151. löggjafarþing — 101. fundur,  26. maí 2021.

störf þingsins.

[13:27]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M):

Hæstv. forseti. Á fundi velferðarnefndar í morgun lagði ég fram eftirfarandi bókun, en með mér á bókuninni er allur minni hluti nefndarinnar: Við teljum það forkastanlegt að heilbrigðisráðherra hafi ákveðið að færa til skimanir fyrir brjósta- og leghálskrabbameinum innan heilbrigðiskerfisins án þess að samfella þjónustunnar væri tryggð. Nú, fimm mánuðum eftir að flutningur átti sér stað, ríkir enn fullkomin óvissa um afdrif sýna, hvernig upplýsingum er komið á framfæri og hvernig skimunarskrá eigi að virka. Við hörmum sérstaklega að heilbrigðisyfirvöld hafi hunsað álit fjölmargra fagaðila með því að flytja allar greiningar á leghálssýnum til rannsóknastofu á Hvidovre-sjúkrahúsinu í Danmörku. Sú ákvörðun var tekin þvert á álit og ráðleggingar opinberra aðila, meiri hluta fagráðs og skimunarráðs, nefnda og fagfólks, þar með talið embætti landlæknis. Félag íslenskra kvensjúkdóma- og fæðingarlækna og Félag lífeindafræðinga hafa bent á að greiningum leghálssýna verði best borgið hér á landi enda gæði og öryggi slíkra rannsókna tryggð hér. Fagleg þekking er fyrir hendi sem og nauðsynlegur tækjakostur. Þeir hafa einnig bent á að það sé mikilvægt að læknar sem annast sýnatökur geti átt í milliliðalausum samskiptum við rannsóknaraðila vegna sjúkrasögu kvennanna.

Við hvetjum heilbrigðisráðherra til að bregðast við tafarlaust svo ekki hljótist alvarlegur skaði af, og flytja rannsóknir á leghálssýnum aftur til Íslands. Við ítrekum mikilvægi þess að niðurstaða óháðrar skýrslu um málið liggi fyrir sem fyrst. Það þarf að tryggja heilsu kvenna um komandi framtíð.