151. löggjafarþing — 99. fundur,  20. maí 2021.

fjölmiðlar.

367. mál
[15:27]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Herra forseti. Það er óhjákvæmilegt að byrja á því að gera alvarlegar athugasemdir við hvernig þetta mál var afgreitt úr nefnd í skyndi og að því er virðist umræðu- eða athugunarlaust í ljósi þess hvernig umræðan hefur þróast hér í þingsal við 2. umr. um þetta mál. Þar hafa þingmenn, bæði úr stjórnarmeirihlutanum og stjórnarandstöðu, lagt áherslu á að málið færi til frekari skoðunar í nefndinni og bent á ýmis þau atriði sem þyrfti að huga betur að og væru ekki nógu vel frágengin og lagt áherslu á að málið yrði sett í samhengi og skoðað með þeim tveimur málum sem þegar liggja fyrir í þessum efnum og eru nátengd, eru órjúfanlegur hluti þessa máls. Þar vísa ég annars vegar í þingsályktunartillögu þingmanna Miðflokksins, sem hv. þm. Bergþór Ólason er fyrsti flutningsmaður að, og fjallar um það með hvaða hætti hægt sé að taka á því máli sem hvergi er nefnt, sem gleymdist alveg að nefna, í því máli sem við ræðum hér, þ.e. yfirgnæfandi stöðu Ríkisútvarpsins á markaðnum og þeim miklu áhrifum sem það hefur á einkareknu miðlana. Ég vísa hins vegar í frumvarp hv. þingmanna Óla Björns Kárasonar og Brynjars Níelssonar sem einnig fjallar um þátt RÚV og áhrif Ríkisútvarpsins á rekstur einkareknu miðlanna, þó með aðeins ólíkum hætti sé, en eins og fram kom í umræðunni er ekkert því til fyrirstöðu að samræma þessi tvö mál, sem ég nefndi hér að hefðu beðið, þannig að úr verði eitt heildstætt mál. Eða, ef það verður niðurstaðan, að fara aðra hvora leiðina frekar en hina. Aðalatriðið er, herra forseti, að þessi tvö mál þarf óhjákvæmilega að skoða áður en það mál sem við ræðum hér er afgreitt og fyrir því voru færð mjög skýr og skilmerkileg rök í umræðunni í gær og málið sent aftur til nefndar með þeim skilaboðum að til þess væri ætlast að nefndin setti þetta í samhengi. Það var ekki að ástæðulausu vegna þess að það virðist hreinlega hafa gleymst, eða verið gert viljandi, að taka á stærsta þættinum í þeim vanda sem hér er verið að reyna að leysa, til bráðabirgða segja menn, þ.e. þætti Ríkisútvarpsins og raunar líka áhrifum erlendra efnisveitna og samfélagsmiðla sem taka til sín sífellt stærri hluta af íslenska auglýsingamarkaðnum án þess að greiða virðisaukaskatt hér á landi. Þessu er einfaldlega sleppt og þegar á það er bent að hvorki í frumvarpinu sjálfu né í nefndaráliti meiri hlutans sé vikið einu orði að aðalatriðinu, stærsta vandamálinu sem verið er að leysa, þá er því haldið fram að það verði skoðað síðar.

Reyndar hefur þetta mál verið í skoðun, herra forseti, staða Ríkisútvarpsins. Hæstv. menntamálaráðherra skipaði sérstakan vinnuhóp, held ég að það hafi verið kallað, til að fara yfir stöðu Ríkisútvarpsins og hugsanlegar breytingar þar á. Það vakti talsverða athygli á sínum tíma hvernig sá hópur var skipaður. Ekki fór mikið fyrir því að menn ætluðu að sýnast vera að standa í samráði og svo sem allt í lagi með það. En maður hefði þá kannski frekar gert ráð fyrir því að þessi hópur myndi skila einhverju fyrst hann var eingöngu skipaðar þremur þingmönnum stjórnarmeirihlutans. En nei, það hefur lítið til þessa hóps spurst en þó eru allir þeir hv. þingmenn sem skipa þennan hóp í nefndinni sem fjallaði um það frumvarp sem hér er til afgreiðslu og samþykktu nefndarálit meiri hlutans. Með öðrum orðum, herra forseti, sá hópur sem átti að verða einhvers konar sérfræðingar ráðherrans eða veita fjarvistarsönnun í málefnum Ríkisútvarpsins, þessi sérstaki ríkisútvarpshópur, gleymdi algjörlega að huga að verkefni sínu við vinnslu þessa máls og nefndarálitsins sem segir auðvitað sína sögu um hvernig þetta allt saman er til komið. Vinnunni við endurskoðun á úttektinni á Ríkisútvarpinu hefði átt að vera löngu lokið. Fyrir mörgum vikum rann út lokafresturinn til að skila þeirri vinnu. Ekki er vikið einu orði að henni í frumvarpi sem er ætlað að taka á vandanum sem felst í yfirburðastöðu Ríkisútvarpsins á markaði sem þessi sami hópur hefur verið að skoða, eða átti a.m.k. að hafa skoðað á undanförnum mánuðum. Þetta sýnir okkur svart á hvítu að það er verið að reyna að troða þessum stóra fíl undir teppi fram yfir kosningar. Þá er spurning hvenær og hvort þessi hópur skilar einhvern tímann af sér og þá er nú orðið álitamál hverju það skiptir því að þetta er pólitískur hópur og alveg óvíst hvort eitthvað verði gert með skoðanir þessara hv. þingmanna á Ríkisútvarpinu í framhaldinu. Það er þeim mun undarlegra að umrædd þingmannanefnd skuli þá ekki hafa notað tækifærið til að víkja að málinu í frumvarpinu sem, eins og ég segi, snýst í raun fyrst og fremst um að leysa vandann sem sömu þingmenn hafa verið að skoða í starfshópi sínum, enda hefur þetta allt verið mjög klúðurslegt ferli.

Þetta er kallað, herra forseti, stuðningur við einkarekna fjölmiðla, frumvarp til laga um breytingu á lögum um fjölmiðla, nr. 38/2011. Þetta er ekki nýtilkomið, þetta mál, það var hér á fyrri þingum og vakti ekki mikla lukku. Ekkert varð úr því á sínum tíma, enda sáu margir þingmenn þá að þetta væri kannski ekki skynsamleg ráðstöfun. En svo kom þessi veirufaraldur. Þá notuðu menn tækifærið, eins og reyndar í ýmsum öðrum málum, og tóku að kalla þetta Covid-aðgerðir. Þannig var sams konar mál afgreitt á síðasta þingi og nú er leikurinn endurtekinn og því enn haldið fram að þessi ráðstöfun, sem kölluð er bráðabirgðaráðstöfun, sé viðbrögð við Covid. Hvers vegna í ósköpunum eru menn ekki lengra komnir með þetta en að endurnýta hér stórgallað mál og koma því í gegn eingöngu í krafti tímaskorts sem þessir sömu aðilar hafa búið til og í krafti neyðarástands vegna veirufaraldurs? Það lá ljóst fyrir löngu áður en þessi faraldur hófst að fjölmiðlamarkaðurinn á Íslandi væri í stórkostlegri krísu. Fjölmiðlarekstur hefur alltaf verið erfiður á Íslandi fyrir alla nema ríkismiðilinn en það mátti öllum vera orðið ljóst strax og þessi ríkisstjórn tók við, og raunar fyrr, að aðstæður á fjölmiðlamarkaði á Íslandi kölluðu á sérstakar aðgerðir. Það hafði verið töluvert rætt og þörfin var mjög knýjandi, þörfin fyrir að létta af fjölmiðlunum álögum, bæta rekstrarumhverfi þeirra og ég tala nú ekki um samkeppnisstöðu, stóra vandamál íslensks fjölmiðlamarkaðar, hina óhemjuskertu samkeppnisstöðu einkareknu miðlanna gagnvart ríkisrisanum og erlendum miðlum. En ekkert virðist hafa verið gert í að huga að þessu fyrr en nú samhliða fyrri útgáfu þessa máls að reynt er að fela Ríkisútvarpið í einhverjum þriggja manna hópi. Tímafrestur hans er löngu útrunninn og þá bara láta menn eins og þetta sé allt saman gleymt. Ég skil ekki, herra forseti, þessi vinnubrögð, enda birtist það í frumvarpi sem fleiri hafa bent á í umræðunni að er á margan hátt mjög gallað.

Ég ætla að vitna í eina málsgrein úr nefndaráliti meiri hlutans. Þar segir, með leyfi forseta, um starfið í nefndinni:

„Þá komu fram sjónarmið um að ekki væri nógu skýrt hvað væri styrkhæft.“ — Vissulega sjónarmið sem margir hafa hreyft. — „Í því samhengi bendir meiri hlutinn á að samkvæmt a-lið 2. gr. frumvarpsins“ — til að útskýra þetta — „skal styðja við og efla útgáfu á fréttum, fréttatengdu efni og umfjöllun um samfélagsleg málefni með því að veita einkareknum fjölmiðlum rekstrarstuðning vegna hluta kostnaðar sem fellur til við að afla og miðla slíku efni.“

Þarna reynir nefndin að svara ábendingum, sem hafa komið úr mörgum áttum, um að það hafi verið heldur óljóst hvað væri styrkhæft. Og hvernig er það gert? Jú, nefndin segir: Það sem er styrkhæft eru fréttir, fréttatengt efni og umfjöllun um samfélagsleg málefni. Herra forseti, hvað eru samfélagsleg málefni? Og hvað eru ekki samfélagsleg málefni? Eru íþróttir samfélagslegt málefni? Íþróttir virðast ekki vera samfélagslegt málefni að mati hæstv. ráðherra íþróttamála og þessarar nefndar. Er til að mynda fjölmiðlaútgáfa fólks sem starfar að ákveðnu markmiði til almannaheilla samfélagslegt málefni? Vinna félaga til almannaheilla hlýtur að teljast til samfélagslegs markmiðs. Það sem stendur upp úr er að ráðherrann og svo þessi nefnd sem á að sjá um úthlutunina, úthlutunarnefnd ríkisins, metur það einfaldlega sjálf hvað teljast samfélagsleg málefni í umfjöllun fjölmiðla og þar af leiðandi styrkhæf.

Herra forseti. Það er margt sem mætti nefna í viðbót. Ég kom því ekki að að fjalla um samanburðinn á þjóðkirkjunni og Ríkisútvarpinu. Ríkisútvarpið, eins og menn þekkja er ekki alltaf mjög hrifið af þjóðkirkjunni og hefur staðið fyrir söfnunarátaki oftar en einu sinni, með öfugum formerkjum, til að fá fólk til að skrá sig úr þjóðkirkjunni. En hins vegar leggst það mjög gegn aðskilnað ríkis og útvarps, ríkis og RÚV. Er ekki tímabært, herra forseti, hvað sem líður áformum um áframhaldandi rekstur ríkisútvarps, að a.m.k. löggjafinn sýni örlítið meiri sanngirni gagnvart einkaaðilum á þessum erfiða markaði, hugi að jafnræðisreglu sem er tryggð í stjórnarskrá og gefi fjölmiðlum dálítinn séns á að lifa og dafna án þess að þurfa að reiða sig á árlega ríkisstyrki?