151. löggjafarþing — 99. fundur,  20. maí 2021.

fiskeldi.

265. mál
[16:21]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er ekki óeðlilegt að menn hafi verið tvístígandi og séu margir hverjir tvístígandi yfir því að byggja upp sjókvíaeldi á Íslandi. Sagan er auðvitað lituð af þeirri reynslu sem var af því hér á árum áður þar sem það gekk ekki upp og gekk í raun mjög illa. En gríðarlega mikið hefur breyst. Tæknibreytingar hafa verið mjög örar. Öll öryggismál eru orðin miklu betri en þekktist og slys í kringum þennan iðnað, sleppingar, strok og slíkt, heyra orðið til undantekninga. Þekking manna á viðbrögðum við slíkum aðstæðum er orðin miklu betri og allur tækjabúnaður til þess. Það verður auðvitað grunnurinn að því að sjálfstraustið gagnvart atvinnugreininni muni aukast og það er að aukast um allt land. Þegar þeir sem voru efasemdarmenn, margir hverjir, sjá hvernig þetta er að þróast og gerast í öðrum löndum og svo hér á landi veita þeir því auðvitað athygli hversu gríðarlegar breytingar þetta hefur í för með sér.

Árið 2003 var gefið út kort af Íslandi sem þáverandi landbúnaðarráðherra, Guðni Ágústsson, og fleiri ráðherrar í þeirri ríkisstjórn komu að. Það kort gerði ráð fyrir að fiskeldi yrði eingöngu á Vestfjörðum og Austfjörðum. Það voru svæðin sem voru talin nokkuð örugg gagnvart til að mynda lífríkinu og laxveiðiám. Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim 18 árum sem eru liðin frá því. Kortið hafði í raun aldrei neinar lagaforsendur, hafði enga skilgreiningu í lögum. Síðan þá höfum við sett víðtækan lagabálk um þetta þannig að nú er í raun landið allt undir. Það er ekkert kort lengur sem ræður því hvar er hægt að meta aðstæður. Við göngum mjög langt í reglum um það hvað þurfi að liggja til grundvallar ef leyfa á sjókvíaeldi á ákveðnum stöðum. Það er gert á vísindalegum forsendum, (Forseti hringir.) alveg eins og önnur nálgun hjá okkur. Ég tel að það muni opna tækifæri fyrir önnur landsvæði en nú eru undir til að taka þátt í þessari miklu uppbyggingu.