151. löggjafarþing — 99. fundur,  20. maí 2021.

aðgerðir gegn atvinnuleysi.

[13:16]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Þetta er nú hálfleiðinleg sagnfræði hjá hæstv. ráðherra. Hann veit auðvitað að við eins og aðrir stjórnarandstöðuflokkar höfum lagst á árar með ríkisstjórninni allan þennan faraldur þó að við höfum vissulega talið að stundum vantaði ýmislegt upp á. Hér talar hæstv. ráðherra um að fólk hafi þurft að ganga á uppsafnaðan sparnað. Við skulum ekki alveg slá loku fyrir það að einhverjir hafi kannski meira að segja þurft að taka lán, selja bílinn sinn, minnka við sig eða gera ýmislegt annað. Sú staðreynd að hér haldist meðaltekjur háar og að að meðaltali hafi fólk það ágætt hefur ekkert með núverandi stöðu mála að gera. Það eru 20.000 manns án atvinnu og við þurfum einhvern veginn að jafna stöðu þeirra þannig að það taki ekki þau og fjölskyldur þeirra og börn mörg ár að komast á réttan kjöl. Ég bið hæstv. ráðherra því vinsamlegast að kynna sér þessar tillögur vegna þess að þær eru eingöngu smurning á þá vél sem ráðherra kynnti í síðustu viku í Hörpu.