151. löggjafarþing — 101. fundur,  26. maí 2021.

störf þingsins.

[13:32]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Síðar í dag ræðum við fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar. Fyrst í gærkvöldi lögðu meirihlutaflokkarnir fram endanlegt nefndarálit. Í ljósi þess að fjármálaáætlun næstu fimm ára er eitt af stærri málum sem þingið fjallar um eru það ekki góð vinnubrögð af hálfu meiri hlutans. Hitt er svo orðin viðtekin venja að hunsa með öllu allar breytingartillögur minni hlutans. Umræða dagsins verður að því leyti til sýndarmennska. Það er ekki ætlunin að gera neinar breytingar. Vinnubrögðin eru þvert á stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur þar sem sérstaklega er vikið að því að efla Alþingi og samráð á þeim vettvangi. Stjórnarflokkarnir þrír hafa allir lýst því yfir að þeirra fyrsta val eftir kosningar sé að halda áfram núverandi ríkisstjórnarsamstarfi og fjármálaáætlunin verður að skoðast í því ljósi. Í henni felst stefnuyfirlýsing um framhaldið. Ég ætla að nefna hér tvö atriði um metnaðarleysi ríkisstjórnarinnar. Gert er ráð fyrir því í áætluninni að atvinnuleysi muni festa sig í sessi á bilinu 4–5%. Verulega verður dregið úr stuðningi við nýsköpun. Í áætluninni kemur fram að beita þurfi svokölluðum afkomubætandi aðgerðum á tímabilinu upp á tugi milljarða. Auðvitað vita allir að í því felst niðurskurður eða skattahækkanir nema hvort tveggja sé. En ríkisstjórnin þegir þunnu hljóði um hvaða leið hún ætlar. Það er sjálfsagt vegna þess að hún veit það ekki eða hefur ekki kjark til þess að segja frá því. Ég veit satt að segja ekki hvort er verra.