151. löggjafarþing — 98. fundur,  19. maí 2021.

störf þingsins.

[13:02]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Hvar eigum við að fá fjármagnið? spyr fjármálaráðherra þegar málefni öryrkja og almannatrygginga ber á góma. Hann spyr ekki: Hvar eigum við að fá fjármagnið? í þessum ræðustól þegar fjölmiðlar fá 400 millj. kr. eða minkar 180 milljónir kr. eða við annan fjáraustur í boði ríkisins. Frítekjumark öryrkja ætti að vera 200.000 kr. og vel yfir það ef rétt væri gefið. Það er búið að skerða það um nærri 50% og það á líka við um hækkun á bifreiðastyrkjum, lyfjastyrkjum, hjálpartækjastyrkjum o.fl. Allt hefur þetta ekki hækkað í fjölda ára samkvæmt launavísitölu. Öryrkjabandalagið gerir einfaldar kröfur til þingflokka núna fyrir kosningarnar: Lífeyrir hækki, kjaragliðnun leiðrétt, framfærslugrunnur skilgreindur, almannatryggingakerfið einfaldað, fjölbreytt atvinnustefna, viðeigandi aðlögun á vinnumarkaði, jafnt aðgengi að menntun, aukin fræðsla um fatlanir, nauðsynleg þjónusta við börn, geðheilsa barna og ungmenna forgangsmál, fjölgun húsnæðisúrræða, styrkir til breytinga húsnæðis, þjónusta heim, algild hönnun húsnæðis, aðgengi að almenningssamgöngum, stafrænt aðgengi að upplýsingum, lagagrundvöllur fyrir stafrænt aðgengi tryggður, niðurgreiðsla sálfræðiþjónustu, lækkun greiðsluþátttöku heilbrigðisþjónustu, bætt fyrirkomulag hjálpartækja. Réttur til sjálfstæðs lífs, tryggjum fjármagn með réttindum, ekkert um okkur án okkar. Og númer eitt, tvö og þrjú að lögfesta samning Sameinuðu þjóðanna um málefni fatlaðs fólks.

Öryrkjar og fatlað fólk eiga rétt á því að mannréttindi þeirra séu virt og eiga rétt á því að komið sé fram við þau eins og fyrsta flokks þegna en ekki eins og þriðja flokks afgangsþegna sem eru alltaf síðastir hjá ríkisstjórninni og alltaf er spurt: Hvar eigum við að fá fjármagnið til að hjálpa ykkur? Það er ekki spurt að því þegar verið er að borga okkar laun.