151. löggjafarþing — 101. fundur,  26. maí 2021.

störf þingsins.

[13:25]
Horfa

Hjálmar Bogi Hafliðason (F):

Hæstv. forseti. Í upphafi árs voru Íslendingar 368.792 talsins. Íbúaþróun er á einn veg, flestallir rata á suðvesturhornið. Flestir Íslendingar kjósa að búa í þéttbýli. Ísland er smáríki samkvæmt öllum alþjóðlegum mælikvörðum. Íslendingar eru fámenn þjóð, íbúadreifing er ójöfn og landið er landfræðilega einangrað. Á sama tíma verður samþjöppun meðal fólksins. Hér er skortur á samkeppni. Hér er einpóla borgarmynstur og til verður sjálfnærandi hringrás. Glæsileg og myndarleg höfuðborg er mikilvægur hlekkur í byggðastefnu landsins. 28 þingmenn af 63 eru utan höfuðborgarsvæðisins, rúmlega fjórir af hverjum tíu, og einhverjum finnst nóg um samt.

Forseti. Ég vil vekja athygli þingsins og framkvæmdarvaldsins á einu litlu atriði sem við ættum að taka upp og efla og styrkja byggð hringinn um landið. Á ársþingi Sambands sveitarfélaga á Norðurlandi eystra var rætt um valddreifingu miðað við búsetu. Þingið samþykkti tillögu þess efnis að þegar ríkið skipar í stjórnir, ráð og nefndir og starfshópa skal almennt miða við að þriðjungur nefndarfólks skuli vera búsett utan höfuðborgarsvæðisins. Þannig stuðlum við að dreifingu valds. Ég vil því skora á þingmenn að taka þetta til skoðunar og ráðherra að sýna kjark og bregðast við með markvissum hætti.

Nýlega voru kynnt drög að stefnumótandi byggðaáætlun til 15 ára og aðgerðaáætlun til 5 ára, eða hvítbók um byggðamál. Ég vil hvetja alla haghafa til að senda inn umsögn en skilafrestur er aðeins til 31. maí nk. og sá tími er mjög skammur fyrir svo stórt mál.

Að lokum ætla ég að endurtaka hér vísu eftir Þormóður Jónsson Húsvíking:

Byggðastefna lyftir landi

ef laglega er farið með hana.

Hún er eins og heilagur andi,

það hefur enginn séð hana.

Ég vil nota þessar síðustu sekúndur til að skora á hagmæltan forseta Alþingis, sem hefur setið hér síðan 1983, að bregðast við þessu vísukorni og svara okkur þingmönnum, svara þessari vísu.

(Forseti (SJS): Forseti þekkir vísuna en er ekki viss um að hún verði betrumbætt með frekari kveðskap.)