151. löggjafarþing — 97. fundur,  18. maí 2021.

fjölmiðlar.

367. mál
[20:57]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni fyrir andsvarið. Hann spyr hvernig ég geti ímyndað mér að þetta sé tímabundin aðgerð. Það er einfaldlega vegna þess að það stendur skýrt í nefndarálitinu, ég var fullvissuð um það af nefndarmönnum og það kom fram í framsöguræðum, að þetta væri tímabundið stuðningskerfi sem gilti til 31. desember 2022 vegna miðlunar á fréttum og fréttatengdu efni árin 2020 og 2021. Það er í því ljósi sem ég segi að um sé að ræða tímabundna aðgerð. En ég skil alveg punktinn sem hv. þingmaður er að setja fram hér: Hvað gerist næst? Það er kannski einmitt þess vegna sem ég áréttaði að við yrðum að koma fram með heildstæðari sýn á hver eigi að vera framtíð fjölmiðla hér á Íslandi og hvernig rekstrarumhverfi við viljum búa fjölmiðlum til framtíðar. Það er bráðaðkallandi mál. Það sem við erum að fjalla um er í mínum huga ekki framtíðarlausnin á því. Það getur vel verið að einhverjum hugnist það ágætlega og myndi bara vilja sjá umhverfið þannig en í mínum huga er það ekki svo.

Hv. þingmaður spyr líka: Af hverju er Sjálfstæðisflokkurinn ekki búinn að breyta þessu vegna þess að sjálfstæðismenn hafa jú verið í menntamálaráðuneytinu — sem betur fer — lengi? Ég verð bara að viðurkenna að ég veit það ekki. Ég skil ekki af hverju við erum í þeirri stöðu sem við erum í í dag. Hv. þingmaður hefur það fram yfir mig að hafa bæði setið hér lengur og líka setið í ríkisstjórn sem tók á ýmsum málum. Hvernig var umræðan þá og af hverju var ekkert gert í tíð þeirrar ríkisstjórnar, í ljósi þess að það eru alla vega tveir fyrrverandi ráðherrar þeirrar ríkisstjórnar sem hafa talað hér í dag um þessi mál?

En ég segi fyrir mitt leyti: Ég skil það ekki, ég skil ekki af hverju við höfum ekki sett þéttari ramma í kringum Ríkisútvarpið og af hverju við höfum leyft því að vaxa eins og það hefur gert á síðustu misserum þegar það hefði átt að gera þveröfugt, að færa það inn í minna öryggishutverk, eingöngu.