151. löggjafarþing — 97. fundur,  18. maí 2021.

ný velferðarstefna fyrir aldraða.

720. mál
[23:00]
Horfa

Flm. (Guðjón S. Brjánsson) (Sf):

Frú forseti. Ég mæli hér fyrir tillögu til þingsályktunar um nýja velferðarstefnu fyrir aldraða. Flutningsmenn auk þess sem hér stendur eru hv. þingmenn Albertína Friðbjörg Elíasdóttir, Ágúst Ólafur Ágústsson og Oddný G. Harðardóttir. Tillagan hljóðar á þessa leið:

Alþingi ályktar að fela heilbrigðisráðherra og félags- og barnamálaráðherra að vinna að mörkun nýrrar velferðarstefnu fyrir aldraða. Með henni verði markvisst horfið frá einhliða hugmyndafræði um stofnanaþjónustu.

Í greinargerð með tillögunni segir að markmiðið sé að leggja höfuðáherslu á virk búsetuúrræði og að ný sýn stjórnvalda auðveldi eldra fólki umskipti í húsnæði við hæfi með virkum, þekktum og raunhæfum leiðum.

Forseti. Ég ætla að gera grein fyrir þessari tillögu og innihaldi greinargerðar en fylgi textanum í greinargerðinni ekki frá orði til orðs. Greinargerðin sjálf stendur fyrir sínu.

Lagt er til að kúvent verði frá ríkjandi viðhorfum í garð aldraðra og markvisst horfið frá einhliða stofnanasýn. Kallað er eftir því að við sem eldumst berum aukna ábyrgð á eigin lífi. Aldrað fólk er ósköp venjulegur og fjölbreytilegur hópur þegna. Meginmarkmið með tillögunni er að hver einstaklingur geti búið á eigin heimili til æviloka með persónulegum stuðningsúrræðum við hæfi og samkvæmt eigin óskum þar um. Tiltæk úrræði hafa því miður enn ekki verið virkjuð nema að mjög takmörkuðu leyti. Stjórnvöld hafa ekki sýnt því áhuga og ekki sýnt einurð en þurfa að nálgast málaflokkinn með beinum hætti og algjörlega nýrri hugsun. Verkin þurfa að tala.

Til að þetta sé mögulegt þurfa fjölbreytt búsetuúrræði að vera valkostur. Ríkjandi viðhorf hjá stjórnmálamönnum hafa verið þau að bregðast við með einföldum lausnum sem álitnar hafa verið við hæfi, að heilsteyptar steinsteyptar stofnanir, ein lausn sem hefur verið ríkjandi, henti fyrir flesta. Þessar lausnir eiga sannarlega að vera minnisvarði um löngu liðna tíð og minna helst á stefnu sem á liðinni öld þótti ágæt fyrir tiltekna minnihlutahópa í samfélaginu sem talið var að þyrftu stuðning og vernd frá skarkala samfélagsins. Stjórnvöld hafa fetað áfram veginn án fyrirheits og á því þarf að verða breyting.

Í ljósi nútímasamfélagshátta, fjölgunar aldraðra og viðhorfa þeirra er krafa um að mótuð verði þverpólitísk stefna með virka þátttöku aldraðra sjálfra í huga. Þessi hófstillta og löngu tímabæra þingsályktunartillaga okkar í Samfylkingunni fjallar um þessi atriði. Pottur er brotinn. Stjórnvöld eiga að hafa frumkvæði, forgangsraða með nýjum hætti og greiða með beinni aðkomu fyrir stórauknu framboði á hentugum og öruggum búsetukosti. Þetta er sá þáttur sem vegur hvað þyngst þegar kemur að vellíðan á ævikvöldi; lífvænlegir og uppbyggilegir valkostir í staðinn fyrir það sem ég leyfi mér að kalla skápapláss á stofnunum.

Liður í þessu verkefni verði raunverulegt átak í umræðu, í fræðslu og upplýsingu til almennra borgara með áherslu á mikilvægi þess að hver einstaklingur beri ábyrgð á eigin lífi og tímanlegum undirbúningi fyrir efri árin, t.d. með flutningi í húsnæði þar sem aðgengi er hindrunarlaust og hægt að veita umönnun ef þörf er á. Beinir hvatar geta m.a. falist í fjárhagslegri fyrirgreiðslu þar sem það á við, allt til þess að tóna niður áralanga og kostnaðarsama stofnanavistun.

Í mörg ár hefur með hléum verið rætt um þörf á áherslubreytingum en nú ríkir nánast neyðarástand. Ekki má gera lítið úr því frábæra starfi sem unnið er inni á hefðbundnum öldrunarstofnunum en í slíkri vistun felst oftar en ekki að eðlileg samfélagsleg tengsl rýrna og rofna jafnvel með öllu. Heilbrigðisþjónustan er eldra fólki afar mikilvæg eins og öllum þegnum samfélagsins. Hjúkrunarþátturinn hefur verið sláandi í umræðunni og ber vitni um það hve okkur hefur borið af leið og hvað við höfum grafið höfuðið djúpt í sandinn og forðast að nálgast þetta viðfangsefni og umræðuna frá heilbrigðara sjónarhorni. Áfram þarf vitaskuld að huga markvisst að hjúkrunarþjónustu við veikt fólk, aldrað fólk og tryggja því umönnun við hæfi. Að verulegu leyti er hægt að færa þá þjónustu nær heimili fólks ef forsendur eru til staðar og vel er á spilunum haldið. Þróun í þá átt tekur tíma. Því er nauðsynlegt að hefjast handa strax.

Sjálfstæð búseta á eigin heimili til æviloka á að vera hið eðlilega hlutskipti. Þetta hefur reyndar verið slagorð stjórnvalda til fjölda ára en innihaldslaust. Það hefur algerlega skort á einurð og stefnufestu þótt vandinn sé hróplegur og blasi við. Margir kunna að velta fyrir sér hvort slík kúvending sé raunhæf. Einhverjir kunna að halda því fram að það sé ómanneskjulegt að ætla veikburða gömlu fólki að hírast eitt og afskipt í eigin kytru, svo að það sé nú orðað heldur kuldalega. Þetta eru útúrsnúningar þeirra sem fastir eru í viðjum viðtekinna viðhorfa og skynja að litlu leyti samfélagsþróunina. Reynsla annarra þjóða í kringum okkur geymir dæmi um ótal bætta kosti að þessu leyti. En Ísland stendur í stað. Tölulegar upplýsingar um heimaþjónustu í hvaða mynd sem er hafa t.d. tekið harla litlum breytingum á undanförnum árum. Á sama tíma er fjöldi aldraðra fastur á sjúkrahúsum landsins, búsetuúrræði við hæfi ekki til og þjónusta úti í samfélaginu vanbúin.

Hvergi eru framfarir, frú forseti, jafn örar og miklar og á heilbrigðissviði. Stöðugt birtast nýjar leiðir til lækninga og meðhöndlunar á meinum mannanna, stórum og smáum, gagnreyndar leiðir til að lækna sjúkdóma, endurhæfa eftir áföll og sömuleiðis að takast á við heilsubrest með lyfjameðferð. Að sama skapi hefur heilbrigðis- og velferðartækni fleygt fram. Þetta skiptir miklu máli fyrir aldrað fólk sem getur tekið virkan þátt í því breytingaferli sem er þegar orðið veruleiki og getur skapað öryggi og betri líðan í eigin umhverfi þar sem aðstæður eru til sveigjanlegrar þjónustu og umönnunar eftir atvikum. Að þessu beinist sýn okkar í Samfylkingunni.

Áskoranir gagnvart fagfólki eru talsverðar. Þær eru að gengið sé til langtímaverkefnis af þessu tagi með opnum hug. Flest fagmenntað heilbrigðisstarfsfólk þekkir til heimahjúkrunar og heimaþjónustu í sinni hefðbundnu mynd þar sem unnið er eftir skipulagi og hugmyndafræði sem þróast hefur að talsverðu leyti yfir langan tíma. Á því er vitaskuld hægt að byggja. Áhersluatriði er að fá fagfólk til liðs við framkvæmdina og markvissar áherslubreytingar, þjálfun til verkefna samkvæmt áherslum stjórnvalda um nýja sýn og einstaklingsbundna þjónustu á eigin heimili.

Frú forseti. Í þróunarverkefni af þessum toga felast margvísleg tækifæri fyrir áhugasamt sérþjálfað starfsfólk eða fagfólk á heilbrigðissviði. Möguleikar felast í sveigjanlegum starfstíma, fjölbreytilegu umhverfi og spennandi nýjungum í notkun þekkingar og tækni varðandi hjálpartæki, sérbúnað á heimili, öryggiskerfi, fjarþjónustu, lyfjaeftirlit, hreinlætiskerfi og í félagslegri nánd og úrlausn á því sviði. Skortur hefur verið á hæfu og góðu starfsfólki í öldrunarþjónustu. Þess er ekki að vænta að breyting verði þar á en að vandinn jafnvel aukist. Því er lykilatriði að skapa starfsvettvang sem vekur áhuga fyrir ungt fólk að takast á við krefjandi nútímaleg viðfangsefni þar sem skapandi hugsun er leiðarstef.

Hluti af vandanum, frú forseti, í stefnulausri þróun í öldrunarmálum er tog á milli ríkisvaldsins og sveitarstjórna um fjármögnun þjónustunnar. Ríkið greiðir t.d. stærstan hluta við byggingu stofnanarýmis og daggjöld fyrir rekstur. Þarna kallast því iðulega á hagsmunir um framkvæmdir og fjármuni til samfélaganna og áþreifanleg atvinnutækifæri. Þetta hefur leitt til afleiddrar sviðsmyndar og misvægis í þjónustu umfram þörf.

Hluti af verkefninu verði sem sagt þróun á sértæku reiknilíkani sem veitir sveitarfélögum svigrúm til að beina fjármunum í viðeigandi markvissa en breytilega þjónustu eftir aðstæðum en ekki fyrst og fremst til hefðbundins stofnanarekstur sem mörgum sveitarfélögum reynist ofviða eins og komið er í ljós og við heyrum köll og hróp um víða úr sveitarfélögum.

Liður í umbreytingaferlinu verði því endurskoðun á fjárhagslegri umgjörð málaflokksins, þar með talin fjármögnun stofnanavistunar og greiðsluþátttaka einstaklinga þar sem skýrt verði kveðið á um fjárhagslegt sjálfræði þeirra og sjálfstæði. Endurskoðun almannatryggingakerfisins er síðan sjálfstætt og brýnt verkefni sem æskilegt er að unnið verði að samhliða. Þar eru álitaefnin mörg, m.a. um vaxandi áhrif lífeyrissjóðsgreiðslna hjá eldra fólki og tengsl þeirra við greiðslur almannatrygginga.

Frú forseti. Eldra fólk er fjölbreytilegur hluti af samfélaginu og sennilega dálítið breytilegri en fólk á besta aldri. En engu að síður fólk með skoðanir, þarfir og væntingar alveg til jafns á við aðra aldurshópa. Því er eðlilegt að viðmót löggjafans sé með sama móti almennt og sérstakur rammi, sérstök umgjörð um þennan aldurshóp sé óþörf. Með því að undirstrika viðhorf og stefnubreytingu er því lagt til í þessari þingsályktunartillögu að lögin um málefni aldraðra, nr. 125/1999, verði endurskoðuð með það fyrir augum að þau verði felld úr gildi.

Í þeim umbreytingum sem lagðar eru til í nýrri velferðarstefnu fyrir aldraða felast nýjar áherslur og margvíslegar áskoranir. Breytingar gerast ekki í skjótri svipan heldur er hér um að ræða þróunarverkefni þar sem þverpólitísk sátt þarf að ríkja. Sigrast þarf á ýmsum hindrunum. Þær stærstu eru eflaust að brjóta af sér hlekki viðtekinnar hugsunar og takast djarflega en yfirvegað á við nýjar áherslur.

Frú forseti. Að lokum þetta: Samkvæmt tillögunni er lagt til að stefnt verði að tímasettum áföngum í þeirri umbreytingu sem áformuð er. Vandað verði til undirbúnings og faglegur og fjárhagslegur ávinningur gerður mælanlegur og metinn jafnhliða. Búin verði til mælitæki sem geta gert þetta mögulegt. Það á bæði við um margvíslega þætti sem snúa að ríkisvaldinu og sveitarfélögunum, en frú forseti, ekki síst að þeim sem eiga mestra hagsmuna að gæta, að hinum öldruðu sjálfum.

Frú forseti. Að umræðu lokinni el ég þá von í brjósti að þessi hófstillta en róttæka tillaga megi ganga til velferðarnefndar til þóknanlegrar umfjöllunar og vonandi jákvæðrar og fái framgang hið fyrsta.