héldi áfram með langstærstu matvöruverslunarkeðjuna sem auk þess væri studd af skattfé og hún myndi ekki þurfa að selja sínar vörur á hærra verði en aðrar, gæti jafnvel haft það lægra vegna þess að hún væri með þessa forgjöf af ríkisfé? Væri vænlegt að reka matvöruverslun, einkaverslun, við þær aðstæður? Að sjálfsögðu ekki. Það væri í rauninni ómögulegt, rétt eins og það er erfitt og í sumum tilvikum jafnvel ómögulegt, að reka hér einkarekna fjölmiðla í samkeppni við ríkið í 350.000 manna samfélagi. Fjölmiðlarekstur er auðvitað dýr í eðli sínu þó að hann sé ekki alveg eins dýr og hann var kannski hér áður fyrr. Það er dýrt að reka fjölmiðla og þeir hafa margir í gegnum tíðina því miður komist í þrot eða eigendur þeirra þurft að setja aukið fjármagn inn í þá. Þeir hafa lengi reynt að hrópa á meiri sanngirni, meira réttlæti í rekstrarumhverfi sínu en stjórnmálin hafa því miður skellt við skollaeyrum og virðast núna ætla að leysa málið, ef svo má segja, einfaldlega með því að taka þessa miðla alla undir ríkisrekstur eða ríkisútgjöld.

Frú forseti. Það er auðvitað miklu meira sem ég ætlaði að ræða í þessu máli, þar með talið að nefna kirkjuna af því að hún kom til umræðu hér áðan, ágætur samanburður við stöðu Ríkisútvarpsins. En tími minn er á þrotum og ég verð að sjá til eftir því hvernig umræðan þróast hvort ég fæ að skrá mig aftur á mælendaskrá.