151. löggjafarþing — 101. fundur,  26. maí 2021.

störf þingsins.

[13:34]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Herra forseti. 900 börn á barna- og unglingageðdeild, 150 börn á biðlista þar, átta mánaða biðtími. 340 börn á biðlistum hjá Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins sem sinnir börnum með alvarlegar þroskaskerðingar, 24 mánaða biðtími. 600 börn á biðlista á þriðju lykilstofnuninni sem sinnir veikum börnum. Hér erum við að tala um Þroska- og hegðunarstöð sem sinnir börnum með taugaþroskaraskanir en þar getur biðin verið allt að 18 mánuðir, sem er heil eilífð fyrir barn í erfiðleikum. 9% ungmenna á Íslandi hafa gert tilraun til sjálfsvígs. Þetta svarar til þess að í 22 barna skólabekk hafi tveir nemendur reynt að fremja sjálfsvíg. Geðlæknir á BUGL sagði nýverið að há sjálfsvígstíðni barna væri ekki tilviljun heldur langtímaafleiðing sparnaðar í forvörnum og úrræðaleysis í kerfinu.

Herra forseti. Þetta er ömurleg einkunnagjöf um kerfið. Allar glíma þessar stofnanir við fjárskort en samt er ekki eins og þær kosti mikið. Kostnaður hjúkrunar allra barna á legudeild Bugl er svipaður og að reka Menntaskólann á Laugarvatni. Greiningarstöðin kostar minna en einn tíunda af opinberri niðurgreiðslu til nautgriparæktar og Þroska- og hegðunarstöð kostar minna en Landmælingar Íslands. Getum við ekki gert betur? Um er að ræða börn sem samfélagið og ríkisvaldið þarf að sinna miklu betur, rétta út hjálparhönd en gera það af alvöru. Börn á bið er böl og til skammar fyrir okkur öll. Við eigum að setja geðræna heilsu barna í fremsta forgang, herra forseti. Getum við ekki öll verið sammála um það?