151. löggjafarþing — 99. fundur,  20. maí 2021.

kosningar til Alþingis.

647. mál
[16:57]
Horfa

Frsm. meiri hluta stjórnsk.- og eftirln. (Jón Þór Ólafsson) (P):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti allrar stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar með breytingartillögu við frumvarp til laga um breytingu á lögum um kosningar til Alþingis, nr. 24/2000, rafræn meðmæli o.fl. Ég ætla að fara yfir nefndarálitið, það er stutt og laggott.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Bryndísi Helgadóttur skrifstofustjóra og Hjördísi Stefánsdóttur frá dómsmálaráðuneyti og Erlu S. Árnadóttur frá yfirkjörstjórn Reykjavíkurkjördæmis norður.

Nefndinni barst umsögn frá yfirkjörstjórn Reykjavíkurkjördæmis norður sem gerði athugasemd um notkun hugtaksins „rafræn undirskrift“ í frumvarpinu. Til þess að rafræn undirskrift hafi sömu réttaráhrif og eiginhandarundirritun þarf hún að vera útfærð rafræn undirskrift í skilningi laga um rafræna auðkenningu og traustþjónustu fyrir rafræn viðskipti, nr. 55/2019. Útfærð rafræn undirskrift sé eina rafræna undirskriftin sem sé jafngild eiginhandarundirritun hvað réttaráhrif varðar. Leggur meiri hlutinn því til breytingu þess efnis.

Meiri hlutinn leggur jafnframt til aðrar breytingar á frumvarpinu sem eru tæknilegs eðlis og ekki ætlað að hafa efnisleg áhrif. Að þessu virtu leggur meiri hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi breytingum sem eru í eðli sínu þannig að á eftir orðinu „með“ í b-lið 2.gr. og b-lið 3. gr. er bætt við orðinu „útfærð“, þá „með útfærðri rafrænni undirskrift“ til að tryggja að réttaráhrifin séu jafngild eiginhandarundirritun.

Það sem frumvarpið gerir er að undirskriftasöfnun á lista til að framboð geti löglega boðið fram og svo samþykki fyrir því að vera á listanum, að undirskrift geti verið rafræn. Það er viðbót við stöðuna eins og hún er en áfram er hægt að gera þetta með eiginhandarundirritun. Það er þá viðbót að jafnframt sé hægt að gera það rafrænt. Það er því útvíkkun réttinda.

Jafnframt er bætt við í frumvarpinu ákvæðum ef svo illa vildi til — og var kannski óvissara þegar frumvarpið var lagt fram og unnið — að sóttvarnaástæður gætu hindrað fólk í því að kjósa eins og við lentum í í síðustu kosningum. Síðasta sumar var farið í reddingar víðs vegar en það náðist ekki alls staðar. Þarna er verið að tryggja að það fyrirkomulag sem þarf að vera til staðar til þess að fólk sem getur ekki kosið sökum þess að það er veikt á farsóttartímum geti þá fengið aðstoð til að kjósa. Það er jafnframt atriði sem frumvarpið lagar og bætir inn í, þ.e. tryggir betur rétt kjósenda.

Undir álitið rita Jón Þór Ólafsson, sem hér stendur, formaður nefndarinnar og framsögumaður, og hv. þingmenn Andrés Ingi Jónsson, Brynjar Níelsson, Guðjón S. Brjánsson, Hjálmar Bogi Hafliðason, Kolbeinn Óttarsson Proppé, Líneik Anna Sævarsdóttir og Óli Björn Kárason.

Þar sem svona mikil sátt ríkir um frumvarpið geri ég ekki ráð fyrir öðru en að það verði samþykkt. Samþykki Alþingi þetta frumvarp hafa kosningalögin breyst. Samhliða þessu erum við í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd að vinna að heildarendurskoðun á kosningalögunum þar sem verið er að taka saman kosningar til Alþingis, forsetakosningar, sveitastjórnarkosningar og þjóðaratkvæðagreiðslur í eina heildarlöggjöf. Þessi breyting mun að sjálfsögðu, verði hún að lögum hér, koma jafngild inn í okkar frumvarp með breytingartillögu til þess að tryggja að þetta ákvæði hér skili sér áfram inn í framtíðina og nýtist í næstu alþingiskosningum þó að heildarendurskoðunin muni ekki taka gildi að fullu fyrr en síðar og að öllu jöfnu ekki vera notuð við kosningarnar í núna í haust.

Ég þakka bara fyrir vinnunnar í nefndinni. Ég þarf ekki að leggja neitt annað til.