151. löggjafarþing — 100. fundur,  25. maí 2021.

tilkynning.

[13:03]
Horfa

Forseti (Steingrímur J. Sigfússon):

Forseti vill upplýsa að í samræmi við nýjar reglur um samkomutakmarkanir verða eftirtaldar breytingar gerðar á sóttvarnareglum á Alþingi, þetta er samkvæmt tillögu forseta og viðbragðsteymisins og var kynnt í forsætisnefnd í morgun: Í fyrsta lagi verður grímunotkun á fundasvæði ekki lengur skylda heldur tilmæli. Eru þau tilmæli sérstaklega áréttuð í tilviki atkvæðagreiðslna ef menn sitja lengi á þingfundasvæðinu. Í öðru lagi er gert ráð fyrir að nefndafundir haldi áfram í gegnum fjarfundarbúnað, en kjósi nefndir að halda staðfund, sem þeim er þá frjálst, verður grímuskylda hjá öllum nefndarmönnum. Leiðir það af sjálfu í samræmi við núgildandi takmarkanir, ef menn sitja lengi í afmörkuðu rými þá gildir áfram grímuskylda. Í þriðja lagi er létt á takmörkunum hvað varðar gestakomur. Þær skulu þó tengjast þingstörfunum og ekki vera skoðunar- eða kynnisferðir eingöngu fyrir gesti þingmanna. Í fjórða og síðasta lagi er reiknað með að frá og með 15. júní geti þátttaka þingmanna í alþjóðastarfi farið fram með venjulegum hætti, þar með talið ferðalög, eftir því sem hefðbundið funda- og ráðstefnuhald hefst á nýjan leik.