151. löggjafarþing — 97. fundur,  18. maí 2021.

endurskoðun á laga- og reglugerðaumhverfi sjókvíaeldis.

640. mál
[21:25]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Höllu Signýju Kristjánsdóttur fyrir ágæta yfirferð og kynningu á þessari þingsályktunartillögu um endurskoðun laga- og reglugerðarumhverfis sjókvíaeldis. Hún er fyllilega tímabær og þörf. Það hefði verið ánægjulegt ef hv. flutningsmenn hefðu komið tillögunni fyrr inn í þingið þannig að hægt hefði verið fyrir hv. fulltrúa að vinna henni fylgi í ríkisstjórn og gera hana að veruleika.

Það verður að segja hverja sögu eins og hún er. Umgjörð um gjaldtöku og ýmsa þætti í fiskeldi er losaraleg. Laxeldið hefur skipt sköpum fyrir ýmis byggðarlög, atvinnu og íbúaþróun og haft jákvæð áhrif á fjárhag sveitarfélaga eins og hv. þingmaður kom inn á. Þeim fiskeldisfyrirtækjum sem hafa verið að festa rætur í byggðarlögunum hefur verið vel tekið. Heimamenn hafa lagt sig fram um að styrkja innviði, hafnaraðstöðu og aðra þætti sem eru í þeirra valdi enda hafa verið gefnar væntingar um frekari uppbyggingu í greininni á svæðinu og jafnvel fullvinnslu.

Á ýmsum stigum í þinginu hefur verið unnið að lagagerð, reglugerðasmíð með aðkomu eftirlitsstofnana um leyfisveitingar, svæðatakmarkanir, burðarþol og fleira en allt hefur það verið slitrótt og sundurlaust, dálítið í sílóum eða hólfum. Götin eru mörg og hagsmunaaðilar halda þétt um sín mál eins og eðlilegt má heita. Þessari mikilvægu atvinnugrein er nær undantekningarlaust stýrt eftir reglum um stærsta mögulegan skammtímagróða og ósk um stöðugan vöxt. Það er ekkert að því, það er eðlilegt. Menn þurfa í rekstri að hafa hagnað en samfélagsleg ábyrgð þarf líka að fylgja með í verkefninu. Það er fróðlegt að fylgjast með hver þróunin verður — mér dettur í hug sunnanverðir Vestfirðir — hvernig þróun fyrirtækjanna verður. Munu þau standa við gefin fyrirheit, munu þau sýna samfélagslega ábyrgð þegar til lengdar lætur?

Herra forseti. Heildarstefnumótun er ekki til varðandi þennan risaatvinnuveg sem á sér mikla möguleika og er farinn að skipta verulegu máli efnahagslega fyrir þjóðina. Hvaða áherslu ætlum við að leggja í þessum efnum? Hvað með framtíðina og hina miklu þróun sem þegar hefur átt sér stað í tækni varðandi fiskeldi? Ætlum við áfram að heimila möglunarlaust opið sjókvíaeldi eða ætla yfirvöld að beita sér beinlínis og hafa áhrif á að farið verði í auknum mæli í lokaðar kvíar í sjó eða jafnvel í landeldi þar sem það hentar? Það kostar en hver er kostnaðurinn? Fyrirtækin segja að það kosti of mikið, eigum við að sætta okkur við það? Og hverjar eru raunverulegu skýringarnar og hver er munurinn? Eins og staðan er í dag er áhættan af opnu sjókvíaeldi talin veruleg og afföll svo mikil að það er ekki ásættanlegt. Ef greinin á að stækka með sjálfbærum hætti verður hún að hafa á takteinum vandaða áætlun um hvernig þessi atriði skulu tryggð og vinna verður ítarlegt áhættumat og viðbragðsáætlanir.

Takmarkið verður að vera, herra forseti, að þekkingin sé á því stigi að þegar upp koma ný vandamál séu sérfræðingar vel búnir undir það hvernig þeim skuli mætt. Við höfum sorgleg dæmi um hið þveröfuga hér á landi þegar það tekur marga daga fyrir eftirlits- og viðbragðsaðila að komast á vettvang og átta sig á aðstæðum, hvort sem um er að ræða slysasleppingar, lús eða sjúkdóma. Það er ekki sannfærandi þegar á samhengið er litið að eldisfólkið sjálft sjái t.d. um lúsaeftirlitið og útbúi skýrslurnar en eftirlitsaðilar séu fleiri hundruð kílómetra í burtu og bara sýnilegir með stopulum hætti. Krafan á skilyrðislaust að vera sú að þeir séu alltaf á staðnum. Greinin með sína gríðarlega góðu afkomu getur kostað þetta sjálft, gjaldtakan á að miða við það að greinin geti borið þetta, að við setjum öryggið á oddinn hvað þetta varðar.

Fáar eða engin atvinnugrein á Íslandi er í jafn örum vexti og fiskeldið. Á hverju ári er slegið nýtt framleiðslumet og þeir sem spámannlega eru vaxnir segja jafnvel að við séum enn á upphafsreit í uppbyggingu fiskeldisgreina. Heildarmagn af slátruðum eldisfiski hefur áttfaldast á síðustu tíu árum. Árið 2020 var slátrað rúmlega 40.000 tonnum hér á landi. Mest hefur aukningin orðið í laxeldi sem er 34 sinnum meira nú en árið 2010. Þetta kemur fram í tölum frá Hagstofu Íslands. Samkvæmt þeim störfuðu tæplega 500 launamenn hjá fiskeldisfyrirtækjum árið 2019. Tekjur fyrirtækjanna námu um 29 milljörðum kr. og hafa ríflega þrefaldast á fjórum árum.

Herra forseti. Þótt umræðan hverfist um laxeldi hefur eldi á bleikju sem alin er í ferskvatni haldist nokkuð stöðugt en hefur þó tvöfaldast frá árinu 2010 þegar 2.400 tonnum var slátrað. Í fyrra voru tonnin um 5.000 en þó hafði dregist saman frá fyrra ári. Á Íslandi er nú að finna stærsta framleiðandi bleikju í heiminum með um 3.800 tonna afköst árlega en það er tæpur helmingur allrar eldisbleikju sem framleidd er í veröldinni. Talsverð aukning varð í framleiðslu á regnbogasilungi á milli áranna 2019 og 2020. Alls var 490 tonnum slátrað á árinu 2020 samanborið við 299 tonn árið áður eða sem nemur 64%. Framleiðsla á regnbogasilungi náði hámarki árið 2017 en frá þeim tíma hafa framleiðendur í auknum mæli snúið sér að laxeldi.

Herra forseti. Skiljanlega örlar á þeim áhyggjum að fiskeldi sé bóla sem eigi eftir að springa. Við erum vissulega brennd eftir ýmis ævintýri, loðdýraævintýri, fjármálabóluna og ýmis önnur áföll sem dunið hafa yfir. Við höfum áður séð upp- og niðursveiflu í fiskeldi, vissulega er það rétt. En við lifum á öðrum tímum nú, í breyttum heimi og margt með öðrum hætti. Fiskeldi á Íslandi í dag er um margt mjög ólíkt því sem var á fyrri tímabilum greinarinnar hér á landi. Bæst hefur við regluverkið þótt ýmislegt sé óunnið á því sviði. Þar virðumst við ekki hafa lært lexíuna okkar, því miður. Þess vegna er tillaga Framsóknarmanna mjög þýðingarmikil.

Laxeldi í sjókvíum eykst mest. Fyrir áratug var aðeins rétt rúmum 1.000 tonnum slátrað hér á landi en í fyrra voru þau 34.000. Vöxturinn hefur verið hraðastur síðustu tvö ár. Árið 2018 voru framleidd um 13.500 tonn. Samkvæmt bráðabirgðatölum var útflutningsverðmæti á laxaafurðum 22,6 milljónir árið 2020, sem er 22% verðmætaaukning frá árinu 2019, og útflutningsverðmæti eldisafurða nam tæplega 30 milljörðum kr. árið 2020. Þessar tölur bara hækka. Frjóvguð hrogn eru líka verðmæt hátækniframleiðsla og vega talsvert mikið sé litið til útflutningsverðmæta en eru léttvæg í tonnum talið. Í matfiskeldi á landi eru líka sóknarfæri á komandi árum og eru orðin að veruleika. Við þekkjum Reykjanes, við þekkjum Suðurlandið og við þekkjum landeldi í Öxarfirði.

Tækifærin bíða okkar, herra forseti. Í nýrri skýrslu sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra kemur fram að enn séu mikil tækifæri til vaxtar í sjávarútvegi, í fiskeldi og tengdum greinum og að mögulegt sé að auka útflutningsverðmæti atvinnugreinarinnar verulega á næstu árum. Að gefnum forsendum sem nánar er lýst í skýrslunni gæti virði framleiðslu allra þessara greina aukist í um 440 milljarða árið 2025 og 615 milljarða árið 2030.

Herra forseti. Við erum örþjóð í heimsframleiðslunni á eldisfiski og vöxtur markaðarins er slíkur að jafnvel þótt við eigum eftir að bæta tugum þúsunda við ársframleiðsluna er ólíklegt að það hafi áhrif á markaðinn. Mannkyninu fjölgar og það kallar eftir prótíni. Markaðurinn er því í stöðugum vexti.

Sjókvíaeldi er umdeilt, herra forseti, einkum vegna þeirra umhverfisáhrifa sem starfsemin kann að hafa, ekki síst vegna hættunnar á slysasleppingum og erfðablöndun við náttúrulega laxastofna sem skilgreint er með tilteknum hætti. Stóra verkefnið er að sjá til þess að íslenskt fiskeldi þróist í átt að því öruggasta sem hægt er út frá umhverfissjónarmiðum, hvort sem það varðar laxalús, erfðablöndun, úrgang frá eldi eða annað. Styrkja þarf eftirlitsumgjörð og vísindalegar rannsóknir og setja þarf gjaldtökuna í fastar skorður.

Það er full ástæða, herra forseti, til að ætla að fiskeldi sé komið til að vera og verði ein af sterkum stoðum í íslensku efnahags- og atvinnulífi. Greinin hefur alla burði til þess. Þegar til framtíðar er litið verðum við að ná breiðri sátt um laxeldi, bæði út frá umhverfis- og byggðasjónarmiðum. Okkar bíður það mikilvæga verkefni að styrkja enn umgjörðina hvað varðar lög og reglugerðir, eftirlit og kröfu til framleiðenda þannig að tryggja megi þessa atvinnugrein til langrar framtíðar (Forseti hringir.) og að ekki vofi stöðugt yfir að eldislaxinn sé ógn við umhverfi og náttúru.