151. löggjafarþing — 99. fundur,  20. maí 2021.

fiskeldi.

265. mál
[16:15]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Jóni Gunnarssyni fyrir ræðuna og þá áhugaverðu breytingartillögu sem hér kemur fram. Breytingartillagan eins og hún liggur fyrir er auðvitað bara texti tillögunnar. Ræðan hefur ekki verið aðgengileg í greinargerðinni eða með slíkum hætti þannig að maður reyndi að hlusta vel á það sem hv. þingmaður sagði og ég held að þetta sé prýðileg nálgun á málið.

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hann hafi í tengslum við vinnslu tillögunnar skoðað hvaða áhrif eftirfarandi setning hefur á mögulega tímalínu. Hún hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Burðarþolsmat fyrir afmarkað svæði skal liggja fyrir áður en vinna við gerð strandsvæðisskipulags hefst, sbr. 11. gr. laga um skipulag haf- og strandsvæða.“

Hefur hv. þingmaður eitthvað skoðað, gagnvart þeirri vinnu sem er í gangi, hver raunveruleg áhrif á tímalínu svæða geta orðið? Ég verð að viðurkenna að mér þykir það skynsamleg röð hlutanna sem hv. þingmaður bendir á, að þetta gerist í þeirri röð en ekki svona hipsum her eins og stefnir kannski svolítið í.